Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir mikilvægt að tyrknesk stjórnvöld og Kúrdar haldi áfram að reyna að koma á friði sín á milli. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn sem Stundin sendi í gær vegna stuðnings NATO við hernaðaraðgerðir Tyrkja sunnan landamæra við Írak og Sýrland.
Loftárásir Tyrkja beinast ekki aðeins gegn Íslamska ríkinu (ISIS) heldur einnig Kúrdum, þ.e. liðsmönnum Verkamannaflokks Kúrda (PKK), sem barist hafa ötullega gegn ISIS undanfarin misseri. Tyrkir hafa varpað sprengjum á skýli, birgða- og stjórnstöðvar og hella sem liðsmenn PKK halda til í og í gær var jafnframt ráðist á bækistöðvar þeirra í norðurhluta Írak. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur lýst því yfir að ómögulegt sé að eiga í friðarviðræðum við Kúrda meðan þeir ógni þjóðaröryggi og bræðralagi Tyrkja.
Athugasemdir