Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannesson eru meðal þeirra þingmanna sem ekki hafa svarað spurningum Stundarinnar um eignir sínar eða félaga í sinni eigu erlendis. Langflestir þingmanna hafa hins vegar svarað spurningum blaðsins um eignastöðu sína erlendis og eiga langflestir sem hafa svarað engar eignir erlendis og enginn lýsti kröfum í þrotabú föllnu bankanna þriggja.
Nokkrir þingmenn eiga eignir erlendis, til dæmis Valgerður Bjarnadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, en þar um að ræða lífeyrissjóðsréttindi í belgískum banka í fyrra tilfellinu og hlutabréf í London í því seinna. Enginn þingmaður sem hefur svarað spurningum Stundarinnar hefur sagt að hann eða hún eigi félag á lágskattasvæði eða skattaskjóli.
Þrír þingmenn tengjast skattaskjólum
Eins og staðan er núna, út frá þessum svörum, þá liggur fyrir að það eru þrír ráðherrar sem tengjast skattaskjólum, líkt og komið hefur fram. Þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal. Ólöf er hins vegar ekki þingmaður heldur utanþingsráðherra. Öll héldu þau þessum tengslum leyndum þar til fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media ehf. og blaðamannasamtökin ICIJ greindu frá þeim fyrr í mánuðinum eftir margra mánaða rannsóknarvinnu.
Sigmundur Davíð, eða félagið Wintris Inc. á Tortólu sem hann átti hlut í þar til í árslok 2009, er eini þingmaðurinn sem lýst kröfum í bú föllnu bankanna.
Athugasemdir