
Á fjögurra ára fresti þykknar í lofti yfir Iowa. Á febrúarhimninum birtist engisprettufaraldur pólitískra pótintáta, áróðursmanna og aðstoðarfólks sem fer yfir frjósamar slétturnar, sem nú liggja í vetrardvala, og stingur sér niður í hverjum bæ og hverju þorpi, hverjum krók og kima. Þá fara fram í fylkinu forkosningar flokkanna tveggja sem öllu ráða í bandarískum stjórnmálum og stundarkorn skiptir öllu máli fyrir vongóða frambjóðendur að heilla íbúa Iowa sem ella eru ekki mikið í sviðsljósinu. Og allir frambjóðendur tönnluðust á því hvað þeir ætluðu að gera fyrir „the good people of Iowa“ og hvers „the good people of Iowa“ gætu vænst ef einmitt hann eða hún kæmust að lokum til valda í Hvíta húsinu.
Nú í ár þóttu úrslitin í Iowa koma svolítið á óvart miðað við það sem spáð hafði verið og allir sérfræðingarnir, sem fylgja engisprettugeri frambjóðendanna sjálfra, klóruðu sér í kollinum og horfðu yfir marflata sléttuna sem þekur mestallt fylkið og spurðu sjálfa sig og aðra: „Hvað eiga íbúar Iowa við?“ En íbúarnir glottu í kampinn, dálítið búralegir en líka undir niðri ánægðir með alla athyglina, og ég sá einhvers staðar á netinu viðtal við miðaldra karl í vatteraðri úlpu á dálítið kuldalegu götuhorni í borg einhvers staðar á sléttunni og hann var spurður af hverju „the good people of Iwoa“ hefðu ekki kosið eins og sérfræðingarnir spáðu og hann sagði sisona: „Við viljum hafa hlutina eins og okkur sýnist sjálfum hér í Iowa. Þetta er okkar land og við höfum alltaf búið hér og við látum ekki utanaðkomandi silkihúfur segja okkur hvað okkur er fyrir bestu.“ Og svo brosti hann kurteislega til að sýna að þótt það væri kannski einþykkt, þá kynni nú „the good people of Iowa“ mannasiði líka.
Og mér datt í hug, þegar ég horfði á þetta, er þarna kominn partur af lausn á ráðgátu sem ég hef stundum glímt við í huganum og snertir aðra marflata frjósama sléttu í rúmlega 5.000 kílómetra fjarlægð frá ökrunum í Iowa? Sléttuna sem geymir Rússland og Úkraínu?
Hvað koma Sovétríkin málinu við?
Þegar þýskir nasistar hófu innrás í Sovétríkin í júní 1941 og skriðdrekar skreyttir hakakrossum spændu yfir svarta moldina, þá voru Hitler og nótar hans búnir að skipuleggja nákvæmlega hvað ætti að gerast eftir þann sigur sem þeir töldu óhjákvæmilegan. Og það var ekki fögur framtíðarsýn fyrir íbúa sléttunnar. Stóran part hinna „frumstæðu“ Slava átti einfaldlega að drepa sem allra fyrst, en hneppa aðra í þrældóm – já, raunverulegan þrældóm – og láta þá púla á blómlegum stórbýlum sem þýskir innflytjendur myndu stofna um alla sléttuna og uppskera allt kornið. Þrælarnir yrðu gerðir ófrjóir og myndu með tíð og tíma deyja út og eftir stæði alþýsk þjóð. Minningar um hina fyrri slavnesku íbúa myndu grafast niður í plógförin í moldinni en ólíkt kornsæðinu myndi ekkert upp af þeim minningum spretta.
Þetta lá nú allt ljóst fyrir, enda það sem mér fannst ráðgáta var þetta: Gæti virkilega eitthvert fólk, jafnvel Þjóðverjar heilaþvegnir af uppeldi nasista, látið sig hafa að ræna svona gjörsamlega landi annarrar þjóðar – og undiroka ekki bara fólkið sem fyrir var, heldur beinlínis drepa það? Hlyti ekki samviskubitið að vakna fyrr eða síðar? Hlytu ekki jafnvel börn hinna grimmustu nasista að sjá að lokum að moldin, hún var ekki svört heldur rauð af blóði?
Ég trúði ekki öðru. Enginn myndi þola slíkan yfirgang og ofbeldi, jafnvel ekki frá sínu eigin fólki. En þarna stóð hann í sjónvarpinu, maðurinn sem kunni svarið, einn af „the good people of Iowa“ þar sem líka þekkist hin svarta frjósama mold og hann sagði: „Þetta er okkar land og við höfum alltaf búið hér …“
Og samt eru langt innan við 200 ár síðan forfeður hans mættu á svæðið og hrifsuðu landið af „frumstæðum“ íbúum og ráku þá burt sem fyrir voru og drápu þá sem voru með múður og beinagrindur þeirra sem voru drepnir eru ekki einu sinni ennþá að fullu rotnaðar í moldinni.
Fólk hrundi niður
Nú kann einhver að segja: Hægan, hægan, ertu virkilega að bera saman hvíta landnema á amerísku sléttunum og innrásarheri þýskra nasista sem fóru með fjöldamorðum um Sovétríkin í seinni heimsstyrjöld? Er það ekki full langt gengið?
Og jú, reyndar er nú svo. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að í sögunni sé ekkert og aldrei neitt að fullu sambærilegt við yfirvegað, ískalt og vandlega skipulagt morðæði Hitlers og nóta hans. Bara svo það sé á hreinu. En niðurstaðan í Iowa varð samt svo undur svipuð því sem nasistar ætluðu að láta gerast í Sovétríkjunum. Ný þjóð komin á slétturnar og man ekki annað en hún hafi alltaf verið þar, fyrri þjóð dauð og burtrekin, gleymd og grafin.
Elsta byggð í Iowa er 13.000 ára gömul. Það var sem sé bara skömmu eftir að fólk kom fyrst til Ameríku sem það sá hvað landkostir voru góðir í „the Hawkeye State“ en „Hauksauga“ er gælunafn Bandaríkjamanna nútímans yfir fylkið. Jurtir spruttu sjálfsánar, gnótt var veiðidýra. Það tók nokkur þúsund ár en að lokum lærðu menn að yrkja frjósama moldina, þá fjölgaði fólkinu. Það gekk á ýmsu, kringum Kristsburð varð mikill þurrkur og fólk hrundi niður, sums staðar næstum allir, en rétt um það leyti sem Ísland byggðist langt úti í óþekktu hafinu, hafði fólkið á sléttunni náð sér á strik og var að læra ræktun á nýrri korntegund er maís kallaðist. Þeirri jurt líkaði svo lífið í þessari mold að fólk hafði nóg að bíta og brenna og enn fjölgaði fólki og heilmikið samfélag myndaðist á sléttunum.
„Hvíti maðurinn“ mætir til leiks
Bæir og jafnvel borgir spruttu upp, einmitt um sama leyti og norrænir menn frá Íslandi og Grænlandi stigu stundarkorn á land í Ameríku töluvert austar en hrökkluðust fljótt burt á ný. Um það leyti sem Sturlungaöld var á Íslandi hafði risið stórborg á sléttunum, þar sem nú er kallað Cahokia í Illinois, nágrannafylki Iowa, þar er talið að allt að 40.000 manns hafi búið þegar flest var. Þetta var landbúnaðarsamfélag í föstum skorðum, með pólitískar stofnanir og skipulag – því miður er samt sorglega fátt vitað um hvernig kaupin gerðust á eyrinni í Cohokiu því fólkið þar hafði ekki komið sér upp ritmáli, og heimildir eru af skornum skammti.
Nema hvað í Cahokia var hróflað upp píramídum eins og annars staðar þar sem menning sprettur upp, samfélagið í Cahokiu og á sléttunum umhverfis var á engan hátt frumstæðara en víða í Evrópu og Asíu á sama tíma.
Svo hnignaði Cahokiu eins og gengur, ástæðurnar eru ekki vel þekktar en koma Evrópumanna til Ameríku um árið 1500 olli gjörbyltingu alls staðar í álfunni, líka langt í fjarska í Iowa þangað sem „hvítir menn“ komu þó ekki fyrr en tæpum 300 árum síðar. Drepsóttir úr Evrópu stráfelldu frumbyggja Ameríku, líka þá sem ekki höfðu enn komist í persónuleg kynni við aðkomufólkið, og brátt var allt á hverfanda hveli. Sumar þjóðir týndu mjög tölunni, aðrar lögðust í flakk, hestar sem sluppu úr haldi Spánverja suðrí Mexíkó fældust norður í hin verðandi miðríki Norður-Ameríku og frumbyggjar lærðu að temja þessa nýju skepnu og nota hana til að eltast við buffalahjarðir, akuryrkju hnignaði, þjóðir að austan leituðu að nýju lífi á sléttunni á flótta undan vaxandi byggð Evrópubúa á austurströndinni. Eftir umrót og mannfækkun drepsóttanna varð lífið aftur blómlegt á sléttunni. Þegar fyrstu Evrópubúarnir komu til Iowa 1675 – það voru tveir franskir landkönnuðir – þá tóku íbúarnir þeim með kostum og kynjum, þeir bjuggu í þorpum meðfram ánum og stunduðu bæði veiðar og landbúnað, og voru langt frá því „frumstæðar“ steinaldarþjóðir þótt ekki hefðu þeir tæknimenningu Evrópubúa.
Skiptimynt í stórveldapólitík
Enn liðu hundrað ár og hver kynslóð tók við af annarri í Iowa, fáeinir verslunarstaðir Evrópumanna voru reistir og býttað á skinnum og ýmsu öðru og alltaf fór hið besta á með íbúum og aðkomnum kaupmönnum, enda hafa kaupmennirnir sjálfsagt ekkert verið að segja íbúunum frá því að langt austur í Evrópu væru stórveldin búin að kasta eign sinni á landsvæði þeirra og notuðu það sem skiptimynt í hráskinnaleik þeirra og styrjöldum. Rétt í byrjun 19. aldar keyptu hin 25 ára gömlu Bandaríki á austurströnd gríðarlegt landsvæði af Frökkum, þar á meðal var Iowa þótt íbúar þar væru ekki spurðir og vissu ekkert af kaupunum. Nema hvað þá hófust Bandaríkjamenn handa við að skipuleggja svæðið, þarna var gnótt loðdýra, það fundust námur í hæðunum sem sums staðar risu upp úr sléttunni og svo leið ekki á löngu áður en uppgötvaðist hvað jörðin var frjósöm.
Þá voru örlög frumbyggjanna í Iowa ráðin. Með alls konar ráðum var hafist handa við að ýta íbúum burt svo pláss yrði fyrir landnema af evrópskum uppruna. Auðvitað er ekki með sanngjörnum hætti hægt að líkja sókn Bandaríkjamanna í vestur í upphafi 19. aldar við skriðdreka Hitlers sem brunuðu í austur tæpum 100 árum seinna, en það var þó meðvitað stefnt að ekki ósvipuðu marki: Burt með þjóðina sem fyrir er, svo okkar fólk fái lífsrými. Og partur af því var að búa til í vitund Evrópumanna þá mynd af íbúum Iowa að þetta væri óttalega frumstætt og ræfilslegt fólk, eins og þá væri réttlætanlegra að hrekja það frá heimilum sínum og drepa það.
Stríð Svarta Hauks
Að lokum snerust íbúarnir til varnar þegar ásókn landnema og landræningja var orðin óbærileg, höfðinginn Makataimeshekiakiak eða Svarti Haukur stýrði skæruliðasveitum gegn Bandaríkjastjórn árið 1832 en sú barátta endaði eins og öll „stríð“ Bandaríkjastjórnar við frumbyggja – með fjöldamorðum. Í byrjun ágúst þetta ár voru tugir ef ekki hundruð af fólki Svarta Hauks drepin af hermönnum. Þar á meðal börn og gamalmenni sem ekki höfðu tekið þátt í neinum hernaði. Örfáir tugir voru eftir af íbúum Iowa, aðrir voru drepnir eða burtreknir. Ritstjóri einn í nýjum bandarískum bæ sem var stofnaður í Iowa í kjölfar þess að Svarti Haukur var kveðinn í kútinn og síðustu frumbyggjarnir reknir burt og drepnir, kom á koppinn gælunafninu Hawkeye State til minningar um Svarta Hauk sem hann bar virðingu fyrir. Og þegar „the good people of Iowa“ tekur sér í munn þetta gælunafn – þegar það hreykir sér af því að „hafa alltaf búið hér“ – þá er það í raun að minnast þeirra sem urðu að deyja svo það gæti hrifsað landið.
Og fengið að hafa sitt að segja um hver yrði forseti - nokkuð sem Svarti Haukur og þjóð hans fengu ekki.
Staðreyndir um Iowa:
Iowa er 145.000 ferkílómetrar. Það þýðir að fylkið er tæplega 50 prósent stærra en Ísland - eða nokkurn veginn eins og eitt og hálft Ísland. Það er 26ta í röðinni yfir fylki Bandaríkjanna að stærð.
Íbúar eru 3,1 milljón sem þýðir að Iowa er í 30sta sæti yfir fylkin að mannfjölda.
Höfuðborgin heitir Des Moines, þar búa 200.000 manns.
Nafnið Iowa er dregið af nafni Iowa-þjóðarinnar sem var meðal þeirra er bjuggu á svæðinu er afkomendur Evrópumanna tóku að setjast þar að. Engir afkomendur Iowa-fólksins búa nú í fylkinu.
Athugasemdir