Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Hagsmunaaðilar hamast gegn innflæðishöftum

„Í ljósi þess hve slæma reynslu við höf­um af óheftu inn­flæði er­lends skamm­tíma­fjár­magns þyk­ir mér nán­ast grát­legt að ein­ung­is tíu ár­um eft­ir hrun séu farn­ar að heyr­ast radd­ir sem vilja end­ur­taka leik­inn,“ seg­ir Gylfi Magnús­son, formað­ur banka­ráðs Seðla­bank­ans.

Hagsmunaaðilar hamast gegn innflæðishöftum
Tempra innstreymi fjármagns Seðlabankinn hefur sætt harðri gagnrýni vegna innflæðishafta sem kynnt voru til sögunnar sumarið 2016 til að sporna gegn vaxtamunarviðskiptum.

Fólk í fjármálageiranum og hagsmunaaðilar í viðskiptalífinu hafa beitt sér af krafti gegn innflæðishöftum Seðlabankans undanfarna mánuði. Þar hafa meðal annars stjórnendur GAMMA verið áberandi, en fyrirtækið fæst við rekstur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða sem fjárfesta meðal annars í skuldabréfum, og hefur fjárhagslega hagsmuni af afnámi innflæðishafta. Jafnframt hafa talsmenn Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs tekið eindregna afstöðu gegn höftunum og hvatt til þess að þeim verði aflétt sem fyrst.

Að mati Seðlabankans þjóna innflæðishöftin mikilvægu hlutverki og hafa spornað gegn vaxtamunarviðskiptum og kerfislægri áhættu í þjóðarbúskapnum en jafnframt bætt miðlun peningastefnunnar og komið í veg fyrir að aðhald hennar beinist um of í farveg gengisstyrkingar. 

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að við núverandi aðstæður væri óráð að afnema innflæðishöftin. Slíkt myndi á endanum bitna á lífskjörum almennings. 

Gylfi Magnússon, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sem nýlega var kjörinn formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, er sama sinnis.

„Í ljósi þess hve slæma reynslu við höfum af óheftu innflæði erlends skammtímafjármagns þykir mér nánast grátlegt að einungis tíu árum eftir hrun séu farnar að heyrast raddir sem vilja endurtaka leikinn,“ segir Gylfi í samtali við Stundina. „Það bendir til þess að mjög hratt fenni yfir reynsluna frá fyrsta áratug aldarinnar.“

Innflæðishöft Seðlabankans, hin sérstaka bindiskylda, fela í sér að binda þarf 40% af nýju innflæði erlends gjaldeyris vegna fjárfestingar í rafrænt skráðum skuldabréfum og víxlum útgefnum í krónum auk hávaxtainnstæðna á vaxtalausum reikningi í Seðlabankanum í eitt ár. Þegar innflæðishöftin voru kynnt til sögunnar í júní 2016 höfðu vaxtamunarviðskipti aukist til muna í kjölfar kynningar stjórnvalda á aðgerðaáætlun til losunar fjármagnshafta. Með innflæðishöftunum vildi Seðlabankinn snúa þeirri þróun við, tempra innstreymi fjár erlendis frá og hafa áhrif á samsetningu þess, en jafnframt stuðla að skilvirkari miðlun peningastefnunnar. 

Hávær gagnrýni á innflæðishöftin

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins og varamaður í stjórn GAMMA, hefur birt tvær greinar undanfarna mánuði þar sem peningastefnunefnd Seðlabankans er gagnrýnd harðlega vegna innflæðishaftanna. Hún telur höftin leiða til lakari vaxtakjara, takmarka lánsfjáraðgengi og draga úr verðmætasköpun.

Eiginmaður hennar, Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, og Valdimar Ármann, forstjóri fyrirtækisins, hafa sett fram sams konar gagnrýni. Á vef fyrirtækisins er að finna þrjá pistla þar sem fundið er að innflæðishöftunum. „Við erum lítil þjóð sem þarf á frjálsum viðskiptum að halda og opnir en ekki lokaðir fjármagnsmarkaðir munu stuðla að lægra raunvaxtastigi, auka framleiðslugetu og skjóta styrkari stoðum undir innlenda verðmætasköpun,“ skrifaði Agnar Tómas síðla árs 2017. Um svipað leyti benti Valdimar Ármann á að með innflæðishöftunum væri Seðlabankinn að beina fjárfestingum erlendra aðila í einn fjármálagerning umfram annan, þ.e. í hlutabréf fremur en skuldabréf. „Fyrirtæki í leit að hlutafé geta leitað til erlendra fjárfesta en fyrirtæki í leit að lánsfjármögnun með skuldabréfaútgáfu eru takmörkuð við íslenska fjárfesta. Það er sérstaklega óheppilegt nú þegar fjármálamarkaðir reyna að ná jafnvægi eftir haftaafléttingu og talsverður skortur á fjármagni ríkir á fyrirtækjaskuldabréfamarkaði.“ 

Nýlega hvatti Viðskiptaráð til þess í úttekt um samkeppnishæfni Íslands að höftin yrðu losuð tafarlaust. Aðalhagfræðingur Íslandsbanka tók í sama streng í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu nú í byrjun september. Þá hefur Hörður Ægisson, ritstjóri Viðskiptablaðs Fréttablaðsins, fært sams konar rök og Valdimar Ármann gegn innflæðishöftunum, sagt þau þurrka upp fjármagn á fyrirtækjaskuldabréfamarkaði þar sem lífeyrissjóðirnir sitji í raun uppi sem einu leikendurnir. „Seðlabankinn ætti að rýmka strax um höftin þannig að gerður yrði greinarmunur á raunverulegum vaxtamunarviðskiptum og langtímafjárfestingum í íslensku atvinnulífi. Að öðrum kosti munu fyrirtæki og heimili enn um sinn þurfa að búa við lakari vaxtakjör en ella,“ skrifaði hann nýlega í leiðara sem birtist í Fréttablaðinu.

Þingnefnd kallaði hagsmunaaðila á fund

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefur tekið undir áhyggjur af áhrifum innflæðishaftanna.

Í mars síðastliðnum fundaði þingnefndin um innflæðishöft með fjórum aðilum sem allir hafa kallað eftir afnámi þeirra; annars vegar með verkefnisstjórn um framtíð peningastefnu Íslands, þeim Illuga Gunnarssyni, fyrrverandi ráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur og Ásgeiri Jónssyni, hagfræðingi við HÍ, sem hefur starfað sem efnahagsráðgjafi hjá GAMMA og fyrir verðbréfafyrirtækið Virðingu, og hins vegar með Agnari Tómasi Möller og Steingrími Finnssyni, framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hjá Fossa mörkuðum, sem þá höfðu báðir kallað eftir endurskoðun innflæðishaftanna. 

Óli Björn Kárasonþingmaður Sjálfstæðisflokksins

Þann 23. mars síðstliðinn fór fram sérstök umræða um innflæðishöftin á Alþingi að frumkvæði Óla Björns. „Höftin draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, eru skaðleg íslenskum hagsmunum og er hlutfall erlendra fjárfestinga á íslenskum verðbréfamarkaði þar af leiðandi mjög lágt í alþjóðlegum samanburði,“ sagði hann.  „Höft, hvort heldur sem það eru innflæðishöft eða útflæðishöft, geta aldrei verið til lengri tíma hluti af einhverju hagstjórnartæki. Það er bara neyðin ein sem réttlætir að þeim sé beitt.“ 

Í þessu samhengi er rétt að benda á að fjármagnshöft af ýmsu tagi voru algeng og álitin mikilvægt hagstjórnartæki víðast hvar í hinum vestræna heimi á eftirstríðsárunum, enda gerði Bretton Woods-kerfið, hið alþjóðlega stofnanafyrirkomulag peninga- og gjaldmiðlamála sem komið var á fót eftir seinni heimsstyrjöld, ekki ráð fyrir óheftum fjármagnsflutningum. Það gerir þó EES-samningurinn sem Ísland er aðili að.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ekki séð ástæðu til að bregðast við innflæðishöftunum. Hins vegar hefur Alþjóðagjaldeyris-sjóðurinn hvatt Íslendinga til að aflétta þeim og tekið þá afstöðu að almennt skuli einungis nota slík höft í neyð, í skamman tíma og með hnimiðuðum og gagnsæjum hætti. Í úttekt AGS um Ísland í júní 2017 er eindregið lagt til að bindiskylda verði færð niður í núll, enda fáist ekki séð að aðstæður hafi raunverulega kallað á beitingu haftanna. Sebastian Edwards og Kristin Forbes, erlendir sérfræðingar sem starfshópur Ásgeirs Jónssonar um endurskoðun á peningastefnu Íslands kallaði til liðs við sig við mat á íslenskri peningastefnu og beitingu fjármálastöðugleikatækja, hafa tekið undir sjónarmið AGS og telja rökin fyrir innflæðishöftum veik, enda hafi innflæði erlends fjármagns ekki verið af þeirri stærðargráðu fyrir tilkomu haftanna að það hefði vegið að fjármálastöðugleika. Slíkri hættu hefði mátt afstýra með annars konar þjóhagsvarúðartækjum.

Leiðrétting: Upphaflega kom fram að GAMMA fengist við verðbréfamiðlun. Hið rétta er að fyrirtækið rekur verðbréfasjóði og fæst við verðbréfafjárfestingar.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Gjaldeyrishöft

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu