Tekið er sérstaklega fram í svarbréfi Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra til umboðsmanns Alþingis að hún búi sjálf yfir sérfræðiþekkingu sem hafi nýst við málsmeðferð og undirbúning að skipun dómara við Landsrétt.
„Dómsmálaráðherra sjálfur býr yfir sérþekkingu sem nýttist við vinnslu málsins en hún er menntaður lögfræðingur og starfaði sem lögmaður um árabil,“ segir meðal annars í bréfinu.
Fram kemur að ráðherra hafi ekki leitað til neinna sérfræðinga utan stjórnarráðsins eftir ráðgjöf um efnislega tillögugerð til Alþingis eða mat á einstökum umsækjendum. Áður hefur komið fram að ráðherra hafi fundað með Hafsteini Þór Haukssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, um lagaumhverfið, en fram kemur í svari ráðherra til umboðsmanns Alþingis að Hafsteinn hafi ekki tekið að sér hlutverk ráðgjafa né þegið greiðslu fyrir aðkomu sína að málinu. Þá hafi hann gert athugasemd við ráðherra þegar hann móttók afrit af tölvupóstssamskiptum embættismanna og ráðuneytisstarfsmanna, enda hefði ekki staðið til að hann tæki að sér að semja texta fyrir ráðherra.
Af þeim skriflegu gögnum sem liggja fyrir virðist Sigríður Andersen sjálf vera eini sérfræðingurinn sem taldi undirbúning og verklag sitt við tillögugerð um dómaraefni til Alþingis fullnægjandi með tilliti til meginreglna stjórnsýslulaga. Hennar mat reyndist rangt eins og Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands úrskurðuðu síðar um.
Hafsteinn Þór veitti ekki ráðgjöf um tillögugerðina til Alþingis – enda hafði hann sjálfur tengsl við umsækjendur – og tölvupóstssamskipti sem Stundin og fréttaskýringaþátturinn Kveikur hafa fjallað um sýna að sérfræðingar í þremur ráðuneytum vöruðu við og brýndu fyrir ráðherra að undirbúa málið betur.
Stundin birti bréf umboðsmanns Alþingis til ráðherra í heild þann 23. janúar, en þá hafði hann óskað eftir gögnum um embættisfærslur Sigríðar Andersen í Landsréttarmálinu, meðal annars um ráðgjöf sem ráðherra kynni að hafa fengið.
Hér að neðan má sjá svarbréf ráðherra í heild, en Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri sendi bréfið fyrir hönd Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra:
Athugasemdir