Breið samstaða var um það meðal stjórnarandstöðuþingmanna á föstudag að standa ekki í vegi fyrir því að veitt yrðu afbrigði frá dagskrá Alþingis til að unnt væri að ræða frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða BHM og hjúkrunarfræðinga um helgina. Samkvæmt heimildum Stundarinnar taldi Bandalag háskólamanna ekki þjóna hagsmunum sínum að málið yrði tafið. Höfðu starfsmenn félagsins komið þessu á framfæri við þingmenn.
Uppfært kl. 14:22: Þegar atkvæðagreiðslan um afbrigðin fór fram var ekki ljóst hver afstaða Félags hjúkrunarfræðinga var. Stjórnarandstaðan fundaði snemma á föstudag, en þeir þingmenn sem Stundin hefur rætt við leggja ekki að öllu leyti sama skilning í hvað þar kom fram. Að kvöldi dags átti Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, frumkvæði að því að stjórnarandstöðuþingmenn funduðu með fulltrúum BHM og Félags hjúkrunarfræðinga. Þá fyrst kom afstaða beggja félaganna skýrt fram.
Þegar afbrigði um dagskrármál voru rædd á Alþingi á föstudag hvatti Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, þingmenn stjórnarandstöðunnar til að standa í vegi fyrir því að afbrigðið yrði veitt. „Ég vil brýna það fyrir þingmönnum að ef einn þriðji hluti segir: Nei, við skulum vísa þessu máli frá ríkisstjórninni aftur til ríkisstjórnarinnar þannig að hún geti setið með það í fanginu yfir helgina og hugsað sinn gang, þá getum við gert það. Við höfum dagskrárvaldið núna, minni hlutinn í þinginu, einn þriðji,“ sagði hann og hlaut lófatak af þingpöllum frá heilbrigðisstarfsmönnum sem fylgdust með umræðunum.
Athugasemdir