Fæði, húsnæði og aðrar lífsnauðsynjar eru mun ódýrari í Berlín en í Reykjavík. Þegar allur kostnaður er dreginn saman er um helmings munur á mánaðarlegum útgjöldum íbúa höfuðborgar Þýskalands samanborið við mánaðarleg útgjöld íbúa höfuðborgar Íslands. Dæmi er um að vörur séu næstum fjórfalt ódýrari í Berlín. Þetta er niðurstaða hagmælingar sem þær Signý Sigurðardóttir og Unnur Steinsson, nemendur í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst, unnu nýlega í samstarfi við blaðamann.
„Niðurstaða þessarar litlu samanburðarkönnunar sýnir að við getum keypt næstum því tvisvar sinnum sömu vörur í Þýskalandi og við getum keypt einu sinni á Íslandi,“ segir Signý í samtali við Stundina. Á meðan íslensk vörukarfa kostar 90 þúsund krónur á mánuði kostar sambærileg vörukarfa í Berlín einungis rétt rúmlega 40 þúsund krónur. Til einföldunar má því segja að þýskur neytandi fái um tvær mjólkurfernur fyrir sömu upphæð og ein mjólkurferna kostar íslenskan neytanda.
Athugasemdir