Kannski finnst einhverjum það að bera í bakkafullan lækinn þegar fjölmiðlar eltast enn við að þefa uppi og leiðrétta rangfærslur þær og bull sem Donald Trump Bandaríkjaforseti lætur út úr sér.
En það er samt mikilvægt. Stjórnmálamenn – ekki heldur hér á landi – mega ekki læra þá lexíu að þeir geti komist upp með þvaður og rangfærslur af því fjölmiðlar nenna á endanum ekki að leiðrétta þá.
Það á ekki síst við þegar óvandaðir stjórnmálamenn reyna að hagnýta sér mannkynssöguna, og breyta henni að eigin geðþótta til að hlaða undir sín pólitísku markmið.
Þetta gerði Trump um daginn þegar hann fór nokkrum orðum um Andrew Jackson fyrirrennara sinn í Hvíta húsinu 1829-1837.
Þau orð voru í sjálfu sér næstum tómt bull.
Enginn fattar, nema Trump
Það helsta var þetta:
„Ég meina, ef Andrew Jackson hefði verið aðeins seinna, þá hefði borgarastríðið ekki orðið. Hann var mjög kaldur kall, en hann hafði stórt hjarta, og hann var virkilega reiður þegar hann sá hvað var að gerast í sambandi við borgarastríðið. Hann sagði: „Það er engin ástæða til þess.“ Fólk fattar það ekki, þú veist, borgarastríðið, maður hugsar um það, af hverju? … Fólk spyr sig ekkert að því. En af hverju varð borgarastríðið? Af hverju var ekki hægt að redda því?“
Sú saga sem Trump er hér að vísa til er í örstuttu máli á þessa leið. Strax við stofnun Bandaríkjanna á ofanverðri 18. öld var þrælahald vandamál. Í Suðurríkjunum var þrælahald mikilvægt en í Norðurríkjunum urðu menn æ andvígari þrælahaldi. Deilur um þetta gerðust smátt og smátt hatrammari. Hver Bandaríkjaforsetinn af öðrum reyndi að sópa vandamálinu undir teppi en það gekk ekki til lengdar.

Árið 1860 var Abraham Lincoln kosinn forseti. Hann var andstæðingur þrælahalds og gaf skýrt til kynna að hann ætlaði að binda endi á það. Þá sögðu Suðurríkin sig úr lögum við Norðurríkin og reyndu að stofna nýtt ríki. Norðurríkin töldu það ólöglegt og grimmilegt borgarastríð braust út sem stóð til 1865 og lauk með sigri Norðurríkjanna og afnámi þrælahalds.
Þegar Andrew Jackson var forseti var vandamálið vegna þrælahaldsins vissulega farið að grafa verulega um sig í bandarísku samfélagi en það voru þó 24 ár frá því hann lét af embætti 1837 og þar til borgarastríðið braust út.
Og þegar hann lést 1845 voru 16 ár að upphafi stríðsins.
Jackson hirti reyndar mjög lítið – mér liggur við að segja ekkert – um að ná einhvers konar sáttum í deilumálinu um þrælahaldið. Og það er einfaldlega tóm tjara hjá Trump að Jackson hafi orðið „mjög reiður þegar hann sá hvað var að gerast í sambandi við borgarastríðið“.
Þetta er sem sagt rangt og það er illt til þess að vita að í embætti forseta Bandaríkjanna sé maður sem hefur svo takmarkaðan skilning á jafn mikilvægum þáttum í bandarískri sögu og þrælahaldinu og borgarastríðinu.
En látum það vera. Það sem er eiginlega enn verra er sú trú sem Trump virðist hafa á því að „kaldur kall“ hefði getað „reddað“ þessu deilumáli ef hann hefði verið til staðar. Og að það hafi verið „engin ástæða“ til þessa stríðs.
Það var reyndar ein mjög mikilvæg ástæða til þessa stríðs.
Hún var sú að afnema þann „rétt“ sem Suðurríkjamenn töldu heilagan að þeir mættu „eiga“ og versla með annað fólk.
Má gera „díla“ um manneskjur?
Þótt atriði eins og afstaða manna til réttinda einstakra ríkja í sambandi Bandaríkjanna hefðu sitt að segja, þá er engum blöðum um það að fletta að ástæða borgarastríðsins var númer eitt, tvö og þrjú þrælahaldið.
Og einhvers konar „díll“ sem hefði komið í veg fyrir borgarastríðið hefði því falið í sér samkomulag um að Suðurríkin hefðu vissulega þennan „rétt“.
Suðurríkin hefðu kannski þurft að fallast á að draga úr þrælahaldinu eða eitthvað, en samkomulag um þrælahald felur samt í sér framlengingu á þrælahaldi.
Sem aldrei má viðgangast.
Og það verður Abraham Lincoln til ævarandi hróss að hafa gefið skýrt til kynna að nú gengi þetta ekki lengur.
En Trump finnst sem sé að um svona hluti megi gera þá „díla“ sem hann þykist svo flinkur í. Það megi þá líklega „redda“ hlutum eins og grundvallarmannréttindum.

Þetta er nú eitt athugavert við orð Trumps.
Annað er sú hlægilega hugmynd hans að „fólk spyrji sig ekkert að því“ af hverju borgarastríðið hafi brotist út fyrr en þá að hann sjálfur virðist hafa farið að velta því fyrir sér. Ég skil vel að amerískir sagnfræðingar, sitjandi í heilu bókasöfnunum af þykkum doðröntum um orsakir og framgang borgarastríðsins, hafi orðið nokkuð hvumsa og jafnvel agnarpínulítið móðgaðir!
En þriðja og í raun alvarlegasta aðfinnslan við mál Trumps er að Jackson hafi haft „stórt hjarta“.
Merking þessara orða hlýtur að vera sú að Jackson hafi verið góðviljaður og vænn maður inn við beinið.
Jæja?
Jackson var nú í fyrsta lagi þrælaeigandi sjálfur. Það var vart að undra að hann gerði ekkert til að sporna gegn þrælahaldi í forsetatíð sinni því sjálfur sá hann sóma sinn í að „eiga“ allt að 300 aðrar manneskjur sem púluðu á plantekrum sem hann átti í Tennessee.
Jackson mun hafa þótt fremur mildur við þræla sína en þó er til auglýsing þar sem hann auglýsir eftir „múlatta“ í sinni „eigu“ sem lagt hafi á flótta. Þar eru boðnir 50 dollarar þeim sem kemur „múlattanum“ aftur til „eiganda“ síns. Að auki eru boðnir tíu dollarar aukalega hverjum þeim sem slær þrælinn 100 svipuhögg.
Og tekið fram að alls séu í boði 300 dollarar!!
Hefur sá sem hér auglýsir „stórt hjarta“?
Táraslóðin
Og ekki er skárra hvernig Jackson fór með frumbyggja Ameríku í forsetatíð sinni. Hann var ekki fyrstur forseta eða forkólfa hvítra manna til að efna til fjöldamorða eða allsherjar kúgunar á frumbyggjum en hann „stofnanavæddi“ meðferðina á frumbyggjum með lögum sem hann samþykkti 1830 og fólu í sér að frumbyggjar voru reknir frá heimilum sínum í Suðurríkjunum og smalað út í óbyggðir langt í vestri.
Þúsundir og aftur þúsundir frumbyggja dóu á leiðinni en hvítir íbúar fögnuðu, enda gátu þeir nú rænt löndum frumbyggja í enn meira mæli en áður.
Frumbyggjar kalla brottreksturinn „táraslóðina“ enda dóu börn og fullorðnir í hrönnum úr hungri, þorsta, vosbúð og illri meðferð á göngunni.
Hefur sá „stórt hjarta“ sem fyrirskipar þvíumlíkt?
Hefur sá „stórt hjarta“ sem telur meðferð Jacksons á svörtum þrælum og frumbyggjum bera vott um „stórt hjarta“?
Athugasemdir