Formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi nema Sjálfstæðisflokksins eru flutningsmenn frumvarps til laga um breytingar á útlendingalögum sem lagt var fram í dag.
Frumvarpið felur í sér réttarbætur fyrir barnafjölskyldur sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi og gæti skipt sköpum fyrir afdrif stúlknanna Haniye og Mary og fjölskyldna þeirra sem talsvert hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum, en jafnframt fjölskyldunnar frá Ghana sem fjallað var um í gær.
Breytingarnar, sem lagðar eru til, taka til barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hérlendis fyrir gildistöku laganna og ekki yfirgefið landið.
Samkvæmt núgildandi útlendingalögum ber stjórnvöldum að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Í hinu nýframlagða frumvarpi er lagt til að þessi frestur verði styttur úr tólf mánuðum í níu. „Í því felst að hafi meira en níu mánuðir liðið frá því að umsókn barns um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum skuli almennt taka hana til efnislegrar meðferðar. Jafnframt væri þá almennt eðlilegt að taka til efnislegrar meðferðar umsókn foreldra sem fara með forsjá barnsins, og eftir atvikum systkina, á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna,“ segir í greinargerð.
Þá er lagt til að frestur í 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. laganna verði styttur úr átján mánuðum í fimmtán. „Í því felst að heimilt verður að veita barni sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan fimmtán mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Jafnframt væri þá almennt eðlilegt að veita foreldrum sem fara með forsjá barnsins, og eftir atvikum systkinum, dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laganna til að tryggja einingu fjölskyldunnar, að uppfylltum öðrum skilyrðum.“
Í greinargerð frumvarpsins er sérstaklega áréttaður sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Lagt er til að breytingarnar taki að sinni aðeins til umsókna sem borist hafa fyrir gildistöku laganna. „Segja má að með því móti gefist níu mánaða svigrúm frá gildistöku laganna til að ákveða æskilegt framhald enda væri það fyrst níu mánuðum eftir gildistöku sem breytingar af þessu tagi gætu haft bein áhrif á umsóknir sem berast eftir gildistöku. Að mati flutningsmanna er eðlilegt að veita slíkt svigrúm svo að unnt verði að meta betur áhrif breytinganna og nýtt þing geti tekið afstöðu til þess hvernig æskilegt sé að málinu verði fram haldið,“ segir í greinargerðinni.
Flutningsmenn eru þau Katrín Jakobsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Benedikt Jóhannesson, Óttarr Proppé og Logi Einarsson.
Athugasemdir