Ný kenning, sem sett hefur verið fram í tímaritinu Nature, gæti gerbylt þekkingu okkar á því hvenær mannkynið nam fyrst land í Ameríku.
Hingað til hefur verið talið að menn hafi fyrst komið til Norður-Ameríku fyrir um 15-20 þúsund árum. Þar hafi verið á ferð nútímamaðurinn homo sapiens sem hafi gengið þurrum fótum yfir hið núverandi Beringssund. Sjávarmál var þá mun lægra en nú, vegna þess hve mikið vatn var bundið í ísaldarjöklunum sem þá breiddu sig um stóran hluta jarðar.
Menn hafa smátt og smátt verið að teygja landnámið í Ameríku aftur, og sumir telja jafnvel að menn hafi fyrst komið til norðurálfunnar fyrir allt að 30.000 árum en þær kenningar eru þó mjög umdeildar. Fáir vilja í raun fara aftar en að menn hafi komið til Ameríku í allra fyrsta lagi fyrir 18.000 árum.
Og enginn hefur hingað til látið sér detta í hug að eldri manntegundir hafi komist til Ameríku áður en homo sapiens nam þar land.
Vísindamennirnir sem skrifa greinina í Nature telja sig hins vegar hafa fundið ummerki um menn í Kaliforníu fyrir 130.000 árum, hvorki meira né minna.
Engin bein hafa ennþá fundist, en málið snýst um nokkur brotin bein svonefnds mastódons af loðfíla- eða mammútaætt. Við hlið beinanna fundust nokkrir rúnnaðir steinar, og beinbrotin og steinarnir eru - segja vísindamennirnir í Nature - til marks um að eitthvert dýr hafi meitlað til steinana og notað þá svo til að komast að næringarríkum mergnum í fílabeinunum.
Jafnframt hafa fundið í næsta nágrenni rispur í grjóti sem þykja benda til að þar hafi þessi dýr brotið steinana lausa, til að nota þá síðan á fílabeinin.
Og hvaða dýr gat gengið svo hreint til verks gegn mastódoninum?

Ekkert - nema maðurinn.
Sé kenning vísindamannanna rétt, þá er nokkuð ljóst að ekki hefur verið um homo sapiens að ræða. Þessar leifar sem fyrr segir taldar 130.000 ára gamlar og þá var homo sapiens varla kominn fram á sjónarsviðið, og hafði að minnsta kosti alls ekki yfirgefið Afríku, sitt upprunalega heimaland.
Þarna gæti því hafa verið um að ræða Neanderdalsmenn eða einhverja ennþá óþekkta manntegund - en nýjustu rannsóknir gefa til kynna að manntegundir hafi verið öllu fleiri í árdaga en talið var til skamms tíma.
Ekki er reynt í tímaritsgreininni að leiða líkum að því hvað orðið hafi um þessa fyrstu Ameríkana, en langlíklegast er - sé kenningin rétt - að þeir hafi á einhverjum tímapunkti dáið út, og líklega fyrr en síðar. Annars væri sjálfsagt búið að finna leifar þeirra nú þegar.
Rétt er og skylt að geta þess að þótt Nature sé virt tímarit og birti ekkert rugl, þá hafa ýmsir fornleifa- og mannfræðingar þegar lýst miklum efasemdum um hinar nýju kenningar og telja þær lítils virði.
Stundin mun hins vegar fylgjast spennt með málinu og heitir að flytja lesendum nýjustu fréttir eftir því sem þær berast!
Athugasemdir