„Í gær voru yfir hundrað manns hér. Við sýndum íþróttaleik og eftir hann voru stjórnmálaumræður þar sem fólk frá öllum stjórnmálaflokkum Sýrlands, trúað og trúlaust, kom saman og ræddi málin. Þetta er einmitt markmiðið með þessum stað, að ólíkt fólk geti sameinast, enda hefur stríðið orðið þess valdandi að það hefur slegið í brýnu á milli ýmissa hópa. Í gær töluðum við saman og mér líkaði það vel vegna þess að við erum að minnsta kosti að læra að hlusta á hvert annað.“
Við erum stödd í sýrlensku menningarmiðstöðinni Salam við hljóðlátu íbúðargötuna Buttmannstrasse, í úthverfi Berlínar. Ungt fólk situr í einu horninu og spilar sýrlenska þjóðlagatónlist á strengi og slagverk. Í næsta herbergi spila eldri menn Backgammon á milli þess sem þeir puffa ávaxtatóbak úr vatnspípu. Það rýkur úr tebollanum sem sýrlenski blaðamaðurinn Hossam Aldeen réttir mér. Hann hefur haldið til í höfuðborg Þýskalands síðustu ár og kom þessari menningarmiðstöð á fótinn fyrir um átta mánuðum.
„Við reynum að aðstoða fólk sem er nýkomið við að leysa ýmis hversdagsleg vandamál, svo sem varðandi húsnæði, skóla eða vinnu,“ segir Aldeen. Markmiðið er einnig að stuðla að menningarlífi á meðal þeirra sýrlensku flóttamanna sem eru nýkomnir til borgarinnar, enda getur verið erfitt að standa skyndilega allslaus í nýrri borg, nýju landi, nýrri heimsálfu. „Það mikilvægasta hér er menningin; við styðjum við listamenn, við styðjum við tónlistarmenn, við erum að koma á fót bókasafni og stefnum á útgáfustarfsemi; við reynum að gera hvað við getum og bjóðum alla velkomna.“
Athugasemdir