„Við gerum þá kröfu að innanríkisráðherra, ásamt öllum þeim sem áhrif hafa í þessu máli, beiti sér af fullum krafti fyrir því að þessi litli drengur fái úrlausn sinna mála hér á Íslandi,“ segja þeir sem hafa boðað til samstöðufundar klukkan fimm í dag á Austurvelli með fimm ára dreng sem senda á til Noregs í varanlegt fóstur til átján ára aldurs hjá fólki sem hann þekkir ekki neitt.
Stundin greindi fyrst frá málinu þann 28. júlí en þá steig Helena Brynjólfsdóttir fram og sagðist hafa rænt barnabarni sínu til þess að bjarga því. Helena gæti verið ákærð fyrir barnsrán í Noregi en barnaverndin þar í landi krafðist þess að íslensk stjórnvöld myndu finna drenginn, fjarlægja hann með lögregluvaldi og koma honum upp í fyrstu flugvél aftur til Noregs svo hægt væri að vista hann hjá ókunnugu fólki í Noregi til 18 ára aldurs.
38 dagar til stefnu
Þrátt fyrir að vera í góðu samstarfi við íslensk barnaverndaryfirvöld þá gafst norska barnaverndin ekki upp og réði einn færasta forsjálögfræðing landsins til þess að stefna Helenu og fá þannig íslenska ríkið til þess að taka þátt í því að flytja drenginn nauðugan til Noregs. Helena varðist í Héraðsdómi Reykjavíkur en það dugði ekki til því dómari dæmdi svo að barninu yrði að skila til Noregs; í hendur norsku barnaverndarinnar. Þetta skyldi gert innan sex vikna.
Í dag eru 38 dagar þangað til fimm ára íslenski drengurinn, Eyjólfur Sigurjónsson, verður fjarlægður af heimili ömmu sinnar og móður með lögregluvaldi og honum fylgt til Noregs. Helena hefur þó ekki gefist upp því málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Þrátt fyrir það hefur það ekki áhrif á þær sex vikur sem fjölskyldu Eyjólfs var gefin til þess að afhenda hann.
„Þungur dómur fyrir fimm ára dreng“
Þessari afgreiðslu eru ekki allir sammála. Þannig hafa yfir fimm hundruð manns boðað komu sína á samstöðufundinn og er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur meðal annars mótmælt:
„Íslenskur dómari staðfesti dóm norskra stjórnvalda að senda skuli drenginn til Noregs til vistunar næstu 13 árin og byggir þann dóm á Haag-samningnum. Það er hinsvegar verið að svipta drenginn þeim rétt á að þekkja fjölskyldu sýna, einu samskiptin sem hann mun geta haft við fjölskylduna eru tvær heimsóknir frá móður sinni á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti. Þetta er þungur dómur fyrir 5 ára dreng. Sýnum samstöðu og mætum á Austurvöll til að mótmæla þessu óréttlæti! Endilega deilið viðburðinum og bjóðið vinum saman erum við sterk,“ segir í lýsingu hópsins á Facebook sem stendur fyrir samstöðufundinum.
Athugasemdir