Eftir rúmar fjórar vikur mun Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurða í máli fimm ára drengs sem norska barnaverndin vill fá í sína vörslu svo hægt sé að vista hann hjá norskum fósturforeldrum til 18 ára aldurs. Amma drengsins, Helena Brynjólfsdóttir, flúði hingað til lands frá Noregi þegar ljóst var að norska barnaverndin vildi ekki að neinn ættingi eða fjölskyldumeðlimur myndi fá að vera með forsjá hans. Hún greindi frá atburðarásinni í viðtali við Stundina í lok júlí.
Norska barnaverndin gafst ekki upp og sendi bréf til Íslands sem var stílað á innanríkisráðuneytið. Þar var þess krafist að íslensk stjórnvöld myndu koma barninu upp í næstu flugvél til Noregs svo hægt væri að koma því í fóstur hjá ókunnugu fólki til átján ára aldurs. Barnið talar ekki norsku, hefur alla tíð alist upp hjá ömmu sinni og er nú komið í leikskóla á Íslandi. Helena var boðuð á fund í innanríkisráðuneytinu þar sem henni var greint frá innihaldi bréfsins og hún spurð hvort hún myndi afhenda barnið af fúsum og frjálsum vilja.
Eftir að umrætt viðtal birtist í Stundinni þróaðist málið hratt. Innanríkisráðuneytið bauðst til þess að aðstoða norsku barnaverndina að finna lögfræðing til þess að sækja málið fyrir hönd stofnunarinnar hér á landi en sú norska þurfti enga hjálp í þeim efnum. Stofnunin vissi nákvæmlega hvaða lögfræðing hún vildi. Lögfræðing sem hafði áður unnið mál gegn þeim og það í apríl á þessu ári. Það var Valborg Þ. Snævarr, einn færasti forsjárlögmaður landsins.
Athugasemdir