Til er fólk sem nær markmiðum sínum í pólitík með því að ljúga – margir virðast meira að segja halda að það sé óskastaða að geta logið án þess að upp um mann komist. Samkvæmt þessu eru þeir best settir sem ljúga en eru taldir segja satt. Þeir eru sannkallaðir refir. Hinir, sem bæði segja satt og eru taldir segja satt, afla sér stöku sinnum verðskuldaðrar virðingar, en eru engir refir og geta þurft að fara flóknari leiðir að hlutunum en þeir sem ljúga án þess að upp um þá komist. Og það skilar ekki alltaf árangri að segja satt.
Þannig mætti hugsa sér að best sé að ljúga en virðast segja satt (köllum það fyrsta flokk), næst best að segja satt og virðast segja satt (segjum að það sé annar flokkur). Sá sem lýgur og er talinn ljúga er ekki í góðri stöðu (í þriðja flokki sem sagt), en í verstri stöðu er þó sá sem segir satt en er talinn ljúga (það er þá fjórði flokkur).
„Framsóknarmenn reyndust vera dálitlir refir, þeim tókst að fá fólk til að trúa að þeir væru að segja satt.“
Að sjálfsögðu segjast allir stjórnmálamenn vera í stjórnmálum vegna sérstakrar löngunar sinnar og hæfni til að þjóna almenningi og viti menn – þessu trúir almenningur oft. Þannig trúði fjórðungur kjósenda því til dæmis að Framsóknarmenn væru heiðarlegri og skarpari en aðrir frambjóðendur í síðustu kosningum og gætu því látið lán fólks lækka án þess að það hefði í för með sér verulega áhættu í ríkisfjármálum. Framsóknarmenn reyndust vera dálitlir refir, þeim tókst að fá fólk til að trúa að þeir væru að segja satt. Miðað við skoðanakannanir hefur þeim þó fækkað um meira en helming sem trúa þessu. Fyrir þeim hafa Framsóknarmenn færst úr fyrsta flokki í þriðja flokk. Það er ekki gott – en tekur þó ekki af þeim kosningasigurinn og þingmennina 19 sem honum fylgdi.
Gunnar Bragi Sveinsson reyndi að vera sniðugur en það mistókst – hann ætlaði að láta fólk hætta að tala um ESB fyrir fullt og allt en bréfið sem hann skrifaði hefur leitt til þess að um fátt er meira talað en ESB. Hann ætlaði að vera fyrsta flokks stjórnmálamaður en varð þriðja flokks.
Þótt refir leiti alltaf í fyrsta flokkinn getur þeim reynst erfitt að hrista af sér sannleikann. Þá getur fallið orðið hærra en niður í þriðja flokk. Þeir geta hæglega orðið fjórða flokks stjórnmálamenn: þá trúir þeim enginn, ekki einu sinni þegar þeir segja satt.
„Kannski er Ragnheiður Elín að segja satt, en það virðist þó ekki nokkrum manni detta í hug.“
Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur verið að halda því fram að ívilnanir í þágu fyrirtækis sem heitir Matorka hafi ekkert með tengsl þess við fjölskyldu Bjarna Benediktssonar að gera. Kannski er Ragnheiður Elín að segja satt, en það virðist þó ekki nokkrum manni detta í hug. Hún er pikkföst í óhamingju fjórða flokksins (ef hún er að segja satt) – hún virðist ljúga.
Forsætisráðherrann okkar er í sömu stöðu í ýmsum málum. Hann hefur til dæmis látið undirbúa lagafrumvarp til að gera meðferð siðferðilegra álitaefna (að því er hann segir sjálfur) einfaldari og skýrari, en engum dettur annað í hug en að þetta sé hann að gera til að þurfa ekki að fara eftir siðareglum. Kannski er hann að segja satt, en hann virðist ljúga.
Stjórnarflokkarnir eru komnir í þá sérkennilegu og óöfundsverðu stöðu að hvað sem ráðherrar þeirra segja þá virðist það vera lygi og yfirklór. Og allt er þetta tilkomið af því hvað þeir eru miklir refir – en einmitt vegna þess hvað þeir eru miklir refir eru þeir ekkert ákaflega sniðugir. Þess vegna er vel hægt að vera sammála Lilla Klifurmús, sem efaðist um að refir væru gáfaðir. Refir eru líklega aðallega latir og því gefnir fyrir að stytta sér leið að markinu, piparkökum eða öðru.
Ef maður ætti að gefa stjórnmálamönnum ráð, þá væri það að stefna á annan flokk frekar en þann fyrsta. Sleppa því að ljúga, sama hversu freistandi það er, þegar auðvelt virðist að komast upp með það, að minnsta kosti um tíma. Það getur verið erfitt að vera í öðrum flokki en tilfellið er, að þegar refirnir í fyrsta flokki eru fallnir niður í þann fjórða, þá eru annars flokks pólitíkusar fyrsta flokks og það sem meira er, þeir voru það allan tímann.
Athugasemdir