Engir þingfundir verði haldnir næsta mánuðinn, frá og með deginum í dag og til 20. apríl, samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar Alþingis til að stemma stigu við útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Starfsemi Alþingis hefur nú verið skert eins mikið og mögulegt er. „Þetta er afar óvenjulegt og hefur líklega aldrei gerst áður í sögu Alþingis, “ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis
Formenn þingflokkanna funduðu í morgun og forsætisnefnd Alþingis síðan í framhaldinu. Þar var ákveðið að starfsáætlun Alþingis yrði tekin úr sambandi og að á þessum tíma yrðu eingöngu boðaðir þingfundir til að takast á við brýn mál sem tengjast Covid-19 heimsfaraldrinum.
Steingrímur segir að einróma samstaða hafi verið um þessa ákvörðun. „Ég held að allir hafi upplifað að við værum komin á þennan stað og það var komin eftirspurn eftir að það væri skýr lína í þessu og að fólk þyrfti ekki að vera í vafa.“
Hann segir að þetta sé vissulega ekki í fyrsta skiptið sem starfsáætlun Alþingis hafi verið tekin úr sambandi. Það hafi meðal annars verið gert þegar sýnt hafi verið að lengja þurfi þinghald þegar farið hefur verið fram yfir starfsáætlun. „En það á sér ekki hliðstæðu að takmarka störf Alþingis með þessum hætti. Sem betur fer höfum við ekki þurft að glíma við svona óvin áður.“
Þingfundur á morgun
Þingið mun reyndar koma saman á morgun, föstudag, en þá hefur þingfundur verið boðaður klukkan 10:30. Steingrímur segir að þar verði að öllum líkindum afgreidd tvö lagafrumvörp um viðbrögð við Covid-19. „Við höfum þegar afgreidd þrenn lög, erum með þessi tvö í höndunum sem verða þá afgreidd á morgun og síðan á ég von á að þingið komi aftur saman í næstu viku til að afgreiða tvö frumvörp til viðbótar.“
Að sögn Steingríms hafa ýmsar öryggisráðstafanir verið gerðar á Alþingi undanfarnar vikur. Nú sé þriðja vikan sem þingið starfi samkvæmt viðbragðsáætlun. „Ég held að við höfum verið fyrsta þingið meðal nágrannalandanna sem virkjaði slíka áætlun,“ segir Steingrímur.
Tveir varaforsetar geymdir heima
Hann segir að í þessari áætlun felist meðal annars að samneyti forsetahóps Alþingis hefur verið takmarkað, en í þeim hópi eru, auk hans, sex varaforsetar Alþingis og tveir áheyrnarfulltrúar. „Við höfum til dæmis geymt tvo varaforseta heima alla þessa viku og þeir hafa tekið þátt í störfum Alþingis í gegnum fjarfundabúnað. Okkur ber skylda til að tryggja að þeir sem eru í þessum hópi verði ekki allir óstarfhæfir á sama tíma.“
„Ég held að við höfum verið fyrsta þingið meðal nágrannalandanna sem virkjaði slíka áætlun“
Kom ekki til greina að halda þingstörfum áfram í gegnum fjarfundabúnað? „Nei, við teljum það ekki hægt. Við teljum að stjórnarskráin standi í vegi fyrir því og það væri viss áhætta ef taka ætti ákvarðanir í slíku umhverfi þar sem kveðið er á um að lög teljist ekki samþykkt nema 32 séu í þingsal. Lagasetning við slíkar aðstæður væri líklega ekki stjórnskipulega gild,“ segir Steingrímur og vísar þar í 53. grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um að Alþingi geti ekki gert samþykki um mál nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslu.
„Lagasetning við slíkar aðstæður væri líklega ekki stjórnskipulega gild“
Spurður hver viðbrögð þingmanna og starfsfólks Alþingis hafi verið við þessari ákvörðun segir hann að þau hafi einkennst af skynsemi. „Það er vissulega alvarlegra yfirbragð yfir fólki nú en oft áður. En allir eru æðrulausir og taka þessu af yfirvegun.
Athugasemdir