Fyrir réttum 50 árum munaði minnstu að kjarnorkusprengja yrði sprengd í stríðsátökum, þriðja sinni í sögunni á eftir sprengjunum í Hírósjíma og Nagasakí 1945.
Um var að ræða áður óþekktan þátt í sex daga stríðinu, svonefnda, milli Ísraels og þriggja Arabaþjóða árið 1967.
Ísrael var stofnað með tilstyrk Sameinuðu þjóðanna 1948 en í algjörri óþökk arabískra íbúa á svæðinu og nágrannaríkjanna. Fjöldi Araba flúði strax af landsvæði hins nýja ríkis og nágrannarnir réðust til atlögu. Ísraelum tókst hins vegar að hrinda árásinni og treystu sig næstu árin í sessi. Oft kom til meiri eða minni átaka en ljóst var að Ísraelar nytu nær óbilandi stuðnings Bandaríkjanna og einnig mikillar velvildar á Vesturlöndum.
Í byrjun árs 1967 var gríðarleg spenna á svæðinu. Þá var Gamal Abel Nasser forseti Egiftalands og fór mikinn í andúð sinni á Ísrael. Hann byggði upp töluverðan hernaðarmátt með hjálp Sovétríkjanna og sama gerðu Sýrlendingar, og raunar Jórdanir líka þótt þeir treystu ekki á Sovétmenn.
Ísraelar voru vissir um að Nasser ætlaði að ráðast á þá fyrirvaralaust. Nasser hafði á hinn bóginn fengið þær upplýsingar frá Sovétmönnum að Ísraelar stefndu að árás. Hann greip þá til þess ráðs að loka fyrir siglingar á Tiran-sundi en þær voru Ísraelum mjög mikilvægar. Ísraelar höfðu gefið út að ef siglingum á sundinu yrði lokað myndu þeir líta á það sem stríðsyfirlýsingu. Nasser tók því þó fjarri að hann hygði á árás á Ísrael.

Ísraelar trúðu því illa og ákváðu að verða fyrri til. Þann 5. júní gerði öflugur flugher þeirra fyrirvaralausa skyndiárás á egifska flugherinn og nærri gereyddi honum í einni atlögu. Þetta þunga högg varð einn sterkasti þátturinn í goðsögunni um hinn ósigrandi her Ísraels sem fléttuð var þessa áratugina.
Um sama leyti hófu skriðdrekasveitir Ísraela sókn inn á Gaza-svæðið og Sínaí-skaga sem Egiftar réðu. Nasser kallaði þá eftir hjálp Jórdana og Sýrlendinga. Falskar fréttir af miklum hernaðarsigrum Egifta urðu til þess að Sýrlendingar töldu sér óhætt að blanda sér í átökin og hófu fallbyssuskothríð á Ísrael úr Gólan-hæðum.
Um sama leyti urðu róstur við Jerúsalem sem var þá að hálfu undir stjórn Jórdana.
Ísraelar gerðu sér lítið fyrir og réðust í senn til atlögu í Gólan-hæðum, við Jerúsalem og á Vesturbakkanum, auk þess sem hersveitir þeirra sóttu á miklum hraða yfir Sínaí-skaga.
Skemmst er frá því að segja að eftir sex daga lauk stríðinu með algjörum sigri hins vel þjálfaða og vel útbúna hers Ísraela. Þeir höfðu þá náð Gólan-hæðum, Vesturbakkanum, öllum Sínaí-skaga og voru komnir að Súez-skurði. Herir arabísku ríkjanna höfðu farið miklar hrakfarir og 300.000 íbúar Vesturbakkans enduðu í flóttamannabúðum í Jórdaníu og víðar.
Nú eru sem sé liðin 50 ár síðan þetta stríð stóð og í tilefni þess hefur ísraelski fræðimaðurinn Avner Cohen, sérfræðingur í kjarnorkusögu Ísraels, upplýst merkilegan þátt þessarar sögu sem hingað til hefur legið í þagnargildi.
Cohen tók um aldamótin síðustu fjölda viðtala við hershöfðingjann Izhak Yaakov sem var innsti koppur í búri ísraelsku herstjórnarinnar í sex daga stríðinu.
Samkvæmt viðtölunum var áætlun Ísraela um að setja saman kjarnorkuvopn komin mun lengra árið 1967 en hingað til hefur verið talið.
Rétt í þann mund þegar sex daga stríðið var að hefjast - þegar Ísraelar höfðu komist að þeirri niðurstöðu að stríðsátök væru óumflýjanleg - þá voru í kapphlaupi við tímann að setja saman sína fyrstu kjarnorkusprengju. Ísraelar voru alls ekki vissir um hversu vel þeim myndi ganga þegar stríðið byrjaði, og ef þeir færu halloka í byrjun ætluðu þeir að sprengja kjarnorkusprengju á Sínaí-skaga til að skjóta Arabaríkjunum skelk í bringu.
Yaakov, sem lést í hárri elli árið 2013, sagði í einu viðtalanna við Cohen:
„Sko, þetta var svo sjálfsagt. Þú átt þér óvin og hann segist ætla að reka þig út í sjó. Og þú trúir honum. Hvernig geturðu stoppað hann? Þú hræðir hann. Ef þú hefur eitthvað sem þú getur hrætt hann með, þá hræðirðu hann?“
Þegar til kom gekk Ísraelum hins vegar allt í haginn í stríðinu og því var ekki talin þörf á að sprengja kjarnorkusprengjuna á Sínaí-fjalli.

Óneitanlega hljóta Biblíufróðir að sperra eyrun við fréttir af þessu tagi, því í 19. kapítula annarrar Mósebókar, einu af helstu helgiritum Ísraela, segir frá því þegar Drottinn kallar Ísraelslýð að Sínaí-fjalli til að sýna dýrð sína, en brýnir þó fyrir fólki að koma ekki of nærri.
Svo segir:
„Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið sem var í búðunum. Þá leiddi Móse fólkið út úr búðunum til móts við Guð og tóku menn sér stöðu undir fjallinu.
Sínaífjall var allt í einu reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi. Og lúðurþyturinn varð sterkari og sterkari. Móse talaði og Guð svaraði honum hárri röddu. Og Drottinn sté niður á Sínaífjalli.“
Athugasemdir