Hátt í þriðjungur barna sem vistuð voru á langtímameðferðarheimilum Barnaverndarstofu á árunum 2000 til 2009 lýstu því að þau hefðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanna heimilanna, alls 31 barn. Þrjátíu prósent barnanna sem urðu fyrir ofbeldi segja að þau hafi ekki greint frá því á meðan að á dvöl þeirra stóð.
Fjöldi kvenna hefur lýst því í umfjöllun Stundarinnar að þær hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu forstöðumanns meðferðarheimilisins Laugalands á nefndu tímabili.
Upplýsingar um upplifun barnanna á ofbeldinu koma fram í niðurstöðum rannsóknar á afdrifum barna sem voru vistuð á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu á fyrrnefndu árabili. Rannsóknarskýrslan, sem birt var í september 2012, var unnin af Rannsóknastofnun í barna og fjölskylduvernd fyrir Barnaverndarstofu. Athygli vekur að í samantekt á niðurstöðum í skýrslunni segir: „Yfirleitt var lítið um ofbeldi inni á meðferðarheimilunum og sumt ofbeldi sem ungmenni sögðust hafa orðið fyrir af hendi starfsmanns var talið hluti af því að stoppa óæskilega hegðun barns. Í þeim tilfellum sem greint var frá ofbeldi var það bundið við ákveðin heimili.“ Rétt er að hnykkja á því að 29 prósent barna sem voru vistuð á langtímameðferðarheimilum sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanns og sama hlutfall hafði orðið fyrir ofbeldi af hálfu annarra sem voru vistaðir á meðferðarheimilinu.
Fjöldi kvenna lýsir ofbeldi á Laugalandi
Í síðasta tölublaði Stundarinnar stigu fram sex konur sem vistaðar höfðu verið á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, í Eyjafirði og lýstu þær því hvernig forstöðumaður heimilisins, Ingjaldur Arnþórsson, hefði beitt þær bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Jafnframt lýstu þær því að þær hefðu orðið vitni að því að Ingjaldur beitti aðrar stúlkur sem dvöldu á meðferðarheimilinu ofbeldi og að harðræði og óttastjórnun hefði ríkt inni á heimilinu. Konurnar krefjast þess að skipuð verði rannsóknarnefnd til að fara í saumana á rekstri heimilisins með hliðsjón af vitnisburðum þeirra um ofbeldi Ingjalds en hann rak heimilið á árunum 1997 til 2007.
„Hann skrifaði ekkert niður og ekkert gerðist í kjölfarið“
Í Stundinni var jafnframt greint frá því að tilkynningar um harðræði og ofbeldi af hálfu Ingjalds hefðu borist Barnaverndarstofu þegar árið 2000. Árið 2001 funduðu þrjár stúlkur sem höfðu dvalið á Laugalandi með umboðsmanni barna og lýstu ofbeldinu. Umboðsmaður upplýsti Barnaverndarstofu um lýsingar stúlknanna og jafnframt er tilgreint að fleiri lýsingar á harðræði og ofbeldi á Lauglandi hefðu þá borist. Umboðsmaður fór fram á það við Barnaverndarstofu árið 2002 að rannsókn yrði gerð á ásökununum en gögn benda ekki til að það hafi verið gert.
Ein stúlknanna, Kolbrún Þorsteinsdóttir, lýsir fundi sem hún átti með Braga Guðbrandssyni, forstjóra Barnaverndarstofu, og lýsti fyrir honum ofbeldinu í Varpholti og Laugalandi. „Hann skrifaði ekkert niður og ekkert gerðist í kjölfarið.“
Bragi kvaðst í samtali við Stundina ekki geta svarað fyrir málið. „Mig rekur ekki minni til að barn hafi komið á minn fund með umkvörtunarefni um þetta, án þess að ég sé að útiloka það fortakslaust, enda ertu að vísa þarna í hartnær tuttugu ára gamla heimsókn, ef að hún hefur átt sér stað,“ sagði hann.
Svör foreldra ríma við svör barna
Rannsóknin frá árinu 2012 tók til tíu meðferðarheimila Barnaverndarstofu, þar af til sjö langtímameðferðarheimila. Hér verður aðeins fjallað um langtímameðferðarheimilin nema annað sé tiltekið. Umrædd heimili eru Laugaland, Hvítárbakki, Árbót, Berg, Geldingalækur, Háholt, Jökuldalur og Torfastaðir. Rannsóknin var unnin á árunum 2010 og 2011. Í skýrslunni eru niðurstöður rannsóknarinnar ekki eða lítt brotnar niður eftir meðferðarheimilinum og er fjallað um þau í heild. Stundin hefur óskað eftir bakgrunnsgögnum fyrir Laugaland sérstaklega frá Barnaverndarstofu. Af þeim sem svöruðu könnuninni höfðu 22 verið vistuð á Laugalandi, 7,6 prósent.
Af þeim börnum sem vistuð voru á langtímameðferðarheimilum Barnaverndarstofu greindu 29 prósent frá því að þau hefðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu annarra vistmanna. Algengasta svarið var að börnin hefðu verið beitt andlegu ofbeldi en alls 16,7 prósent barnanna svöruðu því til, 7,2 prósent sögðust hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, 1,7 prósent höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni og 0,7 höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Tæplega 40 prósent þeirra sem urðu fyrir ofbeldinu sögðu ekki frá því á meðan á dvöl þeirra stóð.
Foreldrar barnanna voru einnig spurðir hvort börn þeirra hefðu orðið fyrir andlegu eða líkamlegu ofbeldi af hálfu annara barna sem voru í meðferð á sama tíma. Foreldrar barna sem dvalið höfðu á langtímameðferðarheimilum svöruðu því játandi í 17 prósentum tilvika. Sé horft til svara barnanna sjálfra og þess að 40 prósent þeirra sögðust ekki hafa greint frá ofbeldinu á meðan að á dvöl þeirra stóð má sjá að svör foreldra ríma mjög vel við þær tölur.
Fjórðungur sagði ekki frá
29%
Börnin voru einnig spurð hvort þau hefðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanna meðferðarheimilinna. Af þeim börnum sem dvöldu á langtímameðferðarheimilum Barnaverndarstofu svöruðu 29 prósent því játandi, alls 31 barn. Dreifing svara var ólík á milli heimilanna sem um ræðir, þannig hafði enginn sem dvaldi á heimilunum að Geldingalæk eða Hvítárbakka orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanns, heimilið á Jökuldal var undanþegið þar eð aðeins barst eitt svar þaðan. Eftir standa því fjögur langtímameðferðarheimili, Laugaland, Árbót, Berg og Háholt. Hlutfall þeirra barna sem höfðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanns var á bilinu 13 til 50 prósent á þeim heimilum. Ekki er frekara niðurbrot að finna í skýrslunni.
Í svörum aðstandenda kemur fram að 20 prósent foreldra barna sem voru vistuð á langtímameðferðarheimilum sögðu börn sín hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanna. Tæpur fjórðungur, 23,5 prósent, greindi ekki frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanna á meðan að á vistun þeirra stóð samkvæmt svörum foreldra.
Í skýrslunni kemur fram að af þeim börnum sem orðið höfðu fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanns á langtímameðferðarheimilum Barnaverndarstofu höfðu þau flest orðið fyrir andlegu ofbeldi, eða 23 prósent. Þá sögðust 17 prósent þeirra hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu starfsmanns og í einu prósenti tilvika fyrir kynferðislegu áreiti. Mörg barnanna nefndu fleiri en eina tegund ofbeldis. Þrjátíu prósent barnanna sögðu ekki frá því að þau hefðu verið beitt ofbeldi á meðan að á dvöl þeirra á meðferðarheimilinu stóð.
Yfir þriðjungur sagði dvölina ekki hafa hjálpað
Börnin voru spurð um ýmis atriði er lutu að dvölinni á meðferðarheimilinu. Meðal annars var spurt hvort þau hefðu náð góðu sambandi við að minnsta kosti einn starfsmann og svöruðu flest því játandi, eða 90 prósent.
34%
Í heild sögðu 62% þeirra barna sem dvöldu á langtímameðferðarheimilum Barnaverndarstofu að dvölin hefði hjálpað þeim við að takast á við þann vanda sem þau glímdu við. Hins vegar sögðu 34% að dvölin hefði ekki hjálpað þeim.
Þegar horft er til þess hversu vel dvölin gagnaðist börnunum þá má nefna að 41% þeirra barna sem dvalið höfðu á langtímameðferðarheimili höfðu farið í meðferð við áfengis- eða fíkniefnavanda eftir að dvöl þeirra lauk. 50% þeirra höfðu leitað sér aðstoðar vegna tilfinningalegra eða geðrænna erfiðleika.
Þá höfðu 26% þeirra barna sem dvöldu á langtímameðferðarheimilum Barnaverndarstofu setið í gæsluvarðhaldi eða í fangelsi eftir að dvöl þeirra á heimilunum lauk.
Stúlkurnar á Laugalandi þorðu ekki að segja frá
Barnaverndarnefndir sveitarfélaganna eru einu aðilarnir sem geta vistað börn á meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu. Barnaverndarnefndirnar sjálfar bera ábyrgð á vistun og dvöl barnanna. Samkvæmt svari við fyrirspurn Stundarinnar til Barnaverndar Reykjavíkur var það starfsregla þar, og er, að væri kvartað yfir meðferð barna á vistheimilum eða meðferðarheimilum voru þær umkvartanir sendar til Barnaverndarstofu. Hið sama gildir um Barnavernd Akureyrarbæjar. Í svari frá Barnavernd Akureyrar kemur fram að Barnavernd búi ekki yfir neinum gögnum er varði Laugaland sjálft, aðeins gögnum er varði þau börn er þar voru vistuð og óheimilt er að afhenda á grunni persónuverndar.
Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, vildi í samtali við Stundina ekki þvertaka fyrir að þar væri að finna gögn er sneru að Laugalandi, ótengd nafngreindum börnum sem þar hefðu dvalið. Hins vegar hefðu ábendingar eða erindi af slíku tagi verið send áfram til Barnaverndarstofu til meðferðar. Vísaði Hákon á Barnaverndarstofu í því samhengi. Stundin hafði þegar sent upplýsingabeiðni til Barnaverndarstofu og óskað eftir að fá þau gögn sem snertu Laugaland, áður Varpholt, á árabilinu 1997 til 2007 afhent. Þeirri beiðni hefur enn ekki verið svarað.
„Þegar einhver frá barnaverndaryfirvöldum kom í heimsókn til að kanna ástandið á heimilinu þorðum við ekki að segja neitt slæmt um Ingjald“
Barnaverndastofa sinnti bæði eftirliti og ráðgjöf með meðferðarheimilum sem starfrækt eru á hennar vegum. Eftilitinu var skipt í innra eftirlit og ytra eftirlit. Í ytra eftirliti fólst meðal annars eftilit með faglegu starfi innan meðferðarheimilanna. Í innra eftirliti fólst meðal annar eftitlit með líðan barna sem dvöldu á meðferðaheimilum og framvindu meðferðar þeirra. Sem lið í því eftirliti skyldu starfsmenn Barnaverndarstofu heimsækja meðferðarheimili þrisvar á ári, skoða aðstæður, starfsemina og líðan einstakra barna auk þess að leggja fyrir þau viðhorfskönnun. Konurnar sem dvöldu á Laugalandi hafa lýst því að þær hafi ekki þorað að segja neitt neikvætt um starfsemina eða framgöngu Ingjaldar Arnþórssonar í þessum heimsóknum. Þær hafi ekki treyst neinum fullorðnum enda hafi þær upplifað að það sem þær segðu í trúnaði bærist Ingjaldi til eyrna, með þeim afleiðingum að framkoma hans við þær versnaði enn. „Þegar einhver frá barnaverndaryfirvöldum kom í heimsókn til að kanna ástandið á heimilinu þorðum við ekki að segja neitt slæmt um Ingjald,“ sagði Gígja Skúladóttir í viðtali í síðasta tölublaði Stundarinnar.
Athugasemdir