Það er varasamt að tala eða skrifa um skattsvik og mútur, hvað þá að tengja slíkt við nafngreinda einstaklinga og sérstök fyrirtæki. Auk þess sem skattsvik og mútur eru rækilega falin. Auðveldara að fjalla um spillingu, því hún er yfirleitt svo augljós þótt enn vanti töluvert upp á að fólk beri kennsl á hana.
Í nýlegri umfjöllun prófessors í stjórnmálafræði um spillingu kom fram að hann teldi skynjun almennings á umfangi spillingar á Íslandi ýkta. Á móti taldi prófessor í heimspeki að svo væri alls ekki og gagnrýndi fjölmiðla fyrir að kokgleypa málflutninginn án athugasemda. Ég held að skynjun okkar á spillingu sé síður en svo ýkt. Við sjáum hana allt í kringum okkur.
Með orðaleit í blogginu mínu fann ég að ég minntist fyrst á orðið „mútur“ í nóvember 2007. Orðið „spilling“ nefndi ég fyrst í mars 2008, orðið „skattaskjól“ í janúar 2009 en orðið „skattsvik“ ekki fyrr en í febrúar 2009. Nú, árið 2016, hljóma þessi orð kunnuglega í eyrum Íslendinga þótt þau hafi verið hálfgerð bannorð fyrir hrun.
Eftirfarandi skrifaði ég í bloggpistil í maí 2008: „Það er engin spilling á Íslandi, er það? Og hér tíðkast ekki mútur, er það? Hvaða vitleysa! Nýleg, erlend könnun sýnir Ísland í 6. sæti yfir minnsta spillingu í heiminum – hrapaði þó úr 1. sæti. Fólk hlær almennt að þessu, því varla fyrirfinnst sá Íslendingur á fullorðinsaldri sem ekki hefur beina eða óbeina reynslu af spillingu á Íslandi í ýmsum birtingarmyndum, opinberri eða óopinberri. En það má bara ekki kalla það spillingu. Það má heldur ekki minnast á mútur, það er bannorð. Við greiðum ekki mútur og við þiggjum ekki mútur. Slíkur ósómi tíðkast bara í útlöndum. Á Íslandi er svoleiðis greiðasemi kölluð til dæmis „fyrirgreiðsla“ eða spegilmyndin „að greiða fyrir málum“. Fallegt og kurteislegt orðalag. En ekki mútur, alls ekki… það er ljótt og eitthvað svo óíslenskt. Eða hvað?“
Skattsvik hafa alltaf tíðkast á Íslandi, rétt eins og alls staðar í heiminum, og allir vitað af þeim. Frægt er svokallað „vinnukonuútsvar“ ríka fólksins í einbýlishúsunum og á fínu, dýru bílunum sem fór í margar utanlandsferðir á ári áður en það varð algengt. Fólk komst upp með þetta, það var aldrei neitt gert. En það var ekki fyrr en stóriðjan og „aflandsþjónustan“ bárust hingað og lögum var breytt sem upphæðir og umsvif skattsvika urðu að verulegum upphæðum sem skipta máli.
Hér er ég ekki að tala um litlu skattsvikin sem flestir stunda – að borga fyrir smávægileg viðvik nótulaust. Ég er að tala um stóru skattaundanskotin þar sem bókhaldsbrellum er beitt til að flytja himinháar fjárhæðir úr landi. Eða fólk og fyrirtæki sem stofna aflandsfélög sem notfæra sér „hagstætt skattaumhverfi“ og flytja afrakstur sinn og fyrirtækja sinna þangað. Fjármagn sem verður til í íslenska hagkerfinu en ekki er greiddur lögbundinn skattur af til samfélagsins.
Við viljum gott heilbrigðis- og menntakerfi, almennilegar samgöngur og trausta innviði í íslensku samfélagi. En það er eins og margir átti sig ekki á því, að fyrir það þurfum við að borga með sköttum. Fyrirtækin vilja að samfélagið búi vel að starfsfólki sínu svo það skili betri og meiri vinnu – en þau koma sér samt undan því að borga skatta til þessa sama samfélags svo það geti veitt starfsfólkinu góða þjónustu. Vellauðugur ráðherra flytur lögheimili sitt á eyðibýli í öðru sveitarfélagi en hann býr í af pólitískum hagsmunaástæðum, borgar útsvar þar en þiggur þjónustu á höfuðborgarsvæðinu – þar sem hann hefur reyndar alltaf búið - á kostnað okkar hinna.
Stórfelld skattsvik eða skattaundanskot (lögleg en siðlaus?) eru arðrán. Það er verið að svíkja sameiginlegan sjóð landsmanna, ríkissjóð, um tugmilljarða á ári. Hvort sem það eru óheiðarlegir auðmenn eða erlendir auðhringar sem hafa grætt alveg gríðarlega á íslensku vinnuafli, braski með íslenskar eigur eða gjafverði á orku. En einhvern veginn virðist kerfið ekki geta tekið á þessum stóru málum. Hafa kannski ekki lagaheimildir til þess, hvað veit ég?
Þess í stað er hamrað á bótasvikum í lífeyriskerfinu. Formaður fjárlaganefndar hefur ítrekað sagt að lífeyrisþegar, öryrkjar og aldraðir, séu svikahrapparnir. En formaðurinn hefur aldrei nefnt skattaundanskot stóriðju, auðmanna og fyrirtækja. Kannski skortir skilning á svo háum fjárhæðum. Þá er betra að halda sig við aurana og láta krónurnar eiga sig.
(Það er reyndar líka arðrán að minnka tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða á ári í þágu hinna ofurríku eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert, en ræðum það seinna.)
Mútur eru erfiðar viðfangs, enda margs konar. Mútur eru ekki brúnt umslag fullt af peningum sem rétt er undir borðið. Nú eru það faldir bankareikningar á aflandssvæðum sem aldrei er hægt að finna. Jafnvel í nafni aflandsfélags, sem skráð er á erlendan lögmann sem þiggur fé fyrir umsýsluna. Eða bara laxveiðiferð. Bjórkassi eða viskíflaska fyrir alkann í sveitarstjórninni, fjárstyrkur í prófkjöri, málsverður á góðu veitingahúsi og upplifun á nektarstað í eftirrétt, ferð til Kína. Menn selja samvisku sína misdýru verði. Úti um allt land er fólk að þiggja eitthvað persónulega gegn fyrirgreiðslu í krafti embætta sinna. Það eru mútur.
Auðvitað er spilling á Íslandi og hún er djúpstæð. Auðvitað tíðkast mútur og stórfelld skattsvik á Íslandi, ekkert nýtt þar. Við höfum bara veigrað okkur við að ræða þessi mál, rannsaka þau og kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Af því að Ísland er best í heimi!
Athugasemdir