Í dag fékkst endanleg niðurstaða í mál Eyjólfs Kristins, fimm ára gamals íslensks drengs, sem Stundin hefur fjallað um frá því í júlí á þessu ári. Norsk yfirvöld hafa fallist á þá ósk íslenskra yfirvalda og fjölskyldu drengsins að hann fái að alast upp á Íslandi. Þetta staðfestir Oddgeir Einarsson, lögfræðingur fjölskyldunnar. Íslensk barnaverndaryfirvöld fara með forsjá drengsins frá og með deginum í dag.
Móðir drengsins, Elva Christina, hefur sóst eftir því að fá annað tækifæri til þess að ala son sinn upp en líkt og Stundin greindi frá þá fór Elva út af sporinu í lífinu, flæktist í viðjar fíkniefna sem leiddi til þess að hún var svipt forsjánni í Noregi. Þangað hafði hún flutt ásamt móður sinni, Helenu Brynjólfsdóttur, sem á endanum flúði með drenginn til Íslands í lok júní á þessu ári. Þá hafði fjölskyldan búið í Noregi í um þrjú ár.
Ekki liggur hvernig málið verður endanlega leitt til lykta en samkvæmt heimildum Stundarinnar er stórfjölskylda Eyjólfs Kristins, í bæði föður- og móðurætt himinlifandi, með fréttirnar.
„Fyrir hönd umbjóðanda míns er þakkað fyrir þann hlýhug og stuðning sem henni og fjölskyldu hennar hefur verið sýndur á síðastliðnum mánuðum,“ segir í fréttatilkynningu sem Oddgeir sendi frá sér rétt í þessu.
Dagur í lífi Eyjólfs
Blaðamaður eyddi degi með Eyjólfi sem vaknaði með bros á vör og fór að sofa með bros á vör.
Athugasemdir