Greiningardeild Íslandsbanka segir fyrirhugað frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um losun fjármagnshafta fela í sér öllu myndarlegri heimildir til fjármagnsflutninga en búist hafi verið við. Þetta kemur fram í morgunkorni, eins konar fréttabréfi um efnahagsmál, sem birtist á vef bankans í dag.
„Skrefið er að mati okkar afar jákvætt og löngu tímabært, enda aðstæður til að stíga slíkt skref eins hagfelldar í efnahagslífi og fjármálakerfinu og hægt er að vonast til. Frumvarpið verður lagt fram á Alþingi í dag og ætla má að það taki gildi innan fárra vikna,“ segir í morgunkorninu.
Bendir greiningardeildin á að þrátt fyrir að frumvarpið feli í sér verulega losun fjármagnshafta muni ýmis höft á fjármagnsflutninga sitja eftir. „Má þar nefna meðal annars skilaskyldu á gjaldeyri að hluta, bann við hreinum spákaupmennskuviðskiptum með afleiður og slíkt, og höft á aflandskrónur. Einnig er enn óljóst hverjar heimildir stórra stofnanafjárfesta á borð við verðbréfasjóði verða til erlendra fjárfestinga á komandi misserum. Eftir sem áður hefur Seðlabankinn einnig nánar gætur á gjaldeyrisviðskiptum og -flæði, og fær raunar auknar heimildir til þess arna í hinu nýja frumvarpi.“
Eins og Stundin greindi frá í gær gerir frumvarpið ráð fyrir verulegri losun hafta í tveimur skrefum. Á meðal þess sem breytist strax við gildistöku laganna er að bein erlend fjárfesting innlendra aðila verður ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands. Þá verður einstaklingum veitt heimild til kaupa á einni fasteign erlendis á almanaksári, óháð tilefni og kaupverði.
Tillögurnar voru kynntar á fréttamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í gær. Um er að ræða eitt stærsta mál ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar og Bjarna Benediktssonar og eina af ástæðum þess að þeir vildu ekki að gengið yrði til þingkosninga fyrr en í haust þrátt fyrir þann óróa sem skapaðist í kjölfar Panama-hneykslisins.
Að mati greiningardeildar Íslandsbanka mun fyrirhuguð losun hafta hafa talsverð áhrif á gjaldeyrismarkað á komandi mánuðum. „Næstu vikur eru þó áhrifin bundin við þá aðila sem þegar hafa heimildir til gjaldeyrisviðskipta, s.s. lífeyrissjóði og inn- og útflytjendur vöru og þjónustu. Þessir aðilar gætu séð sér hag í því að draga tímabundið úr gjaldeyrissölu eða auka við gjaldeyriskaup vegna breyttra væntinga um skammtímaþróun gengis krónu, en við teljum líklegt að áhrif þessa verði ekki veruleg.“
Stefán Ólafsson, félagsfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir í pistli á Eyjunni að með losun fjármagnshaftanna muni einkum efnamenn njóta aukins frelsis til að flytja fé úr landi. Þetta muni meðal annars auðvelda fólki að færa fjármuni í erlend skattaskjól. „Í því ljósi er vægast sagt skondið að við alla kynningu á málinu og í fjölmiðlaumfjöllun er nú lögð sérstök áhersla á að þessi aflétting fjármagnshafta sé “í þágu almennings”! Hún er hins vegar einkum í þágu þeirra efnuðustu. Það er eina fólkið sem getur flutt fjármagn úr landi, þannig að máli skipti,“ skrifar hann.
Athugasemdir