Lilja Alfreðsdóttir, nýr utanríkisráðherra, hélt því fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær að Framsóknarflokkurinn hefði aldrei lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið.
„Kosningar um þetta mál eru ekki ráðgerðar og ég sé ekki að það muni gefast tími til þess. Ég kannast heldur ekki við að sá flokkur sem ég er að representera hér hafi lofað slíkum kosningum,“ sagði Lilja.
Sigmundur ítrekaði vilja til þjóðaratkvæðis
Lilja tók við embætti eftir brotthvarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr forsætisráðherrastóli, sem staðinn var að ósannindum í tengslum við aflandsfélag hans og eiginkonu hans og kröfur í þrotabú bankanna, en hann leiddi ákvarðanatöku og stefnumótum gagnvart kröfuhöfunum og þar með sjálfum sér og eiginkonu sinni, án þess að láta uppi um það.
„Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu“
Sigmundur Davíð ítrekaði hins vegar margsinnis í kosningabaráttunni 2013 og eftir hana vilja sinn til að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sigmundur var spurður á blaðamannafundi við myndun nýrrar ríkisstjórnar hvort hægt væri að treysta loforðinu.
Getum við treyst því að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi viðræður?
Sigmundur Davíð: „Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu en menn hljóta við ákvörðun um tímasetningu slíks að taka inn í reikninginn aðstæður.“
Sagði stefnuna skýra
Lilja sagði einnig á þingi að stefna stjórnarflokkanna hafi verið skýr. Flokkarnir höfðu ekki á stefnuskránni að sækja um aðild að Evrópusambandinu, en fulltrúar og leiðtogar beggja þeirra tóku ítrekað fram að þeir vildu halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðræðunum yrði fylgt áfram eða ekki.
Söfnun myndbanda: Lára Hanna Einarsdóttir.
„Stefna stjórnarflokkanna var mjög skýr fyrir kosningar,“ sagði Lilja í gær.
„Ég hef alltaf gert ráð fyrir því að þessi atkvæðagreiðsla fari fram,“ sagði Sigmundur í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 í apríl 2013.
„Ég hef margoft tekið fram að mér þætti mjög gott og æskilegt ef hægt væri að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins,“ sagði Bjarni Benediktsson, leiðtogi hins stjórnarflokksins í sömu kappræðum. „Í Evrópusambandsmálinu munum við standa við það sem við höfum ályktað, um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla,“ sagði Bjarni einnig í viðtali við Stöð 2.
Athugasemdir