„Þetta þýðir að þetta megi ekki koma fyrir augu almennings,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, aðspurður um kjarasamning Íslenskra atvinnuflugmanna og Samtaka atvinnulífsins vegna flugmanna Icelandair. Samningurinn var gerður í desember síðastliðnum og felur í sér launahækkun upp á rúmlega 300 þúsund til þriggja ára. Launahækkunin hjá flugstjórunum nemur 23,5 prósentum að sögn Vilhjálms sem birti samninginn á heimasíðu verkalýðsfélagsins á þriðjudaginn.
Vilhjálmur er spurður út í orðalagið „Geymist hjá aðilum“ sem er að finna á tveimur síðustu blaðsíðum samningsins á sérstökum viðauka og svarar hann því til að hann túlki þessi orð sem svo að halda ætti samningnum leyndum. „Geymist hjá aðilum þýðir bara að það mátti engin vita af þessu nema aðilar málsins.“ Samningurinn hefur nú þegar haft nokkur áhrif á kjaraumræðu síðustu daga og kann að hafa skapað hærra launaviðmið fyrir kjarabaráttu annarra stétta en flugmanna. Viðauki samningsins var eingöngu undirritaður af fulltrúum félags íslenskra atvinnuflugmanna og fulltrúum Icelandair en ekki neinum fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins.
Icelandair er að stærstu leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða og þar með sjóðsfélaga þeirra. Eignarhald flugfélagsins skiptir máli í umræðunni um leynisamninginn þar sem fyrirtækið er á endanum að stærstu leyti í eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina. Þarna er því um að ræða að fyrirtæki sem er í opinberri eigu í gegnum lífeyrissjóði launþega hefur leynt kjarasamningi sem getur haft mótandi áhrif á kjarabaráttu annarra stétta í landinu og þar af leiðandi komið sér illa fyrir Samtök atvinnulífsins.
Athugasemdir