Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa óskað eftir því að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flytji Alþingi skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi. Þingmennirnir leggja til að samanburðurinn verði unninn af óháðum aðila.
Stundin, Kveikur og Al Jazeera greindu frá því í haust upp úr gögnum Wikileaks að Samherji hefði greitt mútur til að komast yfir fiskveiðiréttindi í Namibíu. Kristján Þór, sem áður var stjórnarformaður Samherja, sagði sig frá málefnum Samherja vegna þessara tengsla þegar málið komst í hámæli. Kristján Þór hafði komið á fund í höfuðstöðvum Samherja þar sem þremenningarnir frá Namibíu sátu fund og kynnti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, Kristján Þór sem „sinn mann“ í ríkisstjórninni.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, en að henni standa einnig þingmenn úr Pírötum og Samfylkingu, auk Andrés Inga Jónssonar. „Ákvörðun veiðigjalda hefur lengi verið ágreiningsmál í íslenskum stjórnmálum,“ segir í greinargerð þingmannanna. „Ekki hefur verið meiri hluti fyrir því að láta gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind landsmanna ráðast á markaði þar sem tiltekinn hluti veiðiheimilda yrði ár hvert boðinn til sölu til ákveðins tíma. Þess í stað hefur gjaldið verið ákveðið með lögum, sem sætt hafa reglulegum breytingum.“
Því hafi endurgjald fyrir einkaafnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar verið háð pólitísku mati. „Það pólitíska mat hefur aftur í verulegum atriðum byggst á áliti þeirra hagsmunaaðila í útgerð sem eru fulltrúar þeirra fyrirtækja sem gjaldið greiða. Með öðrum orðum hafa verið bein tengsl á milli þess sem útgerðirnar hafa talið sig geta greitt og þess sem meiri hluti á Alþingi hverju sinni hefur talið að þær gætu greitt.“
„Eftir yfirlýsingar ráðherra bæði í fjölmiðlum og á þingi er afar ólíklegt að ríkisstjórnin hafi frumkvæði að því að kanna þennan mikilvæga þátt málsins til hlítar“
Í tillögunni segir að þær upplýsingar sem komið hafi fram í Samherjaskjölunum svokölluðu gefi tilefni til að bera saman hvað Samherji sé tilbúinn til að greiða fyrir veiðirétt á Íslandi og í Namibíu. „Eftir yfirlýsingar ráðherra bæði í fjölmiðlum og á þingi er afar ólíklegt að ríkisstjórnin hafi frumkvæði að því að kanna þennan mikilvæga þátt málsins til hlítar,“ segir í tillögunni. „Samanburður af þessu tagi á að geta stuðlað að málefnalegri umræðu um það mat sem ákvörðun veiðigjalda byggist á.“
Athugasemdir