Þorsteinn Már Baldvinsson, sem stigið hefur til hliðar sem forstjóri Samherja eftir að uppljóstrað var um mútugreiðslur fyrirtækisins til namibískra stjórnmálamanna, er enn í stjórnum annarra íslenskra útgerðarfyrirtækja. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur sagt sig frá málefnum Samherja vegna tengsla, en hefur ekki nefnt hagsmunaárekstra þegar kemur að öðrum fyrirtækjum tengdum Þorsteini Má.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var spurð um tengslin í viðtali á vef Morgunblaðsins í dag. „Tengsl hans við forstjóra Samherja sem hefur nú stigið til hliðar hafa líka legið öllum ljós mjög lengi,“ sagði hún. „Hann hefur sagt, sjávarútvegsráðherra, að hann muni stíga til hliðar í þeim ákvörðunum sem varða þetta tiltekna fyrirtæki. Á sama tíma hefur téður forstjóri stigið til hliðar á meðan rannsókn stendur. Ég tel nú að hvort tveggja eigi að þjóna því að tryggja ákveðinn frið.“
Þorsteinn Már er hins vegar enn með aðkomu að öðrum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Hann situr meðal annars í stjórn Síldarvinnslunnar, sem er tólfta kvótamesta útgerðarfyrirtæki landsins. Hann er einnig í framkvæmdastjórn Útgerðarfélags Akureyringa, sem er það fimmtánda kvótamesta, á helmingshlut í Rif ehf. sem gerir út hraðfiskibát, auk þess að sitja í fjölda stjórna annarra félaga sem tengjast sjávarútvegi. Samherji á rúm 6 prósent allra aflaheimilda.
„Ég hef litið svo á að við munum aldrei komast hjá því að maður þekki mann á Íslandi,“ sagði Katrín. „En við þurfum að vera mjög passasöm einmitt þess vegna að tryggja gagnsæi um það hver við erum, hverjir okkar hagsmunir eru og svo framvegis.“
Athugasemdir