Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana flokksins, gengur nú enn lengra í hugmyndum sínum um að mismuna fólki eftir trúarbrögðum vegna hryðjuverkaógnarinnar í tilefni af skotárás í Orlando þar sem um 50 manns voru myrtir á næturklúbbi fyrir samkynhneigða.
Eftir árásina þakkaði Trump þeim sem sögðu hann hafa haft rétt fyrir sér með áformum um að banna ferðir múslima til Bandaríkjanna, þar sem árásarmaðurinn í Orlando var múslimi. Árásarmaðurinn var hins vegar fæddur í Bandaríkjunum.
„Ógnvekjandi“ ræða „brjálæðings“
Í dag hélt Trump ræðu þar sem hann skoraði á þingið að reyna að standa í vegi fyrir lokun landamæranna gagnvart múslimum, ýjaði að því að Barack Obama væri hlynntur íslamískum hryðjuverkamönnum, kallaði eftir afsögn forsetans og sagðist vilja refsa fólki sem tilkynnti ekki um grunsamlegt atferli.
Trump varaði aftur við múslimum og boðaði lokun landamæranna gagnvart þeim. „Við þurfum líka að segja sannleikann um hvernig öfgafullt íslam er að koma að ströndum okkar. Og það kemur, með þessu fólki kemur það. Við erum að flytja róttæka íslamska hryðjuverkamenn í vestrið með misheppnuðu innflytjendakerfi og með leyniþjónustu sem forsetinn heldur aftur af,“ sagði Trump í dag.
Hann sagði vanhæfni vera ríkjandi við stjórn Bandaríkjanna, en að ef hann yrði kosinn, yrði andstæða vanhæfni að veruleika. „Við verðum að stjórna landamærunum okkar. Við verðum að stjórna þeim núna, ekki seinna, núna.“
Vefmiðillinn The Huffington Post kallar Trump „brjálæðing“ í forsíðufyrisögn, segir ræðu hans ógnvekjandi og segir hann ala á ótta vegna flóttamannakrísunnar.
Ræða Trumps í heild sinni. Hana má lesa á síðu Trumps hér.
Útilokar hluta heimsins
„Ég vil þá ekki í landinu okkar,“ sagði Trump í ræðu sinni í Anselm-skólanum í New Hampshire í dag. „Ég mun stöðva innflutning fólks frá svæðum heimsins þar sem er staðfest saga hryðjuverka gegn Bandaríkjunum, Evrópu og bandamönnum okkar, þar til við skiljum fyllilega hvernig megi binda enda á þessar ógnir.“
„En múslimarnir þurfa að vinna með okkur.“
Trump vill refsa almennum borgurum fyrir að tilkynna ekki grunsamlegt atferli. „Ég vil að allir Bandaríkjamenn njóti velgengni, líka múslimar. En múslimarnir þurfa að vinna með okkur. Þeir verða að vinna með okkur. Þeir vita hvað er að gerast. Þeir vita að hann var vondur. Þeir vissu að fólkið í San Bernardino [þar sem önnur árás fór fram] væri vont. En vitið þið hvað? Þau vísuðu ekki á það.“
Nágrannar hjónanna í San Bernardino í Suður-Kaliforníu, sem myrtu 14 og særðu 22 í desember í fyrra, lýstu þeim hins vegar sem „rólegu, trúuðu fólki sem vöktu ekki athygli eða grunsemdir“.
Nú segir Trump að þeir sem hafi vitað eitthvað en ekkert sagt „þurfi að þola afleiðingar, alvarlegar afleiðingar“.
Trump hefur áður skorað á fólk að fylgjast með nágrönnum sínum og tilkynna þá ef þeir virðast grunsamlegir. „Líklegast hefurðu rangt fyrir þér, en það er allt í lagi. Það er besta leiðin. Allir eru lögregla, á sinn hátt.“
„Allir eru lögregla, á sinn hátt“
Árásarmaðurinn í Orlando fæddist árið 1986 í Bandaríkjunum, sonur afganskra foreldra. Á þeim tíma voru Bandaríkin og Afganistan samherjar í baráttunni við Sovétríkin.
Útilokar Washington Post
Trump tilkynnti í dag að hann myndi svipta Washington Post blaðamannapassa, þar sem miðillinn væri „falskur og óheiðarlegur“.
Tilkynningin kom í kjölfar þess að miðillinn benti á orð Trumps, þar sem hann ýjar að því að Obama hafi annarlegan ásetning gagnvart íslamískum hryðjuverkamönnum. „Það er eitthvað í gangi,“ sagði Trump meðal annars, en Washington Post fjallaði um málið undir fyrirsögninni „Trump virðist tengja Obama forseta við skotárásina í Orlando“.
Aðalritstjóri Washington Post, Marty Baron, segir að ákvörðunin sé „ekkert annað en höfnun á hlutverki frjálsra og sjálfstæðra fjölmiðla“.
Huffington Post, ein vinsælasta fréttavefsíða Bandaríkjanna, lýkur öllum greinum um Donald Trump á áréttingu: „Athugasemd ritstjórnar: Donald Trump hvetur reglulega til stjórnmálalegs ofbeldis og er raðlygari, svæsinn útlendingahatari, kynþáttahatari, kvenhatari og „birther“ [sá sem efast um að Obama hafi fæðst í Bandaríkjunum], sem hefur ítrekað heitið því að útiloka alla múslima - 1,6 milljarða manns heilla trúarbragða - frá því að koma til Bandaríkjanna.
Athugasemdir