„Ég á ekki von á því að þetta muni hafa neitt nema ágæt áhrif á samskipti Íslands og Bandaríkjanna,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í viðtali við Stöð 2 um helgina, aðspurður hvaða þýðingu embættistaka Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefði fyrir samband Bandaríkjanna og Íslands.
Bjarni sagði að Trump væri að mörgu leyti óvenjulegur forseti en að hann vonaði að samskipti Íslands og Bandaríkjanna myndu halda áfram að blómstra á sem flestum sviðum.
Donald Trump sór embættiseið í Washington á föstudag. Sama dag birti forsætisráðuneytið tilkynningu um að forsætisráðherra hefði, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, sent Trump heillaóskir.
„Í bréfi sínu áréttar forsætisráðherra langvarandi samvinnu og vinasamband þjóðanna, sem byggi á sömu gildum - virðingu fyrir frelsi, lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu,“ segir í tilkynningunni.
Athugasemdir