Útgerðarfélagið Samherji viðurkennir að atriði í rekstri dótturfélaga samstæðunnar í Namibíu hafi verið „gagnrýniverð“ og að félagið geti lært ýmislegt af skýrslu norsku lögmannastofunnar Wikborg Rein um Namibíumálið. Samherji skellir hins vegar skuldinni á því sem miður fór í Namibíu á þá millistjórnendur sem stýrðu rekstrinum þar og fullyrðir að yfirstjórn félagsins á Íslandi hafi ekki vitað eða komið að því að greiða mútur til stjórnmála- og ráðamanna í landinu til að komast yfir hestamakrílskvóta.
Þetta kemur fram í grein um Namibíumálið og rannsókn Wikborg Rein sem birt var í norska blaðinu Dagens Næringsliv í vikunni.
Engir starfsmenn nafngreindir
Samherji nafngreinir ekki hvaða starfsmenn, eða einstaklingar það eru sem bera ábyrgð á hinni „gagnrýniverðu“ háttsemi en talskona félagsins og ritari forstjórans, Margrét Ólafsdóttur, notar fleirtölu þegar hún svarar spurningum blaðsins.
Út frá þessu má áætla að vörn Samherja í mútumálinu í Namibíu snúist ekki eingöngu um að reyna að halda því fram að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri dótturfélags Samherja í Namibíu og uppljóstrari í málinu, beri einn ábyrgð á mútugreiðslunum heldur einnig aðrir millistjórnendur hjá félaginu. Aðrir stjórnendur Samherja í Afríku og Namibíu á þessum tíma voru þeir Aðalsteinn Helgason, Ingvar Júlíusson og Egill Helgi Árnason sem tók við framkvæmdastjórastarfinu í Namibíu af Jóhannesi og stýrði henni fram á þetta ár. Upphaflega reyndi Samherja að halda því fram að Jóhannes einn væri ábyrgur fyrir mútugreiðslunum en þessar greiðslur héldu hins vegar áfram eftir að hann hætti hjá fyrirtækinu og því gekk sú skýring ekki upp.
Greint var frá mútugreiðslum Samherja í Namibíu í sjónvarpsþættinum Kveik, Stundinni, hjá Al-Jazeera og á uppljóstrunarsíðunni Wikileaks í nóvember í fyrra. Rannsókn Wikborg Rein á málinu hefur staðið yfir síðan þá og hafa komið fram ólíkar upplýsingar um hvort til standi að gera rannsóknarskýrsluna opinbera eða ekki. Í grein norska blaðsins kemur fram að ekki standi til að birta skýrsluna opinberlega.
Samherji gengur lengra í Noregi
Í viðtali við norska viðskiptablaðið gengur Samherji lengra í því að gangast við „gagnrýniverðri“ háttsemi innan samstæðunnar en félagið gerði í tilkynningu á íslensku sem félagið sendi frá sér í síðustu viku. Samherji gengur einnig lengra í því að varpa ábyrgðinni á þessari háttsemi yfir á einstaklinga sem störfuðu innan samstæðunnar, jafnvel þó Samherji nafngreini þá ekki.
„Enginn vafi leikur á því að Samherji hefur leyft einstaka starfsmönnum að stýra einstaka dótturfélögum með gagnrýniverðum hætti.“
Orðrétt segir Margrét fyrir hönd forstjóra Samherja, Þorsteins Más Baldvinssonar og Björgólfs Jóhannssonar, í tölvupósti til Dagens Næringsliv: „Við höfum fengið í hendurnar mjög yfirgripsmikla rannsóknarskýrslu og það er ljóst að í henni er að finna mörg atriði sem hægt er að læra af. Enginn vafi leikur á því að Samherji hefur leyft einstaka starfsmönnum að stýra einstaka dótturfélögum með gagnrýniverðum hætti. Samherji hefur hins vegar ætíð hafnað því að stjórnendur samstæðunnar hafi skipulagt það að tiltekin dótturfélög skyldu gera gagnrýniverða hluti til að komast yfir gæði.“
Í íslensku fréttatilkynningunni um málið var haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni, stjórnarformanni Samherja, að útgerðin hafni því að „stjórnendur fyrirtækisins“ hafi lagt á ráðin um „vafasama viðskiptahætti“. Eiríkur hafnar því hins vegar ekki í þeim orðum sem höfð eru eftir honum að „vafasamir viðskiptahættir“ hafi átt sér stað innan samstæðunnar heldur einungis því að æðstu stjórnendur Samherja á Íslandi hafi skipulagt þessar gjörðir sem sagðar eru „gagnrýniverðar“ í norska dagblaðinu.
Orðrétt er haft eftir Eiríki: „Þá ber að undirstrika að Samherji hafnar því alfarið að stjórnendur fyrirtækisins hafi nokkru sinni hlutast til um að nokkurt dótturfyrirtækja þess stundaði vafasama viðskiptahætti, þar á meðal mútugreiðslur eða peningaþvætti, í því skyni að ná fram fjárhagslegum ávinningi og mun andmæla kröftuglega frekari ásökunum í þá veru.“
Niðurstaðan virðist því vera sú að Samherji gengst við því að vafasamir hlutir hafi átt sér stað í rekstrinum í Namibíu en að stjórnendurnir á Íslandi beri ekki ábyrgð á þessu heldur einungis millistjórnendurnir í Afríku, þó ekki séu þeir nafngreindir.
Þannig byggist vörn Samherja ekki á því að því að atburðirnir sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum, mútugreiðslur upp á vel á annan milljarð króna, hafi ekki átt sér stað heldur einfaldlega að stjórnendur móðurfélagsins á Íslandi hafi ekki vitað þetta eða komið að mútunum með nokkrum hætti. Út frá orðalaginu í norska blaðinu þar sem talið er um ónafngreinda einstaklinga í fleirtölu þá liggur ábyrgðin hjá þeim en ekki Þorsteini Má Baldvinssyni og yfirstjórninni á Íslandi, samkvæmt Samherja.
Vörnin sem Samherji er með og undirbýr virðist því fyrst og fremst snúast um að verja æðstu stjórn félagsins en ekki millistjórnendurna í Afríku.
Niðurstaða Wikborg Rein virðist afhjúpandi
Miðað við orðalag Samherja sjálfs eru að minnsta kosti hluti niðurstaðna Wikborg Rein afhjúpandi og óþægilegar fyrir Samherja. Þetta skýrir væntanlega af hverju Samherji hyggst ekki birta skýrsluna eða niðurstöður hennar að sinni.
Norska blaðið Fiskeribladet hefur meðal annars fjallað um þá ákvörðun Samherja að birta ekki skýrslu eða niðurstöður Wikborg Rein. Norska blaðið reyndi að fá leyfi til að taka viðtal við starfsmenn Wikborg Rein um niðurstöður rannsóknarinnar en fékk ekki heimild til þess frá Samherja, samkvæmt frétt í blaðinu, og vísaði Margrét Ólafsdóttur til þess að veiting upplýsinga um niðurstöðurnar gæti spillt fyrir rannsóknarhagsmunum.
Norska blaðið spurði einnig að því hvort að Samherji myndi gefa ákæruvaldinu í löndum þar sem málið er til rannsóknar aðgang að skýrslunni en fékk heldur ekki svar við því.
Þá spurði Fiskeribladet loks að því hvort leyndin sem Samherji héldi um niðurstöður Wikborg Rein benti ekki til að Samherji vildi ekki opinbera upplýsingar sem kunna að „afhjúpa lögbrot“. Þessari spurningu svaraði Samherji ekki samkvæmt Fiskeribladet.
„Við veljum að trúa því að lögfræðiskrifstofan Wikborg Rein hafi skrifað hlutlæga og greinandi skýrslu“
Í leiðara í blaðinu fyrir nokkrum dögum er sú niðurstaða Samherja að halda skýrslu Wikborg Rein leyndri gagnrýnd. Þar segir meðal annars: „Við veljum að trúa því að lögfræðiskrifstofan Wikborg Rein hafi skrifað hlutlæga og greinandi skýrslu, þar sem hvorki lögbrot né lögleg viðskipti eru falin. Svo lengi sem skýrslan er ekki opinbert gagn er það bara Samherji sjálfur sem situr með svarið í fanginu. Eða allt þar til opinberar stofnanir og rannsóknaraðilar komast að sínum niðurstöðum.“
Wikborg Rein getur heldur ekki tekið einhliða ákvörðun um opinbera rannsóknarniðurstöður sínar þar sem Samherji á skýrsluna. Þetta kemur meðal annars fram í máli Geir Swiggum, talsmanns Wikborg Rein, í greininni í Dagens Næringsliv. „Vinnu okkar er lokið samkvæmt beiðni stjórnar Samherja. Það er stjórnin sem tekur ákvörðun um hvernig farið skal með niðurstöður okkar, þar með talið að hversu upplýsingar og niðurstöður skuli gerðar opinberar.“
Í greininni í Fiskeribladet er enn fremur tekið að ekki standi til að Wikborg Rein muni koma að því að gæta hagsmuna Samherja eða einstakra starfsmanna fyrirtækisins í málinu gagnvart ákæruvaldinu eða fyrir dómi, ef til slíks kemur. Í fréttinni kemur fram að íslenskir lögmenn Samherja muni sjá um þetta.
Athugasemdir