Hilmar Þór Sævarsson, Íslendingur sem starfar við mengunareftirlit í Noregi, segir framgöngu álvera hér á landi vera með því móti að störfuðu þau með sama hætti í Noregi sætu stjórnendur þeirra í fangelsi fyrir mengunarglæpi.
Norsk mengunarlöggjöf hefur verið hert jafnt og þétt undanfarna tvo áratugi. Hafa refsingar stöðugt verið þyngdar með árunum, sem gera stjórnendur persónulega ábyrga fyrir því ef fyrirtæki þeirra brjóta mengunarlög. Ekkert í líkingu við þessi úrræði er í boði fyrir þá sem hafa yfirumsjón með mengunareftirliti á Íslandi.
Hilmar, sem er með MSc gráðu í umhverfis- og auðlindafræði sem og eiturefnavistfræði, starfar sem verkefnisstjóri við mengunareftirlit í Noregi. Segir hann norska mengunarlöggjöf vera endurbætta reglulega, og að lög um mengun og mengunarvarnir [Lov om vern mot forurensninger og om avfall (forurensningsloven)] séu í virkri notkun. Það sé einnig stuðningur í hegningarlögum, þar sem sérstaklega er tekinn fram hegningarrammi fyrir það sem kallað er umhverfisglæpir.
Athugasemdir