Sigríður Á. Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokksins, mun áfram fara með málefni dómstóla, brotaþola kynferðisofbeldis, útlendinga og mannréttinda í nýrri ríkisstjórn. Þetta var staðfest með forsetaúrskurði á ríkisráðsfundi í dag.
Leyndi upplýsingum um uppreist æru
Tveir og hálfur mánuður er liðinn síðan ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var slitið vegna mála er vörðuðu uppreist æru dæmdra kynferðisbrotamanna. Í ljós kom að dómsmálaráðuneytið, undir yfirstjórn Sigríðar Andersen, hafði gengið lengra í upplýsingaleynd en lög heimiluðu þegar upplýsingum um meðmæli föður þáverandi forsætisráðherra fyrir kynferðisbrotamanninn Hjalta Sigurjón Hauksson var haldið frá almenningi. Um leið hafði hún sagt Bjarna Benediktssyni einum frá því að faðir hans hefði veitt Hjalta meðmæli.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu um miðjan september að almenningur hefði átt rétt á upplýsingum um málefni kynferðisbrotamanna sem höfðu sótt um uppreist æru, þvert á þá hörðu afstöðu sem dómsmálaráðuneytið og þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku.
Eftir að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var slitið kallaði ráðgjafaráð Viðreisnar eftir því að fram færi „rannsókn“ á embættisfærslum Sigríðar Andersen og Bjarna Benediktssonar. Slík rannsókn fór aldrei fram.
Eins og Stundin greindi frá í gær hefur dómsmálaráðuneytið enn ekki afhent Alþingi umbeðin gögn um málin sem sprengdu fyrri ríkisstjórn né svarað upplýsingabeiðni þingkonu Pírata um málið.
Braut lög við skipun dómara
Í sömu vikunni og í ljós kom að dómsmálaráðuneytið hafði ekki fylgt upplýsingalögum þegar almenningi var neitað um upplýsingar um málefni manna sem höfðu fengið uppreist æru komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að Sigríður Andersen hefði brotið lög þegar hún vék frá niðurstöðu hæfisnefndar við skipun dómara við Landsrétt, nýtt dómsstig sem hafði verið í undirbúningi um árabil.
Sigríður valdi meðal annars umsækjanda sem hafði lent í 30. sæti á lista dómnefndar yfir þá sem metnir voru hæfastir. Sá umsækjandi er eiginmaður fyrrverandi samstarfskonu Sigríðar og vinnuveitanda til margra ára á lögfræðistofunni Lex. Jafnframt valdi Sigríður eiginkonu Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem dómara þótt hún hefði ekki verið í hópi þeirra umsækjenda sem metnir voru hæfastir.
Að því er fram kom í dómi Héraðsdóms vegna kærumáls Ástráðs Haraldssonar, eins þeirra fimmtán sem metnir höfðu verið hæfastir sem dómarar við Landsrétt, var stjórnsýslumeðferð ráðherra „ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 50/2016 sem og skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls, mat á hæfni umsækjenda og innbyrðis samanburð þeirra.“ Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem hefur ekki kveðið upp dóm, en Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur boðað vantrauststillögu gegn dómsmálaráðherra ef Hæstiréttur staðfestir þá niðurstöðu Héraðsdóms að ráðherra hafi ekki fylgt lögum við meðferð málsins.
Samkvæmt forsetaúrskurði mun Sigríður Andersen áfram fara með málefni dómstóla og réttarfars í nýrri ríkisstjórn. Þá munu málefni er varða „náðun, sakaruppgjöf og uppreist æru“ heyra undir dómsmálaráðherra ríkisstjórnarinnar, Sigríði Andersen.
Rekur harða útlendingastefnu
Á meðal annarra mála sem heyra undir dómsmálaráðherra eru málefni útlendinga, Útlendingastofnunar og Kærunefndar útlendingamála. Sem dómsmálaráðherra hefur Sigríður Andersen beitt sér fyrir hertri stefnu í útlendingamálum.
Að frumkvæði hennar voru til dæmis sett lög þann 6. apríl síðastliðinn sem sviptu tiltekna hópa hælisleitenda réttinum til að fá réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um brottvísun frestað vegna kæru til æðra stjórnvalds eða dómstóla. Rauði krossinn á Íslandi og Lögmannafélagið vöruðu við lagabreytingunum og töldu að með þeim væri réttaröryggi hælisleitenda skert og mannréttindum þeirra ógnað.
Í lok ágúst setti svo Sigríður Andersen reglugerð sem felur í sér að útlendingar eru sviptir réttinum til framfærslufjár eftir að hælisumsóknum þeirra er synjað og meðan þeir bíða eftir að vera sendir úr landi. Þá fólst í reglugerðinni að ef hælisleitandi er frá ríki sem er á lista yfir örugg upprunaríki og umsókn er metin „bersýnilega tilhæfulaus“ getur Útlendingastofnun jafnframt fellt niður alla þjónustu við viðkomandi eftir að framkvæmdarhæf ákvörðun um synjun umsóknar liggur fyrir. Rauði krossinn gagnrýndi reglugerðina og benti á að vegna hennar gætu hælisleitendur lent milli steins og sleggju, án atvinnuréttinda og framfærslufjár, jafnvel vikum saman meðan þeir biðu eftir að vera sendir úr landi. Undir lok síðasta þings beittu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, með Sigríði Andersen í fararbroddi, sér af mikilli hörku gegn réttarbótum fyrir barnafjölskyldur sem höfðu sótt um hæli á Íslandi. Aðrir flokkar á Alþingi sameinuðust um lagabreytingarnar, en Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði á móti þeim.
Sigríður Andersen fer einnig með málefni mannréttinda í nýrri ríkisstjórn, en undir þetta falla til dæmis tjáningarfrelsismál og mál er varða friðhelgi einkalífs. Sigríður hefur vakið athygli fyrir sjónarmið sín er snúa að þessum réttindum. Nýlega lýsti hún því yfir í ávarpi á aðalfundi Dómarafélags Íslands að hún teldi að í stjórnarskrá Íslands væri tjáningarfrelsinu skipað skör lægra en réttinum til einkalífs. Þá furðaði hún sig á að dómstólar gerðu greinarmun á opinberum persónum og óbreyttum borgurum í dómaframkvæmd sinni.
„Í dómaframkvæmd undanfarið er nokkuð gert með það hvort að sá sem telur að sér vegið sé svokölluð opinber persóna eða ekki. Hafa slíkar persónur þurft að búa við lakari réttarvernd en hinar. Þó hefur löggjafinn hvorki skilgreint hverjir það eru sem geta talist opinberar persónur né gert þennan skilsmun í lagatexta,“ sagði Sigríður.
„Ég veit ekki hvenær „opinberri persónu“ skaut fyrst upp í dómum hér á landi en ég er ekki viss um að þessi skilsmunur sé sanngjarn eða í þágu almennings. Þetta er í öllu falli til umhugsunar fyrir löggjafann.“
Athugasemdir