Umfjöllun ástralska fréttaskýringaþáttarins Dateline um norsku barnaverndina útskýrir yfirvofandi örlög fimm ára gamals íslensks drengs sem Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti að senda ætti úr landi í morgun.
Héraðsdómur féllst þannig á kröfu norsku barnaverndarinnar, sem vill fá drenginn sendan til Noregs svo taka megi hann úr höndum móður hans og ömmu og setja í fóstur hjá ókunnugum, norskum fósturforeldrum.
Í þætti sínum um norsku barnaverndina birtir Dateline átakanleg myndskeið úr földum myndavélum á heimili foreldra sem fengu börnin sín í heimsókn undir eftirliti norsku barnaverndarinnar. Þeir foreldrar sem missa forsjá yfir börnum sínum til norsku barnaverndarnnar fá aðeins að hitta þau tvisvar sinnum á ári í tvo klukkutíma í senn.
Í þættinum er fjallað um þann gríðarlega fjölda barna sem tekin eru frá foreldrum sínum og færð í fóstur hjá ókunnugu fólki til átján ára aldurs.
Norways stolen children? Fréttaskýringaþátturinn Dateline um norsku barnaverndina.
Mótmælt út um allan heim
Umdeildar aðferðir norsku barnaverndarinnar hafa verið fordæmdar út um allan heim, meðal annars á Íslandi. Nú stendur til að afhenda norsku barnaverndinni fimm ára gamlan íslenskan dreng sem Stundin hefur fylgst náið með frá því amma hans, Helena Brynjólfsdóttir, flúði með hann til Íslands fyrr á þessu ári.
Norskur dómstóll hafði dæmt forsjá drengsins af móðurinni, dóttur Helenu, og til norsku barnaverndarinnar. Þar hafði verið ákveðið að vista drenginn hjá ókunugu fólki til átján ára aldurs eða í rúm þrettán ár. Því gat Helena ekki lifað með og flúði Noreg ásamt dóttur sinni og litla drengnum.
Helena fór yfir atburðarrásina í opinskáu og einlægu viðtali í Stundinni þann 28. júlí en tveimur dögum áður fór fréttaskýringaþátturinn um þessar umdeildu aðferðir norsku barnaverndarinnar í loftið.
Helenu ber að skila barninu í hendur norsku barnaverndarinnar og hefur til þess tvo mánuði. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem lesinn var upp fyrir lögfræðing hennar í dag.
Þetta þýðir að Helena fær ekki að sjá barnabarnið sitt, fimm ára gamlan dreng, í 13 ár þar sem reglur barnaverndar í Noregi heimila aðeins heimsóknir foreldra barnanna. Dóttir Helenu, sem missti forsjá yfir drengnum í Noregi, fær að hitta son sinn tvisvar á ári, tvo klukkutíma í senn.
Athugasemdir