4. júlí 1776. Fulltrúar breskra nýlendna í Norður-Ameríku höfðu setið á fundum í borginni Philadelpiu. Þeir ræddu óánægju sína með sambandið við Breta. Þeim fannst Bretar skattpína sig en þeir fá lítil pólitísk áhrif í staðinn. Hugmyndir Upplýsingarinnar um frelsi og sjálfstæði höfðu skotið rótum í hugum þeirra.
Og þennan dag skrifuðu þeir undir sjálfstæðisyfirlýsingu þar sem þeir töldu fyrst upp allan sinn ágreining við Breta og sögðu sig svo úr lögum við þá. Nýlendurnar skyldu vera „frjáls og sjálfstæð ríki og skulu þau vera laus undan allri hollustu við bresku krúnuna“.
Þetta vildu Bretar ekki sætta sig við og sendu her til að bæla niður sjálfstæðistilburði nýlendubúa en svo var frelsisþráin sterk í brjósti Ameríkumanna og þvílíkan eldmóð sóttu þeir í sjálfstæðisyfirlýsinguna að þeir knésettu stórveldið með svolítilli hjálp frá Frökkum, fjendum Breta.
Eftir háðulega útreið neyddust Bretar að samningaborðinu árið 1783 og viðurkenndu sjálfstæði nýlendubúa.
Þetta er í mjög stórum dráttum sú atburðarás sem leiddi til þess að Bandaríki Norður-Ameríku urðu til og þetta halda Bandaríkjamenn upp á hverju sinni þegar þjóðhátíðardagur þeirra 4. júlí rennur upp.
En var þetta svona einfalt? Bandaríski sagnfræðingurinn Larrie Ferreiro gaf seint í fyrra út bók sem gefur dálítið aðra mynd af upphafi og framgangi frelsisstríðsins. Bókin heitir Brothers in Arms og var tilnefnd til Pulitzer-verðlauna í flokki sagnfræðirita.
Kenning Ferreiros er einfaldlega sú að sjálfstæðisyfirlýsingunni frá 4. júlí 1776 hafi í rauninni ekki verið beint gegn eða til Breta. Plaggið hafi miklu frekar verið hjálparbeiðni nýlendubúa til Frakka og Spánverja, keppinauta Breta bæði í Evrópu og á hafsvæðum og nýlendum víða um heim.
Ishaan Tharoor blaðamaður The Washingon ræddi við Ferreiro í tilefni þjóðhátíðardagsins.
Ferreiro benti á að Georg III Bretakóngur hafi verið búinn að fá í hendur skilaboð frá nýlendubúum um að þeir vildu sjálfstæði.
„Af skrifum landsfeðranna er dagljóst að þeir vissu vel að þeir gætu ekki staðið einir uppi í hárinu á Bretum. Þeir vissu að einu ríkin sem hefðu bæði áhuga og hernaðarmátt og flotastyrk til að sigra Breta væru Frakkland og Spánn. Og eina leiðin til að fá þá til að leggja Bandaríkjamönnum lið var sú að gera þeim ljóst að þetta snerist ekki bara um kröfur nýlendubúa við móðurríki sitt um betri kaupskaparsamninga. [Frakkar og Spánverjar] myndu aðeins koma okkur til hjálpar ef þeir litu á okkur sem sjálfstætt fullvalda ríki sem ætti í baráttu við sameiginlegan óvina þeirra og okkar. Til þess var sjálfstæðisyfirlýsingin skrifuð og bæði Thomas Jefferson og John Adams [forsetar númer tvö og þrjú] sögðu það berum orðum.“
Ferreiro segir ennfremur að þótt Jefferson, aðalhöfundur sjálfstæðisyfirlýsingarnnar, hafi vissulega fléttað í hana nýjar hugmyndir upplýsingarinnar um rétt ríkja og þegna, þá hafi yfirlýsingin í grunninn verið hróp á hjálp. Því til sannindamerkis bendir hann meðal annars á að fyrsta verk nýlendubúa eftir að hafa skrifað undir sjálfstæðisyfirlýsinguna hafi verið að setja hana á skip og senda til hirða Frakklands og Spánar.
Og hið nýfrjálsa ríki Bandaríkjamanna fékk góðar viðtökur frá Frökkum og Spánverjum sem áttu einlægt í styrjöldum og skærum við Breta þá áratugina.

Ferreiro bendir og á að það sem gerði Bandaríkjamönnum kleift að þreyja þorrann meðan breskar hersveitir léku lausum hala í nýlendunum næstu árin hafi ekki einungis verið frelsisþrá og þolgæði sjálfstæðisunnenda. Aðstoð frá útlöndum skipti sköpum. Hin nýja þjóð fékk sem svarar 30 milljörðum dollara í neyðaraðstoð frá Frakklandi og Spáni. Vopn streymdu líka til landsins. Alls voru 90 prósent vopnanna sem nýlendumenn notuðu frá útlöndum.
Þá flykktust útlenskir hermenn til Ameríku til að leggja Bandaríkjamönnum lið. Þar var bæði um að ræða sjálfboðaliða og fastahermenn. Stærri hluti af bandaríska heraflanum í frelsistríðinu kom frá útlöndum en Bandaríkjamenn vilja stundum viðurkenna í þjóðhátíðarræðum.
Stór þáttur í því að Bandaríkjamenn náðu að sigra Breta snerist um baráttuna á höfunum. Bretar voru mesta flotaveldi heims en þeir máttu ekki við margnum. Þegar frelsisstríð Bandaríkjanna hafði staðið í nokkur ár voru Hollendingar líka komnir til liðs við þá og Bretar réðu einfaldlega ekki við svo marga óvini í einu.
Þá gleymist oft að á einmitt þessum tíma áttu Bretar í kostnaðarsömu stríði á Indlandi þar sem þeir voru að knésetja fyrst Maraþa-stórveldið og síðan Mýsóre-ríkið á suðurhluta Indlands. Þessi stríð voru að vísu háð í nafni Austur-Indíafélagsins en vitaskuld stóð þó breska ríkið að baki.
Og Ferreiro bendir á að þegar Bretar stóðu frammi fyrir því að verða að forgangsraða í styrjöldum sínum við alla þessa óvini, stríð sem fór fram í Evrópu, á meginlandi Ameríku, í Miðjarðarhafinu, á Karíbahafinu, á Indlandi og Indlandshafi, þá hafi nýlendurnar í Bandaríkjunum einfaldlega ekki lent fremst í röðinni.
„Það sem svo margir gleyma er að eftirsóttasta landsvæðið var Karíbahafið,“ segir Ferreiro. „Sykurframleiðslunýlendurnar þar voru hinar eiginlegu peningaverksmiðjur.“
Thaaror spurði Ferreiro hvort vitneskjan um þetta varpaði einhverjum skugga á sjálfstæðisyfirlýsinguna og frelsisstríðið.
Ferreiro áréttaði að sóknin eftir sjálfstæði hafi í upphafi ekki snúist um háleitar hugmyndir upplýsingatímans um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða.
„Upphafið snerist um vonir okkar um að stunda viðskipti eins og hentaði okkur best. Mest öll lífsgæði okkar komu frá verslun með landbúnaðarafurðir við Evrópu og Karíbahafi og það voru höft á þeirri verslun sem voru orðin illþolandi fyrir Ameríkumenn. Við hófum ekki þetta stríð út af einhverjum göfugum hugsjónum um frelsis og réttlæti, heldur vildum við öðlast efnahagslegt svigrúm án þeirra þungbæru hafta sem Bretar lögðu á okkur.“
Þegar blaðamaður spyr hvers vegna þessi alþjóðlegi vinkill á sjálfstæði Bandaríkjanna hafi verið svo lítt áberandi í sögulegri vitund þar vestra, þá bendir Ferreiro á að uppruna þjóðsögunnar um að Bandaríkin hafi ein og nærri óstudd barist af eldmóði til sjálfstæði megi rekja til miðrar 19. aldar þegar hugsunin um „manifest destiny“ greip um sig meðal Bandaríkjamanna. Þá voru Bandaríkin að teygja sig allt til Kyrrahafsins og leggja undir sig svæði bæði frumbyggja og Mexíkóa.
Til að réttlæta þennan yfirgang var búin til hugmyndin um hin „augljósu örlög“ Bandaríkjamanna að færa frelsi, sjálfstæði og réttlæti yfir alla álfuna. Og til að hlaða undir hugmyndina um „manifest destiny“ þurfti að sýna fram á að Bandaríkjamenn hefðu allt frá upphafi staðið einir, sterkir og einbeittir gegn kúgun og höftum Breta.
Franski hershöfðinginn Lafayette hafði að vísu farið í mikinn leiðangur um Bandaríkin um 1825 og var tekið með kostum og kynjum. Lafayette hafði verið einn af mörgum útlenskum herforingjum sem lögðu Bandaríkjamönnum lið og alls ekki sá mikilvægasti.
Með ferðalagi sínu 50 árum eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna öðlaðist Lafayette hins vegar þjóðsagnakenndan sess í söguvitund Bandaríkjanna, og þegar þeir fóru svo nokkrum áratugum síðar að bæla meðvitað og ómeðvitað niður þátt útlendinga í frelsisstríðinu, þá varð Lafayette ekki haggað þaðan.
Því var viðurkennt að Bandaríkjamenn hefðu vissulega notið svolítillar aðstoðar frá Frökkum, en gert eins lítið úr því og hægt var. Í sumum sögubókum er nánast eins og Lafayette hafi tekið upp hjá sjálfum sér að fara með svolítinn herflokk til aðstoðar Bandaríkjamönnum.
Og þáttur Spánverja var einfaldlega þaggaður nær alveg niður.
„Við vorum að brjóta okkur leið vestur,“ segir Ferreiro, „og þá skaut rótum hugmyndin um að Bandaríkjamenn væru einstakir í sinni röð og hefðu algjöra yfirburði umfram Evrópumennina sem þeir voru komnir af. Í slíka sögu þarf sterka aðalpersónu – og það voru Washington, fyrsti forsetinn, og [amerísku] hershöfðingjarnir hans.
En það passaði ekki inn í söguna að við hefðum þurft að þiggja hjálp frá þjóðunum sem við töldum okkur nú hafa yfirburði yfir. Þessi þjóðsaga lifði góðu lífi langt inn á 20. öldina. Á undanförnum áratugum eru menn farnir að líta víðar og skoða hlutverk þræla frá Afríku, frumbyggja og annarra hópa. Menn gera sér betur en áður grein fyrir því að ameríska byltingin var ekki eins klippt og skorin og okkur var lengi sagt.“
Athugasemdir