Nú - loksins - liggur fyrir að Ísland muni bráðlega losna við gjaldeyrishöftin. Það er gott. Ég veit ekki um neinn sem vill halda gjaldeyrishöftunum á Íslandi. Þess vegna hljóta allir að fagna því að nú sér fyrir endann á höftunum og almenningur á Íslandi getur byrjað að eiga eðlileg viðskipti við útlönd og með erlendan gjaldeyri. Líka þess vegna reikna ég með að flestir fagni afleiðingum þeirra hugmynda um losun haftanna sem kynntar voru í Hörpu í gær.
„Á endann var það penni allra hinna stjórnmálaflokkanna sem sigraði en ekki haglabyssa eða kylfa Framsóknarflokksins. Samningaleiðin varð ofan á þrátt fyrir veru Framsóknarflokksins í ríkisstjórn en alls ekki út af henni.“
En þessi dagsdaglegi þáttur sem snýr að verslun með gjaldeyri og viðskiptum við útlönd - sá hluti haftanna sem stór hluti almennings finnur hvað mest fyrir beint á eigin skinni - er auðvitað bara ein hliðin á losun haftanna. Þessi þáttur er áþreifanlegastur auðvitað.
Nú þurfum við bráðum ekki lengur að fara með flugfarseðilinn í bankann ef við viljum kaupa okkur gjaldeyri; við þurfum ekki að senda bankanum okkar kvittun ef við ætlum að millifæra peninga til annars lands og ef einhvern langar til að kaupa sér fasteign erlendis með peningum frá Íslandi þá þarf hann ekki undanþágu frá gjaldeyrishaftalögunum í gegnum Seðlabanka Íslands.
Stærsta hagsmunamálið liggur sjálfsagt í því að með þessum tillögum sem kynntar voru í gær þá er Ísland loksins á endanum að gera upp við síðustu og erfiðustu afleiðingu íslenska efnhagshrunsins ársins 2008.
Gjaldeyrishöftin voru sett í kjölfar efnahagshrunsins og vegna þess. Hvernig átti að koma í veg fyrir algjört útstreymi eigna í gjaldþrota landi sem var nýbúið að ganga í gegnum „móður allra bankahruna“ þar sem bankakerfið var orðið 12 sinnum stærra en landsframleiðslan? Allt fjármagn í landinu vildi helst fara út úr því strax eftir hrunið. Hvert hefði verðmæti krónunnar eiginlega hrunið ef höftin hefðu ekki verið sett? Hvaða fjárfestar og fjármagnseigendur hefðu ekki viljað forða eignum sínum, eða leifum þeirra frá Íslandi? Hvert hefðu þessar eignir þrotabúa bankanna farið sem nú er búið að komast að grófu samkomulagi um að renni að hluta til íslenska ríkisins? Á Íslandi hefði líklega bara orðið varanlegt hrun þar sem gröfin sem þjóðin var búin að grafa sér á árunum fyrir hrunið hefði bara dýpkað og dýpkað.
Mér finnst samt eiginlega ekki hægt að segja að hrunið á Íslandi sé endanlega yfirstaðið fyrr en búið verður að lyfta gjaldeyrishöftunum. Höftin eru afleiðing hrunsins, þau eru afkvæmi þess og eignirnar sem verið er að semja um í viðræðum stjórnvalda og kröfuhafa bankanna eru eignir sem voru tilkomnar á árunum fyrir hrunið. Þetta eru leifar gömlu viðskiptabankanna sem komu Íslandi í heimsfréttirnar haustið 2008 og í sögubækurnar.
Kannski má jafnvel segja að hrunið á Íslandi verði ekki endanlega yfirstaðið fyrr en búið verður að lyfta gjaldeyrishöftunum og að ljóst verður að það hefur heppnast án þess að Ísland hrynji aftur með tilheyrandi falli krónunnar, fjármálastofnana, fyrirtækja og fjölskylda og einstaklinga - í efnhagslegum skilningi. Niðurstaðan - losun hafta - er því að sjálfsögðu góð.
Ríkissjóður fær svo hluta þeirra eigna sem eru inni í þrotabúunum, kannski um 500 milljarða króna, og verður hægt að nota þá peninga til að greiða upp skuldir ríkisins.
Eftir þessa kynningu á losun haftanna standa hins vegar auðvitað eftir fjölmargar spurningar.
Í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum í gær og í dag hafa birst margar hólgreinar um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins, eins og þessi niðurstaða sé honum að þakka fyrst og fremst. Ástæðan fyrir þessu er sjálfsagt sú að hann og Framsóknarflokkurinn settu það á stefnuskrá sína fyrir komandi kosningar að ná eins miklum peningum og hægt væri út úr þrotabúum föllnu bankanna áður en þeim yrði heimilað að flytja eignir sínar úr landi. Þessa peninga átti svo að nota til að greiða niður skuldir almennings á Íslandi.
„Vandamálið er bara að fuglinn er hrægammur og við þurfum að grípa hann áður en hann fer í hreiðrið.“
Framsetning Sigmundar Davíð á kosningaloforðinu var í fáum orðum sagt fáránleg enda vissi flokkurinn ekki hvernig hann ætlaði að efna það sem hann lofaði. Loforðin einkenndust af pólitískri retórík um að kröfuhafarnir væru hrægammar sem þurfti að skjóta með byssum og gagnrýndi Bjarni Benediktsson flokk Sigmundar Davíðs oft fyrir orðræðuna. Í eitt slíkt skipti svaraði Sigmundur Davíð honum: „Formaður Sjálfstæðisflokksins reyndar heldur því fram að þetta sé fugl í skógi þannig að það sé ekki á þetta að treysta. Vandamálið er bara að fuglinn er hrægammur og við þurfum að grípa hann áður en hann fer í hreiðrið.“ Þannig að Bjarni Benediktsson var einn af þeim sem gagnrýndi Sigmund Davíð fyrir óábyrgt tal sitt.
Framsóknarflokkurinn talaði heldur aldrei eins og flokkurinn vildi fara samningaleiðina í viðskiptum við kröfuhafa. Gjaldþrotaleiðin var ein leið sem talað var um - að einfaldlega setja þrotabú föllnu bankanna í þrot á Íslandi - og allt tal framsóknar gekk út á miklu aggressívari lausnir gagnvart kröfuhöfunum en að ræða við þá og reyna að komast að samkomulagi við þá um hvernig þeir gætu tekið eignir sínar frá Íslandi. Þeir kölluðu þá hrægamma og töluðu um skjóta þá. Frosti Sigurjónsson sagði til dæmis: „Það mætti líkja þessu við það að hrægammurinn er í skóginum, við erum með haglabyssu, treystum við okkur til að fara að ná í hann eða treystum við einhverjum öðrum til þess.“
Eftir kosningarnar 2013 gekk kröfuhöfum bankanna erfiðlega að komast í viðræðustöðu við stjórnvöld um hvernig þeir ættu að geta komist með eignir sínar úr landi framhjá höftunum. Ég man eftir því að þegar ég spurðist fyrir um gang viðræðna um þetta var svarið alltaf það sama: Það er ekkert að gerast. Svo var það ekki fyrr en í árslok 2014 að viðræður hófust um lausn á vandamálinu. Þá var eitt og hálft liðið frá kosningum sem Framsóknarflokkurinn hafði tvímælaust „sigrað“ á grundvelli kosningaloforðs um að taka fullt af peningum frá kröfuhafahrægömmum. Samkomulagið á milli ríkisstjórnarinnar og kröfuhafanna sem kynnt var í gær er afleiðing af þessum viðræðum.
Eftir standa fjölmargar spurningar. Ein þessara spurninga er til dæmis: Af hverju kom þessi niðurstaða ekki fyrr en rúmlega tveimur árum eftir kosningar? Ég hef heimildir fyrir því að kröfuhafar bankanna hafi verið viljugir allt frá árinu 2012 til að setjast að samkomulagsborðinu með íslenskum stjórnvöldum og ræða málin um hvernig þeir gætu komið eignum sínum frá gjaldeyrisheftu Íslandi. Þá þegar voru þeir reiðubúnir að gefa eftir einhvern hluta þeirra til að koma þessu stærstu hagsmunamáli sínu í gegn.
Er hugsanlegt að áróður Framsóknarflokksins gegn þeim, og orð flokksins um að taka harkalega á kröfuhöfunum, hafi tafið fyrir samkomulagsferlinu? Segjum sem svo að Framsóknarflokkurinn hefði keyrt kosningabaráttuna sína á samningaleiðinni, þeirri leið sem nú hefur orðið ofan á í viðræðum við kröfuhafa bankanna. Ef flokkurinn hefði gert það hefði fylgi hans sjálfsagt ekki orðið eins mikið og hann hefði kannski ekki komist í ríkisstjórn. Þetta er samt leiðin sem allir hinir stjórnmálaflokkarnir vildu fara og allir gagnrýndu þeir framsókn fyrir rétórík sína um hrægamma og ævintýralegar peningagjafir.
Hefði komist á samkomulag við kröfuhafa fyrr ef Bjarni Benediktsson hefði til dæmis leitt aðra ríkisstjórn flokka sem allir vildu fara samningaleiðina og höfðu ekki lofað neinu öðru?
Hin spurningin er svo auðvitað hvort þessi stífa afstaða Framsóknarflokksins gegn kröfuhöfunum bankanna hafi bætt vígstöðu íslenska ríkisins gegn þeim og þar af leiðandi gert það að verkum íslenska ríkið getur fengið hærri fjárhæðir út úr búum bankanna nú en til dæmis ef samið hefði verið strax eftir kosningarnar 2013. Þetta er hugsanlegt. Kröfuhafarnir voru hins vegar reiðubúnir til að láta eitthvað af eignum sínum til ríkisins strax 2012 en stirfni framsóknar kann að hafa hjálpað til við að íslensk stjórnvöld fái meira út úr þrotabúum.
Einn heimildarmaður sem ég ræddi við sagði hins vegar að munurinn á þeirri upphæð sem kröfuhafarnir kunna að hafa verið reiðubúnir að láta af hendi rakna þá og nú hlaupi ekki á hundruðum milljarða króna eða neitt slíkt. Því sé um lægri upphæðir að ræða.
Sannleikurinn er sá að þessi kosningaloforð Framsóknarflokksins skiptu á endanum sjálfsagt litlu máli eftir kosningarnar 2013. Þessi samningaleið hefði verið farin hvort sem var, sama hvaða flokkar hefðu verið í ríkisstjórn. Í raun má segja að þetta hafi verið eina leiðin meðan höft ríktu á Íslandi því enginn hinna flokkanna talaði um það að fara gjaldþrotaleiðina. Þessi niðurstaða er því langt í frá niðurstaða sem skrifa má á Framsóknarflokkinn.
Miklu frekar er að það Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni Benediktsson sem eiga skilið hrós fyrir að lenda málinu. Enda heyri ég ekki annað en að Bjarni hafi verið sá ráðherra sem mest hafi unnið í málinu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í góðri samvinnu við Seðlabanka Íslands og ráðgjafa. Bjarni gaf aldrei út neinar fráleitar yfirlýsingar um hrægammadráp og óútskýrða mörg hundruð milljarða í aðdraganda kosninganna. Hann vildi alltaf fara samningaleiðina.
Og það er eitt sem er alveg ljóst: Sigmundur Davíð og Framsóknarflokkurinn hefðu aldrei þurft að segja að þeir ætluðu að skjóta hrægammana (kröfuhafana) enda var það bara aum kosningabrella sem skiptir engu máli efnislega í því samkomulagi sem nú liggur fyrir að verði að veruleika. Kosningaáróðurinn um kröfuhafana skipti hins vegar miklu máli pólitískt séð fyrir Framsóknarflokkinn og fleytti formanninum í forsætisráðuneytið. Vegna áróðursins - kjaftæðisins - mátti Framsóknarflokkurinn heldur ekki sýna kröfuhöfunum of mikla linkind og setjast strax niður að samningaborðinu eins og Bjarni hefur sjálfsagt vilja gera sem fyrst eftir síðustu kosningar.
Á endanum var það penni allra hinna stjórnmálaflokkanna sem sigraði en ekki haglabyssa eða kylfa Framsóknarflokksins. Samningaleiðin varð ofan á þrátt fyrir veru Framsóknarflokksins í ríkisstjórn en alls ekki út af henni.
Stundum er sagt að maður eigi að gera rétta hluti á réttum forsendum. Ef við hugsum um samingaviðræðurnar við kröfuhafana á þessum forsendum þá sést að það er ekki hægt að segja að Sigmundur Davíð og Framsóknarflokkurinn hans hafi gert þetta í þessu tiltekna máli. Þeir sögðust ætla að skjóta hrægamma til að veiða atkvæði en á endanum sömdu þeir bara við þá sem var nákvæmlega það sama og allir hinir stjórnmálaflokkarnir hefðu gert á endanum.
Eftir stendur að kosningaáróður Framsóknarflokksins var innantómur, óheiðarlegur og beinlínis á endanum skaðlegur miðað við hvað hefði getað orðið ef málflutningur flokksins í þessu mikla hagsmunamáli hefði verið ábyrgari.
Athugasemdir