Afskriftirnar hjá fjárfestingarfélögum sem Glitnisskjölin sýna að Bjarni Benediktsson stýrði eða kom að því að stýra fyrir hönd fjölskyldu sinnar nema nú tæplega 130 milljörðum króna. Flest fyrirtækjanna sem tilheyrðu fjölskyldunni urðu gjaldþrota eða voru yfirtekin af kröfuhöfum í kjölfar hrunsins. Mikilvægasta félagið sem fjölskyldan hélt eftir er rútufyrirtækið Kynnisferðir sem var keypt út úr N1 á meðan fjölskyldan stýrði enn olíufélaginu og áður en kröfuhafar þess yfirtóku fyrirtækið.
Eitt það markverðasta sem Glitnisskjölin opinbera er hversu hversu virkan þátt Bjarni Benediktsson tók í að stýra fjárfestingarfélögum fjölskyldu sinnar sem Glitnir fjármagnaði að langmestu leyti – helsta undantekningin er fjármögnun Kaupþings á Umtaki, fasteignafélagi N1, sem var með lán upp á 130 milljónir evra þar, eða vel á annan tug milljarða á sínum tíma.
Bjarni var auk þess stjórnarmaður í mörgum af þessum félögum, meðal annars BNT, N1 og Fjárfestingarfélaginu Mætti ehf. Tvö fyrrnefndu félögin eru löngu orðin gjaldþrota og N1 var yfirtekið af kröfuhöfum félagsins eftir hrunið 2008.
Þær afskriftir sem fyrir liggja hjá þessum fyrirtækjum nema tæplega 82 milljörðum króna. Við þessa tölu er eðlilegt að bæta skuldum eignarhaldsfélagsins Földungs ehf., áður Vafnings ehf., við þrotabú Glitnis en þær nema ríflega 47 milljörðum króna. Ástæðan er sú að Földungur ehf. á nær engar eignir á móti þessum skuldum, einungis 52 milljónir króna samkvæmt ársreikningi ársins 2017 og liggur því fyrir að þessar kröfur verða afskrifaðar með tíð og tíma.
Athugasemdir