Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, óskaði eftir gögnum um embættisfærslur Sigríðar Andersen í Landsréttarmálinu frá dómsmálaráðuneytinu þann 8. janúar síðastliðinn og fékk þau í hendur sama dag og hann kom fyrir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að fjalla um verklag og stöðu ráðherra.
Í bréfinu kom meðal annars fram að umboðsmaður bæði um gögnin til að geta metið hvort tilefni væri til frumkvæðisathugunar á málsmeðferð ráðherra við skipun dómara.
Stundin sendi dómsmálaráðuneytinu upplýsingabeiðni í síðustu viku og óskaði eftir því að fá fyrirspurnar-bréf umboðsmanns afhent, enda heyra slík bréf undir ákvæði upplýsinga.
Svar við fyrirspurninni hefur ekki borist þegar þetta er skrifað en Stundin fékk bréfið með öðrum hætti. RÚV reifaði efni þess í gærkvöldi, en hér má lesa það í heild:
Umboðsmaður óskaði eftir því að fá gögnin send „sem allra fyrst“ og „eigi síðar en 17. janúar“. Að því er fram kemur í frétt á Vísi.is fékk hann þau hins vegar ekki í hendur fyrr en 18. janúar, sama dag og fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fór fram um málið ásamt umboðsmanni og fleiri gestum.
Eins og Stundin greindi frá á mánudaginn virti dómsmálaráðuneytið ekki lögbundinn frest þingskapa þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd óskaði eftir tiltækum gögnum um embættisfærslur dómsmálaráðherra í Landsréttarmálinu þann 3. janúar síðastliðinn. Samkvæmt 51. gr. laga um þingsköp ber stjórnvöldum að verða við beiðni þingnefnda „eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dögum frá móttöku beiðninnar“. Ráðuneytið afhenti gögnin ekki fyrr en fimmtudaginn 18. janúar. Fyrir vikið gafst nefndarmönnum og fundargestum takmarkað ráðrúm til að kynna sér gögn málsins áður en fjallað var um þau á fundinum.
Athugasemdir