Guðlaugur Þór Þórðarson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, gerðu mótmælabréf 34 Alþingismanna til pólska þingsins vegna fyrirhugaðrar lagasetningar um skilyrðislaust bann við fóstureyðingum þar í landi að umtalsefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Eins og Stundin greindi frá í gær skrifaði fjöldi þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ekki undir bréfið, meðal annars forseti Alþingis og formenn stjórnarflokkanna beggja. Guðlaugur Þór og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru einnig í þessum hópi, en Guðlaugur situr í stjórn samtakanna AECR fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins ásamt fulltrúa frá Lögum og réttlæti, pólska stjórnarflokknum sem stendur að hinni umdeildu lagasetningu um afnám undanþága frá banni við fóstureyðingum þar í landi.
„Ef við ætlum hins vegar að gagnrýna mannréttindabrot í Evrópu í hvert skipti sem þau eru framin, þá er af nógu að taka, því miður,“ sagði Guðlaugur Þór á Alþingi í dag. en hann er oddviti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir þingkosningarnar sem fram fara í lok mánaðar.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi þingsetu, gerði mál 5 ára íslensks drengs að umtalsefni, en samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þarf amma hans að afhenda norsku barnaverndinni hann innan tveggja mánaða. Sagði Ragnheiður að þingmenn töluðu um mannréttindabrot á pólskum konum og mannréttindabrot í Sýrlandi en hún sem móðir og amma gæti ekki sætt við að brotin væru mannréttindi á umræddum dreng.
„Nú er í fréttum, virðulegur forseti – og kann að vera að við sem lesum fréttirnar vitum ekki alla málavexti – en það er hins vegar nokkuð ljóst að akkúrat í þessum töluðu orðum er verið að brjóta mannréttindi á litlum 5 ára dreng sem ákveðið hefur verið að senda til norskrar barnaverndarnefndar vegna þess að móðir hans, ung kona, átti við áfengisvandamál að stríða meðan hún bjó í Noregi.
Hún hóf meðferð og þegar ljóst var að taka ætti af henni barnið ákvað hún að koma til Íslands. Hún hefur haldið áfram sinni meðferð, hún hefur verið edrú, hún er virkur alkohólisti en hún hefur verið edrú í langan tíma, hún á hér fjölskyldu, en af því að hún var svipt forræði yfir drengnum sínum í Noregi – faðirinn býr í Danmörku og hefur engin afskipti af – þá á núna að taka þennan fimm ára dreng og flytja hann til Noregs, koma honum fyrir á fósturheimili á meðan að fjölskyldan hans hér á Íslandi og móðir hans eru að taka á sínum málum og vinna í því sem að henni snýr,“ sagði Ragnheiður og bætti við:
„Þetta þýðir að þessi 5 ára drengur verður í 14 ár á fósturheimili í Noregi. Móðir hans fær að hitta hann tvisvar á ári undir eftirliti. Og við tölum um mannréttindabrot á pólskum konum og við tölum um mannréttindabrot á fólki í Sýrlandi. Virðulegur forseti, fyrir mig sem þingmann, fyrir mig sem móður og ömmu, þá er þetta mannréttindabrot sem ég get ekki sætt mig við og ég skora á hæstvirtan innanríkisráðherra og Barnaverndarstofu að ganga í málið nú þegar og koma í veg fyrir að þessi litli 5 ára drengur verði rifinn frá móður sinni og fjölskyldu hér á Íslandi og komið í fóstur í Noregi.“
Athugasemdir