Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á síðasta ári breytingu á reglugerð um hvalskurð í samræmi við óskir Kristjáns Loftssonar, forstjóra og helsta eiganda Hvals hf. Með reglugerðarbreytingunni felldi ráðherra úr gildi kröfu þess efnis að skera þyrfti hval undir þaki en ekki úti við. Umrædd reglugerð var sett árið 2009 og þar tiltekið að skurðarflötur þar sem hvalur væri skorinn þyrfti að vera yfirbyggður. Þeirri reglugerð var aldrei fylgt.
Fréttablaðið greinir frá þessu í morgun. Þar kemur fram að Kristján Loftsson hafi sent ráðherra tölvupóst 15. maí árið 2018 þar sem hann fór fram á að reglugerðinni yrði breytt. Í póstinum kom fram að Kristján Loftsson taldi reglugerðina úrelta þar eð Hvalur hefði þróað og notað aðferðir um margra ára skeið sem gefist hefðu mun betur en það sem mælt væri fyrir um í reglugerðinni. Þá hefði hann verið í viðræðum við síðustu tvo sjávarútvegsráðherra um umræddar breytingar, sem báðir hefðu að sögn Kristjáns Loftssonar tekið vel í það þó ekki hafi orðið af breytingum.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritaði breytingu á reglugerðinni 25. maí 2018. Í fyrri útgáfu reglugerðarinnar sagði í annarri megingrein 10. greinar: „Hvalskurður skal hafinn um leið og hvalurinn er kominn á land, á þar til gerðum yfirbyggðum skurðarfleti.“ Eftir breytinguna hljóðaði sama grein svona: „Hvalskurður skal hafinn eins fljótt og auðið er eftir að hvalur er kominn á land á skurðarfleti með viðeigandi vörnum sem koma í veg fyrir mengun afurða samkvæmt áhættumati sem rekstraraðili gerir.“
Athugasemdir