Ríkið Katar er nú í sviðsljósinu eftir að nokkur ríki í Miðausturlöndum hafa sameinast um að beita Katara þvingunum til að þeir leggi af meintan stuðning sinn við öfgaöfl og hryðjuverkamenn íslamista.
Þessir fregnir koma sjálfsagt mörgum á óvart því hið ofsaríka olíuauðuga Katar hefur hingað til verið þekkt fyrst og fremst fyrir íburðinn í höfuðborginni Doha og svo þátt valdaættarinnar í að koma á fót hinni frjálslyndu sjónvarpsfréttastöð Al Jazeera.
En hvað er Katar eiginlega?

Þetta er skagi sem stendur út í Persaflóa en hefur landamæri í suðri að Sádi Arabíu.
Lengst af í fornöld var Katar óaðskiljanlegur hluti þeirra ríkja sem á hverjum tíma réðu Mesópótamíu (Írak) eða Persaflóasvæðinu.
Katar-skaginn skar sig frá fyrst og fremst fyrir ábatasamar perluveiðar sem þar hafa löngum verið stundaðar. Perluveiðar og fiskveiðar voru í reynd einu atvinnuvegir Katara, utan verslunar, í aldir og aftur aldir.
Eftir að Katarar tóku íslam um 630 varð skaginn hluti af veldi múslima sem breiddist út um öll Miðausturlönd um miðbik sjöundu aldar.
Á tímabili varð Katar miðstöð verslunarleiða milli Arabíu, Indlands og Kína. Þá var svæðið auðugt og völlur á leiðtogum Katara. Þeir höfðu mismikla sjálfstjórn eftir því hvernig vindar blésu í alþjóðapólitíkinni við Persaflóa.
Þegar kom fram á 13du öld voru Katarar ekki eins auðugir og stundum áður, og litlar bógar. Þá urðu þeir undirsátar hins svonefnda Hormuz-ríkis sem var arabískt konungdæmi við utanverðan Persaflóa.
Í byrjun 16du aldar komu Portúgalar af hafi og gerðu Hormuz-ríkið að leppríki sínu, og þar á meðal Katar. Í nokkra áratugi var hafsvæðið frá Arabíu til Indlands nánast eins og portúgalskt innhaf.
Um 1550 ráku íbúarnir Portúgali hins vegar af höndum og kusu að gerast í staðinn undirsátar hinna tyrknesku Ottómana-sem voru að leggja undir sig mestöll Miðausturlönd. Tyrkir hirtu hins vegar lítt um þetta svæði.

Áður en olíunotkun hófst og olíulindur fundust við Persaflóa, þá var þetta svæði lítt eftirsóknarvert, nema helst sem verslunarleið. Fyrir utan perlur og fisk var fátt að sækja til Katar nema sand. Og enginn hafði í raun áhuga á sandi frá Katar. Stjórn Tyrkja var einungis að nafninu til, og varla það.
Oft ríkti samt togstreita um skagann milli ýmissa valdaætta sem rifust um völd yfir Arabíu og Persaflóa. Um miðja 18du öld reis upp öflug valdaætt í Arabíu austanverðri og var gjarnan með puttana á Katar-skaga næstu áratugi.
Forkólfur ættarinnar hét Mohammed bin Saud og studdist við strangtrúaðan klerk að nafni Ibn Abd Al-Wahhab.
Saudar, eða Sádar, náðu hins vegar sjaldnast öllum völdum yfir Katar-skaga. Þar lutu menn frekar stjórn Khalifa-ættarinnar sem réði ríkjum á smáeyjunni Bahrein skammt norðan Katar-skaga.
Í Katar héldu sig um tíma í byrjun 19du aldar flotar sjóræningja sem herjuðu á siglingar á Persaflóa og Indlandshafi, en 1821 gerðu bresk herskip Austur-Indíafélags árás á stöðvar sjóræningja. Fjöldi íbúa í Katar lagði þá á flótta frá heimkynnum sínum.
Í umrótinu sem þá varð komst til áhrifa í Katar metnaðargjarn höfðingi sem Al Thani hét og næstu áratugi varð Al Thani-ættin hin eiginlega furstaætt á svæðinu.
Khalifa-ættin í Bahrein og ýmsir furstar á suðurströnd Persaflóa kunnu illa uppgangi Al Thani-fólksins í Katar og gerðu innrás og ætluðu að knésetja Al Thani-ættina.
En þá fóru Bretar að skipta sér af. Þeir höfðu gert samning við Bahrein sem þeir töldu nú að stríðsæsingar í Katar væru skýrt brot á, og knúðu Bahrein-menn 1868 til að fallast á yfirráð Al Thani-ættarinnar í Katar.
Fáeinum árum síðar tóku Tyrkir hins vegar upp á því að vilja endurvekja yfirráð sín yfir Persaflóa og þar með Katar, og fóru þeir með stríði á hendur Kötörum.
Katarar hrundu hins vegar árás Tyrkja og voru að mestu sjálfstæðir til ársins 1916 þegar Bretar voru ásamt Frökkum að búta sundur leifar Tyrkjaveldis í Miðausturlöndum og gerðu Katar að „verndarsvæði“ sínu.
Al Thani-ættin réði þá í umboði Breta.
Þegar kom fram um seinni heimsstyrjöld var áhugi þjóða um víða veröld á því að tilheyra Bretum mjög að verða af skornum skammti.
Æ meiri olía fannst í sandöldum Arabíu og við strendur Persaflóa og brátt varð ljóst að Al Thani-ættin átti von á að verða ofsarík, líkt og fleiri valdaættir í furstadæmum við Flóann.
Undir lok sjöunda áratugarins var fyrirhugað að stofna sjálfstætt ríki Bahrein, Katar og sjö smárra furstadæma við sunnanverðan Persaflóa en Katarar höfðu þegar til kom lítinn áhuga á því.
Al Thani-ættin sá ekki ástæðu til að deila olíulindum og auðæfum sínum með neinum.
Katar varð sjálfstætt ríki 1971 og komst þá fljótt í hóp allra ríkustu ríkja heims.
Síðan eru Katarar búnir að kaupa sér margt fallegt fyrir peningana sína.
Þeir keyptu sem fyrr segir sjónvarpsstöð, þeir keyptu heimsmeistaralið í handbolta og þeir hafa keypt sjálft heimsmeistaramótið í fótbolta.
Þeir keyptu líka banka á Íslandi.
Eða var það ekki annars?
En skyldi það vera rétt að þeir hafi líka keypt sér íslamska hermdarverkamenn?
Athugasemdir