Á köldum degi í desember árið 2005 fór Pietro Mancini, sérfræðingur á rannsóknarstofu, niður í kjallara á gamalli efnaverksmiðju í bænum Spinetta Marengo á Norður-Ítalíu þar sem hann fann nokkuð undarlegt: taum af gulu ryki á veggjunum og gólfinu, sem virtist hafa orðið eftir þegar bráðinn snjór hafði flætt þar inn.
Í geymslu í annarri byggingu fann hann leðju, sem einnig var gulleit og flæddi úr rifu á gólflista. Hann tók sýni. Eftir prófanir kom í ljós að efnið var stútfullt af sexgildu krómi, þungamálmi sem getur valdið krabbameini.
„Þeir sögðu mér að hafa ekki áhyggjur, að þetta kæmi mér ekki við“
Þegar Mancini kvartaði undan þessari ógn við heilsu starfsmannanna gerðu yfirmenn verksmiðjunnar og rannsóknarstofunnar lítið úr áhættuni, að því fram kom í máli Mancini síðar. „Þeir sögðu mér að hafa ekki áhyggjur, að þetta kæmi mér ekki við,“ sagði hann.
Í 120 ár hefur verksmiðjan framleitt alls konar eiturefni, þar á meðal litarefni og skordýraeitrið DDT. Skaðleg efni sem notuð voru í framleiðslunni voru grafin á svæðinu og láku ofan í grunnvatnið. Verksmiðjan fór í kjölfarið að framleiða flúorefni, sem einnig eru skaðleg, til að gera hitaþolið plast og minnka viðloðun efna við það, til dæmis vatnhelda húð fyrir potta og efnavöru.
Árið 2011 lofaði nýr eigandi, belgíski efnarisinn Solvay SA, að svæðið yrði hreinsað og lekar stöðvaðir. Yfirmenn sem unnu fyrir arkitekt kaupanna, Bernard de Laguiche, stjórnanda hjá Solvay, áttu að sjá um ferlið og tilkynna ítölskum stjórnvöldum um hvernig miðaði.
En þrifin og viðgerðirnar töfðust. Í stað þess að tilkynna vandamálin til yfirvalda skiluðu starfsmenn fyrirtækisins og verktakar skýrslum sem gerðu lítið úr menguninni og hættunni af henni samkvæmt framburði vitna og skjölum sem ítölsk yfirvöld fengu og voru í framhaldinu skoðuð af alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, International Consortium of Investigative Journalists (ICIJ).
Árið 2008, næstum þremur árum eftir að Mancini komst að því hver staðan væri í geymslunni, fundu skoðunarmenn sexgilt króm í brunnum við verksmiðjuna í 40-földu magni miðað við það sem löglegt er. Yfirvöld á staðnum lýstu yfir neyðarástandi.
Ítalskir saksóknarar ákærðu loks á þriðja tug manns, þar á meðal yfirmenn hjá Solvay og fyrrum yfirmann verksmiðjunnar, og sögðu það viljandi gert að grunnvatnið hafi verið eitrað og svæðið ekki hreinsað upp.
Á meðal þeirra ákærðu voru de Laguiche, sem er af einni af stofnfjölskyldum Solvay. Hann hafði staðið fyrir kaupunum á verksmiðjunni og fleirum í Evrópu og Bandaríkjunum sem notuðu flúorefni með það fyrir augum að Solvay keppti við risann DuPont sem framleiðir Teflon vörurnar. Kaupin á verksmiðjunum höfðu ýtt undir velgengni fyrirtækisins.
Stuttu áður en ákærurnar voru lagðar fram og svo aftur skömmu á eftir fluttu de Laguiche og nánustu fjölskyldumeðlimir hann andvirði rúmlega 50 milljóna Bandaríkjadala í sjóði á Singapúr og Nýja-Sjálandi með aðstoð fjármálaþjónustu með aflandsreikninga og svissneskra ráðgjafa, að því fram kemur í trúnaðargögnum.
Gögnin eru kölluð Pandóruskjölin og þeim var lekið til ICIJ sem deildi þeim með hópi alþjóðlegra fjölmiðla. Stundin er samstarfsaðili ICIJ á Ísland. Gögnin sýna gríðarlegt flæði peninga til skattaskjóla af hálfu ríks og valdamikils fólks, sem kemur því þannig undan skattheimtumönnum og yfirvöldum og fordæmalausar upplýsingar um fagmennina sem hjálpa þeim.
Úr gögnunum má lesa að meðal þeirra sem flytja peninga sína í aflandsfélög og -sjóði eru stjórnendur efnafyrirtækja sem sökuð hafa verið um meiriháttarbrot á umhverfisverndarlöggjöf. Á meðal þeirra eru Jai og Vikram Shroff hjá UPL Ltd., indverskum framleiðanda skordýraeiturs sem hefur verið sektaður af þarlendum dómstól fyrir að fara á svig við umhverfisreglugerðir, og Vladimir og Sergei Makhlai, sem stýrðu heimsins stærsta ammóníaksframleiðanda áður en þeir voru báðir sakfelldir fyrir svik í Rússlandi árið 2019.
Athugasemdir