Norska barnaverndin vill að móðir og faðir Eyjólfs, fimm ára íslensks drengs sem norska stofnunin vill fá í sína vörslu, afsali sér rétti sínum til þess að sækja rétt sinn gagnvart norsku barnaverndinni ef það á að vera möguleiki að sonur þeirra fái fóstur á Íslandi, ella verður hann fluttur með valdi til Noregs þann 5. desember. Norska barnaverndin hefur þegar valið fjölskyldu fyrir Eyjólf og er hans nú beðið ytra.
Í skilyrðum barnaverndarinnar í Noregi felst að móðir Eyjólfs geri sérstaka dómsátt við norsku barnaverndina í dómsmáli sem hún höfðaði á hendur stofnuninni eftir að hafa verið svipt forræði. Það mál er enn í gangi í Noregi en norska barnaverndin vill það út af borðinu. Þá vill stofnunin að faðir Eyjólfs staðfesti skriflega að hann muni ekki sækjast eftir forsjá drengsins með aðstoð dómstóla þarlendis. Ef þau gera það þá mun norska barnaverndin skuldbinda sig til þess að finna fósturheimili handa drengnum á Íslandi í samstarfi við íslensk barnaverndaryfirvöld. Eyjólfur yrði þó aldei vistaður hjá fjölskyldumeðlimum, hvorki hjá föður- né móðurfjölskyldu hans.
Norska barnaverndin hefur þá afstöðu að hvorki móðir drengsins, amma hans né faðir hans, eigi að hafa forræði yfir honum. Meðal annars byggir barnaverndin niðurstöðu sína á fíkniefnaneyslu móðurinnar, sem nú hefur farið í meðferð, segist hafa tekið upp breyttan lífsstíl og hefur undirgengist fíkniefnapróf frá komu sinni til landsins í sumar. Þá voru þær forsendur barnaverndar reifaðar í dómi Hæstaréttar að amma Eyjólfs hefði verið gagnrýnd af móður hans í viðtölum við barnaverndina á sínum tíma, meðal annars fyrir heimilisástand og áfengisneyslu, en báðar hafa síðan sagt að þær aðstæður sem þar er lýst séu ýmist rangar eða aðstæðurnar yfirstaðnar. Ekki fást upplýsingar um það af hverju faðir Eyjólfs er ekki tekinn til greina af norsku barnaverndinni aðrar en þær að stofnunin vill ekki að neinn fjölskyldumeðlimur komi nálægt framtíðarfósturheimili hans.
Sagt að hætta að tjá sig um málið
Samkvæmt heimildum Stundarinnar er þó ekki ljóst hvort norska barnaverndin megi, samkvæmt norskum lögum, finna barni fóstur utan Noregs, en verið sé að kanna leiðir fram hjá því ytra. Ekki er langur tími til stefnu og því hafi báðir foreldrar Eyjólfs aðeins örfáa daga til þess að ákveða sig. Þau hafi bæði fengið að vita þetta rétt fyrir helgi en eftir því sem Stundin kemst næst þá ætlar hvorki móðir né faðir drengsins að fyrirgera rétti sinn til þess að sækjast eftir forsjá hans.
„Bæði móður- og föðurfjölskylda Eyjólfs vonast eftir því að ráðherrar stígi inn í málið“
„Á mannamáli þá er verið að biðja þessa ungu foreldra að gefa upp alla von á að fá að umgangast barnið sitt aftur. Með þessu ættu þau engan rétt. Þau ættu ekki einu sinni rétt á að sækja rétt sinn. Fáránlegt,“ sagði einn fjölskyldumeðlimur sem ekki vildi láta nafns síns getið og það ekki af ástæðulausu. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur norska barnaverndin einnig krafist þess að bæði föður- og móðurfjölskylda drengsins hætti að tjá sig um málið í fjölmiðlum.
Foreldrar fallast líklega ekki á skilyrðin
Stundin hafði samband við Barnaverndarstofu en þar fengust þær upplýsingar að enn væri unnið í málinu. Það væri viðkvæmt en niðurstaðan færi dálítið eftir afstöðu og vilja foreldranna til þess að leysa það.
„Með deginum í dag eru fimmtán dagar þar til Eyjólfur skal fluttur til Noregs“
Eins og áður segir er ekki útlit fyrir að móðir og faðir Eyjólfs gangi að skilyrðum norsku barnaverndarinnar og því allt útlit fyrir að starfsmenn íslensku barnaverndarinnar óski eftir aðstoð lögreglu vegna aðfarar á heimili fjölskyldunnar þann 5. desember næstkomandi. Þá verður Eyjólfur sóttur og honum fylgt til Noregs þar sem norsk fósturfjölskylda er sögð bíða eftir því að fá hann. Ef það gerist þá þarf móðir Eyjólfs að halda sínu máli til streitu fyrir norskum dómstólum og faðir hans að sækja rétt sinn gagnvart norsku barnaverndinni ytra sömuleiðis ef þau ætla að eiga einhvern möguleika á að halda drengnum.
Eyjólfur fær nýja fjölskyldu fyrir jól
Ef þau ganga að skilyrðum norsku barnaverndarinnar þá, eins og áður segir, mun norska barnaverndin skuldbinda sig til þess að finna fósturheimili handa drengnum á Íslandi í samstarfi við norsk barnaverndaryfirvöld. Samkvæmt heimildum Stundarinnar gæti Eyjólfur hitt nýju íslensku fjölskylduna sína um mánaðarmótin. En allt fer þetta eftir afstöðu foreldranna og hvort norska barnaverndin finnur leið í kring um lög sem banna vistun fósturbarna erlendis. Eitt er þó ljóst og það er að sama hvernig málið verður leitt til lykta, hvort sem það verður á Íslandi eða í Noregi, þá mun Eyjólfur fá nýja fjölskyldu fyrir jól.
Með deginum í dag eru fimmtán dagar þar til Eyjólfur skal fluttur til Noregs samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem var síðar staðfestur af Hæstarétti Íslands, eftir að amma Eyjólfs fór með frá Noregi án leyfis norsku barnaverndarinnar. Forsenda dómsins var að með brottflutningnum á drengnum hefði verið brotið gegn Haag-samkomulaginu, sem kveður á um að ekki megi flytja með barn úr dvalarlandi án heimildar forsjáraðila, sem í þessu tilfelli var norska barnaverndin.
Vonast eftir inngripi ráðherra
Bæði móður- og föðurfjölskylda Eyjólfs vonast eftir því að ráðherrar stígi inn í málið.
Orð Bjarna Benediktssonar, sitjandi fjármála- og innanríkisráðherra, í útvarpsviðtali hjá Harmageddon hafi gefið þeim von en síðan þá hafi þau ekkert heyrt í Bjarna eða öðrum í ríkistjórninni. Í viðtalinu sagðist Bjarni meðal annars að hann væri að fylgjast mjög vel með málinu en bíða þyrfti dóms Hæstaréttar. Þeir fjölskyldumeðlimir sem Stundin ræddi við sögðu að nú væri komið dálítið síðan að dómur féll en þau hafi ekkert heyrt. Þau hafi reynt að ná samband við Bjarna, bæði í gegnum fjármálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið en ekki haft erindi sem erfiði.
Athugasemdir