Þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu var lögð fram á Alþingi í dag. Þar er lagt til að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla þann 26. september á þessu ári og þjóðin spurð hvort hún vilji að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem mælti fyrir málinu sagði þetta eitt stærsta deiluefni í íslenskum stjórnvöldum á síðustum árum og réttast væri að fá botn í umræðuna með því að leita leiðsagnar hjá þjóðinni.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sagði Sjálfstæðisflokkinn þurfa að svara hvers vegna flokkurinn hafi skipt svo rækilega um skoðun í málinu frá síðasta kjörtímabili. Það hafi beinlínis verið ritað í útgefna stefnuskrá flokksins að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna. „Önnur eins hlaup frá eigin loforðum hefur maður ekki orðið vitni að,“ sagði Katrín og spurði hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki tilbúinn að fylgja eigin kosningaloforðum og hlusta á þær 55 þúsund undirskriftir sem söfnuðust á síðasta ári gegn áformum ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðunum.
Athugasemdir