Sjónvarpsþættirnir Verbúðin hafa vakið mikla athygli síðan fyrsti þátturinn var frumsýndur fyrir viku, og ugglaust mun þjóðin sitja límd yfir þáttunum næstu vikurnar líka. Sjálfur hef ég aldrei verið á verbúð og get því ekki deilt reynslusögum af því fyrirbæri og þótt ég hafi verið á varðskipunum þrjú sumar meðan ég var í menntaskóla 1976-1978 kynntist ég þar vart allra hrjúfustu hliðum sjómennsunnar.
En vegna þess að Verbúðin hefst árið 1983, þá fór ég samt og leitaði uppi grein sem ég skrifaði í tímaritið Storð og sagði frá sjóferð sem við Páll Stefánsson ljósmyndari fórum í september 1982 og birtist grein um ferðina í fyrsta tölublaði Storðar í apríl 1983.
Storð var tímarit sem Haraldur J. Hamar þáverandi útgefandi Iceland Review gaf út af gífurlegum metnaði í nokkur misseri. Hann var ritstjóri, Páll Magnússon aðstoðarritstjóri en margt á blaðinu hverfðist líka um Palla Stefáns og hans frábæru myndir.
Ég get ekki stillt mig um að birta hér fyrri hluta greinarinnar um sjómennskuna haustið 1982 — seinni hlutinn fylgir á morgun ef að líkum lætur.
— — —
Það er við því að búast að sjómenn séu í miklum metum í landi sem byggir mjög á útvegi og svo hefur lengst af verið hér. Sjómennirnir voru hetjur hafsins og engin lömb að leika sér við; hrjúf karlmenni sem sigruðu konur í landi áður en þeir héldu til fundar við dætur Ægis úti á sjó, glaðbeittir og hraustlegir.
En allt er víst í heiminum hverfult og úr því aðdáunin var taumlaus áður er gagnrýnin harkaleg nú. Í nýlegum bókum og dægurlagatextum segir af öðrum sjómönnum og öðruvísi. Þeir eru alls órómantískir drykkjusvolar, ruddar og réttnefndir skíthælar; flestir þeirra heldur heimskir. Starfið hreinasti viðbjóður.
En nú víkur sögunni út á skuttogarann Guðbjart frá fsafirði.
„Það er þá jafngott það fiskist eitthvað,“ seglir einn hásetinn og fitlar við lúinn kuta. Svo brosir hann. Áhöfnin á Guðbjarti hefur tekið okkur [blaðamönnunum] vel og hjátrúin um fiskifælurnar er eins og til skrauts. Við erum á leiðinni út Ísafjarðardjúp, það er miðvikudagur í september og stefnan hefur verið sett á Barðagrunn. Þar er von um þorsk.
Þeir eru fljótir að koma sér fyrir. Sumir fara beint í koju, eiga vaktina milli sex og tólf, hinir sitja niðri í matsal og spjalla saman.
Nokkrir eru að koma úr fríi og eru spurðir spjörunum úr. Fóru þeir suður; einhverjar góðar bíómyndir, böll?
Þeir þekkjast vel enda hafa víst flestir verið um borð svo árum skiptir og einir fjórir allt frá því að Guðbjartur kom til landsins árið 1973. Þeirra á meðal er skipstjórinn, Hörður Guðbjartsson, en hann er í brúnni.
Guðbjartur er kominn í hóp elstu skuttogara flotans en stendur enn vel fyrir sínu. Yfirleitt hefur hann verið gott aflaskip og 1976 var hásetahluturinn þar hæstur yfir landið.
Síðustu tvö árin hefur gengið svolítið verr en skýringar eru ekki á reiðum höndum. Sumir þusa út í kallinn en það er næstum eins og kækur sem fæstir taka mjög hátíðlega. Aðrir nefna breytta veiðarfæratækni eða að þorskurinn sé farinn að hegða sér öðruvísi en hann gerði hér áður fyrr. Sjórinn kaldari. Eftir sem áður er Guðbjartur yfir meðallagi yfir landið í heild. Vestfjarðatogararnir fiska oftast betur en aðrir enda er stutt á miðin.
Fimm, sex tíma sigling. Þá er allt klárt og það er kastað á Barðagrunni. Það er lítill sjór en spáin ekki falleg; stormur á Vestfjarðamiðum, segir veðurstofan áhugalausri röddu. Þeir láta sér það reyndar í léttu rúmi liggja og hafa séð hann verri um dagana. Aftur á móti verða þeir fúlir þegar híft er eftir fáeina tíma og það eru ekki nema nokkur hundruð kíló af þorski í trollinu.
Hundur í hásetunum
„Þið hefðuð átt að vera með í ágúst,“ segir kallinn í brúnni. „Þá fengum við einu sinni fimmtíu, sextíu tonn í hali. Svoleiðis gerist ekki oft núorðið.“
Hörður Guðbjartsson hefur verið á sjó í rúm þrjátíu ár og ætti að vita hvað hann er að segja.
Daginn eftir er stormur og ennþá minna fiskirí. Kallinn hristir bara hausinn þegar híft er síðdegis og aflinn er fimmtíu kíló. Þeir reyna með flottrollinu en það er sama sagan.
Í matsalnum sitja hásetarnir og það er óttalegur hundur í þeim. Sá með kutann hefur þó sem betur fer gleymt hverjir bera ábyrgðina.
Matsalurinn er hjarta skipsins en hvorki brúin, vélarrúmið né vinnslusalurinn. Þar situr vaktin milli þess sem gert er að þeim smánarafla sem fæst úr djúpinu og þeir sem eiga frívakt eru þar flestum stundum þegar þeir eru ekki sofandi. Klefarnir þeirra eru að vísu rúmgóðir en næsta ópersónulegir og loftið súrt svo fyrir kemur að þeir leggja sig bara í matsalnum.
Þar hanga myndir á veggjum; rómantískar eftirprentanir af eggjandi suðrænu kvenfólki, jólakort frá skipasmíðastöðinni í Noregi og útgerðinni Norðurtanga, litmynd af forsetanum, nokkrir kristilegir veggplattar og Biblía í stálumgjörð.
Sú Biblía virðist þó vera lítið lesin því leiðslan í vídeóið hefur verið lögð gegnum hana.
Vissulega lesa þeir ennþá, alls konar bókmenntir, en í gamla daga var líka tekið í spil og það var skákklúbbur sem veitti verðlaun.
Nú hefur vídeóið gengið af skákklúbbnum dauðum og enginn man lengur hvenær síðast var spilað bridge. Sjónvarp næst ekki nema rétt uppi í landsteinum en þeir hafa menn í landi sem taka dagskrána upp á band og svo horfa þeir á hana við tækifæri. Safna Skonrokki og Tomma og Jenna.
Vídeóið er oftast í gangi.
Engin rómantík
Eða menn lesa dagblöðin sem komið er með um borð í inniverum, sum þeirra eru orðin býsna gömul, eða þeir bera saman bækur sínar um húsbyggingar, bílakaup og jafnvel fiskverð og pólitík.
Stundum dettur þeim í hug að rífast og fjúka þá upp með stóryrðum og djöfulgangi sem engum kemur til hugar að taka alvarlega. Það er fremur tilbreytingarsnautt, lífið um borð, en þeir láta sig hafa það af því tekjurnar eru góðar.
Ennþá.
„Ég er ansi hræddur um að það sama sé að gerast núna og gerðist upp úr 1950 þegar ég var á Sólborginni gömlu,“ segir skipstjórinn sem er einn í brúnni.
„Þá stóð kaup sjómanna í stað í þrjú ár og allt í einu voru mennirnir farnir. Það sást bara í iljarnar á þeim upp á land. Á örfáum vikum misstum við alla pokamennina okkar, en þeir voru sex, og það sama var uppi á teningnum á öðrum skipum.
Á endanum þurfti að flytja inn Færeyinga því hæfir pokamenn voru bara ekki til og það tók langan tíma að lokka þá út á sjó aftur. Nú myndi þetta gerast svo snögglega að enginn gæti spornað við því og það gætu liðið mörg ár áður en aftur fengist góður mannskapur.
Það er nefnilega engin rómantík eða hugsjón að vera úti á sjó, skal ég segja þér. Þetta er eins og hver önnur vinna og erfið vinna í þokkabót, fjarri fjölskyldunni. Þessu skyldu menn ekki gleyma þegar þeir tala um að sjómenn hafi hátt kaup. Kaup sem þar að auki fer sífellt lækkandi. Ef hægt er að hafa það jafngott í landi vilja fáir vera úti á sjó.“
Bráðum fara þeir í land
Niðri í matsal eru hásetarnir sí og æ að tala um að bráðum fari þeir í land; það sé ekkert upp úr þessu að hafa lengur, miðað við erfiðið og einangrunina. Þeir vinna tólf tíma á sólarhring, sex tíma vaktir í senn, og lengur ef þörf krefur. Skipið er svona viku úti í einu og stoppar stutt í landi. Það eru engir sunnudagar.
Á Ísafirði hafði ég hitt fyrrverandi háseta á Guðbjarti sem hafði farið á sjóinn að syni sínum nýfæddum og nú, níu árum síðar, voru þeir feðgar að kynnast í fyrsta sinn. Það er líka hægar sagt en gert að hætta á aflaskipi; þessi tiltekni háseti var í tvö ár að vinna sig niður, ef svo má að orði komast, vegna skattanna.
Öllum ber þó saman um að sjómennskan sé nú að ýmsu leyti skárra hlutskipti en var fyrir nokkrum árum, ef óvissan um kjörin er undanskilin.
Það er til að mynda ekki lengur fáheyrður lúxus að fara í frí. Á Guðbjarti má heita að sé ein og háif áhöfn og alltaf einhverjir í fríi. Fáir munu vera á sjó lengur en átta til níu mánuði á ári og skipstjórinn segist hafa áhyggjur af því ef einhver tekur sér ekki nógu oft frí.
Það hafi enginn gott af því að vera of mikið úti á sjó.
Skammt í að verða vitlaus
Guðmundur Einarsson fyrsti vélstjóri segir mér frá hátt í mánaðar síldartúr sem hann fór 1967 alla leið norður að Bjarnarey; taugaveiklunin jókst stöðugt eftir því sem þeir voru lengur úti í Ballarhafi. Áhöfnin var eins og hengd upp á þráð og samkomulagið slæmt undir lokin, einn hásetanna átti skammt í að verða vitlaus.
En hvað þá um gömlu togarajaxlana sem þjóðsögur hafa myndast um og sungið er til í óskalögum sjómanna, þá sem voru úti vikum og mánuðum saman og áttu aldrei frí?
Áhöfnin á Guðbjarti hlær bara.
„Þeir voru heldur ekki í húsum hæfir, margir hverjir.“
Ný manngerð er komin á togarana, að minnsta kosti Guðbjart. Þeir eru allir fjölskyldumenn nema einn og vilja vera heima hjá konunum sínum.
Er þá ekkert út á sjó að sækja, annað en sæmileg laun?
„Ojú,“ segir skipstjórinn. „Þetta eru rólegheit. Það er enginn að atast í manni.“
Og einn hásetinn bætir við:
„Þetta er í sjálfu sér fyrirtakslíf fyrir menn sem gera litlar kröfur. Úti á sjó gera menn ekkert annað en vinna, sofa, éta. Svo þegar komið er í land er maður eins og kóngur í ríki sínu — það snýst allt í kringum mann en um Ieið er maður til lítils gagns á heimilinu.
Þetta er þó að breytast með auknum fríum og mátti líka gera það. Áður voru hjónabönd sjómanna eins og spariföt sem farið var í í landi.“
Veðrið versnar
Veðrið versnar alltaf. Guðbjartur er léttbyggt skip og lestin þar á ofan tóm svo hann veltist eins og korktappi á öldunum en heggur sjaldan — þó er trollið úti.
Á undan okkur öslar djúpskreiður Færeyingur og gengur sjór yfir hann. Sjórinn kemur úr norðri og má vel ljúga því að mér að sjöunda hver alda sé stærst.
Stöku sinnum má sjá hnúta rífa sig upp í fjarska; eins gott að við vorum ekki þarna. Ég veit auðvitað að þetta er ekki annað en smotterí miðað við þau veður sem verst verða, en þegar þeir lenda í reglulega vitlausu veðri; eru þeir þá aldrei hræddir?
Ekki segja þeir.
„Ætli við séum ekki eins og ökumenn í landi,“ segir bátsmaðurinn Sigþór Sigurðsson. „Teljum okkur trú um að það komi aldrei neitt fyrir okkur.“
Kallinn skellir bara upp úr.
„Maður hugsar ekki um svoleiðis. Þetta sekkur ekki.“
Í matsalnum er kýraugað oftar í kafi en upp úr. Vaktin hefur skorðað sig tryggilega á bekkjunum og tekur varla eftir látunum, horfir á vídeóið.
Inni í eldhúsi er kokkurinn að undirbúa kvöldmat fumlausum hreyfingum og setur rennblautan dúk á annað borðið til að diskarnir fari ekki veg allrar veraldar. Jens Jónsson er góður kokkur og mannskapurinn tekur hraustlega til matar síns. Þeir borða í þeirri röð sem þeir koma; það er engin stéttaskipting á Guðbjarti.
Klám í kirkjugarðinum
Í miðjum klíðum gellur í talsímanum á veggnum:
„Hífa!“
En þegar þeir koma aftur frá því að slægja glotta þeir bara hver til annars.
„Tveir þrír fiskar,“ segja þeir, „eða svo.“
Veðurstofan giskar á fárviðri næsta sólarhring og kallinn ákveður að fara í land og bíða þess að veðrinu sloti og þorskurinn dúkki upp á nýjan leik.
Á leiðinni inn á Ísafjörð nota þeir tækifærið og sýna okkur [blaðamönnunum] klámmyndir í vídeóinu. Fylgjast sjálfir með af eins konar skyldurækni en dauðleiðir. Hafa séð þessar filmur ótal sinnum áður og vita hvað gerist næst. Það sama og gerðist áðan.
Sex í kirkjugarðinum.
— — —
Athugasemdir (1)