Ófullnægjandi innviðafjárfestingar gætu orðið dragbítur á hagvöxt og lífsgæði landsmanna ef ekki verður stefnubreyting í málaflokknum, annaðhvort með auknum fjárfestingum hins opinbera eða með stóraukinni aðkomu einkaaðila.
Þetta kom fram í erindi Stefáns Brodda Guðjónssonar, forstöðumanns Greiningardeildar Arion banka, á morgunfundi um nýja hagspá deildarinnar í morgun.
Samkvæmt gögnum Hagstofunnar dróst opinber fjárfesting sem hlutfall af vergri landsframleiðslu saman á tímabilinu 2014 til 2016 en eykst lítillega í ár. Í nýlegri hagspá ASÍ er bent á að fjárfesting í samgönguinnviðum var um þriðjungi minni á árunum 2011 til 2016 en á tímabilinu 1994 til 2003. Þá verður fjárfestingarstig hins opinbera áfram vel undir sögulegu meðaltali næstu fimm árin ef ekki verður skipt um kúrs og horfið frá áætlunum fráfarandi ríkisstjórnar.
Í fjárlagafrumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar er áætlað að vöxtur fjárfestinga hins opinbera árið 2018 verði um 6,4% og þáttur hennar í vergri landsframleiðslu um 2,9%. Tveimur milljörðum króna verður varið aukalega til uppbyggingar Dýrafjarðarganga og 1,5 milljarði króna til áframhaldandi uppbyggingar nýs Landspítala. Framlög til framkvæmda við Norðfjarðargöng og við Bakka lækka hins vegar um 2,6 milljarða króna. „Á árunum 2019 til 2023 er talið að árlegur vöxtur fjárfestingar hins opinbera verði að jafnaði um 4,5% og að hlutur hennar í vergri landsframleiðslu hækki og nái 3% undir lok tímabilsins,“ segir í spá Hagstofunnar sem birtist í síðustu viku.
Fjárfestingaráformin komast hvergi nærri uppsafnaðri viðhaldsþörf innviða sem er metin á meira en 370 milljarða króna í skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviði á Íslandi sem kom út í október. Í kynningarglærum forstöðumanns greiningardeildar Arion banka er bent á að umfang núverandi viðhaldsþarfar innviða sem hlutfall af opinberum fjárfestingum árið 2016 er 584 prósent og sem hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs 62 prósent. Þannig verður viðhaldsþörfinni ekki mætt nema hið opinbera gefi verulega í eða einkaaðilar, jafnvel lífeyrissjóðir, leggi hönd á plóg.
Þingmenn vinstri- og miðjuflokkanna hafa undanfarin ár kallað eftir stórauknum innviðafjárfestingum hins opinbera. Sjálfstæðismenn hafa hins vegar talað fyrir því að hið opinbera haldi að sér höndum í innviðafjárfestingum meðan þenslan er hvað mest.
Flokkurinn skipti um kúrs tæpum mánuði fyrir þingkosningarnar í október og lofaði 100 milljarða útgjaldaaukningu vegna innviðauppbyggingar næstu árin sem yrði fjármögnuð með óreglulegum arðgreiðslum vegna lækkunar eiginfjár bankanna.
Forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka telur þessa leið færa og bendir á að bankarnir hafi búið sig undir arðgreiðslur undanfarin ár en um leið mætt þörf Seðlabankans fyrir fjármögnun gjaldeyrisforða. Fram kom í erindi hans í morgun að valið stæði milli þriggja leiða sem einnig væri hægt að blanda saman. Fyrsti valkosturinn er óbreytt ástand, þar sem innviðir eru látnir sitja á hakanum, annar valkosturinn er stórauknar innviðafjárfestingar hins opinbera, sem myndi þá þýða að skuldir yrðu greiddar hægar niður en ella og þriðja leiðin er að leitað verði aukins samstarfs við einkaaðila um uppbyggingu innviða.
Athugasemdir