Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, svarar orðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sem fór fram á það að á dögunum að stofnað yrði til nýrra virkjana til að standa undir bættum launakjörum.
Indriði segir í grein á vef tímaritsins Herðubreiðar að viðhorf Sigmundar sýni „veruleikafirringu“ og „virðingarleysi fyrir rökum og staðreyndum“.
Sigmundur Davíð tengdi saman kjaraviðræður og áform ríkisstjórnarinnar um að heimila fleiri virkjanir í sjónvarpsviðtali á dögunum.
„Til að hægt sé að verða við verulegum kröfum um launahækkanir og væntingum um áframhaldandi kaupmáttaraukningu þá þurfum við að halda áfram að auka verðmætasköpun í landinu og þar strandar býsna margt á orkuöfluninni.“
80% orkunnar - 1% þjóðartekna
„Áttatíu prósent raforkuframleiðslu í landinu, sem er um 13.000 gígawattstundir, eru seldar til stóriðju,“ segir Indriði. „Sú sala skilar Landsvirkjun litlu ef nokkru meira en fjármagnskostnaði. Söluverðmæti áls mun vera nokkuð yfir 200 milljörðum króna. Þegar greiddur hefur verið hráefnakostnaður og annar rekstrarkostnaður en laun og fjármagnskostnaður standa eftir um 60 milljarðar króna. Um 17 milljarðar fara í laun og launatengd gjöld. Afgangurinn fer í fjármagnskostnað og hagnað eigenda sem laumað er óskattlögðum úr landi. Þessir 17 milljarðar (og einhver smáviðbót vegna svokallaðra afleiddra starfa) eru eina hlutdeild landsins í þeim verðmætum sem stóriðjan skapar. Það er um 1% þjóðartekna.“
Indriði bendir á að einungis 1% vinnuafls í landinu starfi í álverum, sem er minna en árleg viðbót við vinnuafl landsins.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, lýsti því á dögunum að innan nokkurra ára megi þess vænta að Landsvirkjun skili allt að 20 milljarða króna arði á ári. Staða Landsvirkjunar hefur batnað hratt á síðustu árum. Fyrirtækið borgaði 1,5 milljarð króna í ríkissjóð í arð vegna síðasta árs.
Segir orkuauðlindir nýtast almenningi lítið
Að mati Indriða hefur nýtingu orkuauðlinda hins vegar verið hagað með þeim hætti að þær eru nánast þýðingarlausar fyrir efnahagslífið og þar með kjarabaráttu landsmanna.
„Orkuauðlindir landsins að frátöldum jarðhita til upphitunar eru nánast þýðingarlausar fyrir íslenskt efnahagslíf. Það stafar af þeirri stefnu núverandi stjórnvalda að beina arðinum af þeim í vasa þeirra sem auðlindirnar nýta. Þessi stefna kemur víða fram. Móast er við að setja virkt auðlindaákvæði í stjórnarskrá, skattar á hagnað fyrirtækjanna voru lækkaðir, álverunum veitt trygging fyrir því að flytja hagnað skattfrjálsan úr landi, niðurfelling orkuskatts á álfyrirtæki gerð að forgangsmáli, veiðigjöld voru lækkuð og til stendur að gefa makrílkvótann. Það kemur því ekki á óvart að alþingismaður útgerðareigenda taki undir þessa fjarstæðu. Meðan ekki er snúið frá þessari stefnu með raunhæfum hætti og sýnt fram á efnahagslega hagkvæmni þeirrar starfsemi sem nota á nýja orku eru engin rök fyrir frekari virkjunum á Íslandi.“
Bjarni svarar Indriða
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, svarar grein Indriða á Facebook-síðu sinni í morgun: „Þarna segir að þeir sem vilja halda áfram að nýta sjálfbæra orku og gera úr henni verðmæti sýni veruleikafirringu og virðingarleysi fyrir rökum. Sala raforku Landsvirkjunar er sögð skila litlu öðru en fjármagnskostnaði. Bíðum við, lækkuðu ekki skuldir Landsvirkjunar um 80 milljarða á síðastliðnum 5 árum? Ég held það nú. Eignir Landsvirkjunar eru nú um 570 milljarðar króna. Arðgreiðslur Landsvirkjunar stefna í að vera 10-20 milljarðar á ári,“ segir Bjarni. Hann vitnar jafnramt í skýrslu Hagfræðistofnunar þar sem segir að framlag álklasans til landsframleiðslu sé nálægt 6,8% af landsframleiðslu 2011 og 2012.
„En Indriði, hann hefði frekar viljað sjá vatnið bara renna út í sjó. Ekkert að vera að virkja þetta. Hvað þá að halda áfram,“ segir Bjarni að lokum.
Athugasemdir