„Eftir smástund þarf ég að kyssa son minn bless. Ég veit ekkert hvenær ég fæ að hitta hann aftur. Það eru fimm dagar í jól og ég hélt að við myndum fá að vera með honum yfir hátíðarnar en svo er ekki. Við þurfum að kveðja hann í dag,“ segir Elva Christina, móðir Eyjólfs Kristins. Stundin hefur fylgst með máli Eyjólfs frá því í júlí á þessu ári þegar amma hans, Helena Brynjólfsdóttir, flúði með hann hingað til lands. Forsjá Eyjólfs Kristins hafði verið dæmd af Elvu og átti að koma honum fyrir hjá norskri fósturfjölskyldu þegar Helena ákvað að flýja til Íslands.
Nú, rúmum fimm mánuðum síðar, er komið að kveðjustund. Fjölskylda Eyjólfs Kristins hefði viljað fá að eyða með honum jólunum. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var það krafa norsku barnaverndarinnar að hann yrði samstundis fjarlægður af heimilinu. Elva Christina og þeir sem standa Eyjólfi næst eru að sjálfsögðu þakklát fyrir að hann fái að alast upp á Íslandi en það sé þyngra en tárum taki að hann verði fjarlægður af heimilinu fyrir jólin.
Eyjólfur Kristinn er því kominn á vistheimili í Reykjavík. Þangað kom hann um klukkan þrjú í dag og þar kemur hann til með að eyða jólunum. Eyjólfur Kristinn mun reyndar ekki vera eina barnið sem eyðir jólunum á umræddu vistheimili. Samkvæmt upplýsingum sem Stundinni barst verða þar sjö til átta önnur börn, sem barnaverndarnefnd Reykjavíkurborgar telur nauðsynlegt að vista þar yfir hátíðarnar. Samkvæmt fjölskyldu Eyjólfs mun hann dvelja á vistheimilinu þar til valin verður fósturfjölskylda á nýju ári.
Athugasemdir