Ef árangur dýrategunda væri mældur eftir fjölda lifandi einstaklinga hverju sinni þá mundu svín, nautgripir og kindur njóta sambærilegrar velgengni og maðurinn en maðurinn hefði þó þægilegt forskot. Áætlaður fjöldi svína á jörðinni er um 2 milljarðar og kindur og nautgripir eru um milljarður hvor. Fjöldi manna er um 7 milljarðar.
Hænsn bera þó höfuð og herðar yfir þessi dýr með um 19 milljarða einstaklinga. Þessar tölur eru háar en þær verða sérstaklega áhugaverðar þegar skoðað er hversu mörg þessara dýra deyja á hverju ári. Á hverju ári deyja um 1,2 milljarðar af svínum, 515 milljón kindur, 300 milljón nautgripir og hátt í 50 milljarðar af hænsnum. Til samanburðar deyja um 55 milljón manns á hverju ári. Þannig að á hverju ári deyr um 0,8% mannkyns en í tilfellum dýranna sem maðurinn elur þá deyja 60% svína, 50% kinda, 30% nautgripa og 263% hænsna á hverju ári. Fyrir utan þann brenglaða mun sem er á dánartíðni þessara dýra og dánartíðni mannsins þá er einnig áberandi munur á því hvernig þessi dýr mæta dauðdaga sínum. Í nær öllum tilvikum þeirra milljarða sem deyja á hverju ári eru dýr drepin af mönnum langt fyrir aldur fram á meðan maðurinn nær í flestum tilvikum að lifa fram á gamals aldur en helsta dánarorsök mannsins eru ósmitbærir sjúkdómar eins og hjartasjúkdómar, krabbamein og sykursýki.
Til að viðhalda þessum dýrastofnum samhliða þeim fjöldamorðum sem við fremjum á þeim hefur maðurinn fundið leiðir til þess að dýrin fjölgi sér stöðugt. Það liggur í hlutarins eðli að með því að koma ógrynni af þessum einstaklingum inn í þennan heim erum við ekki að gera þeim neinn greiða því á sinni ónáttúrulegu og stuttri ævi þurfa þeir að lifa við vægast sagt óþolandi aðstæður. Fjöldi þessara dýra er það mikill og drápin á þeim svo tíð að það er nær ógerlegt að huga að velferð þeirra og hagsmunum svo að viðunandi geti talist. Það er því ekki orðum aukið þegar lífi þessara dýra er líkt við útrýmingarbúðir því útrýming þeirra er stöðug og staðföst.
Þau hafa taugar
Þessi dýr hafa öll þróuð taugakerfi og mikla getu til að þjást og finna sársauka sem og líða vel og vera ánægð. Þetta eru eiginleikar sem forfeður okkar allra þróuðu með sér og við höfum erft til þess að auka lífslíkur okkar og lífsgæði. Annar eiginleiki sem við, ásamt öðrum dýrum, höfum erft eru þau gífurlegu sterku tengsl sem myndast á milli afkvæmis og foreldra og þá sérstaklega á milli móður og afkvæmis. Án þessara gagnkvæmu tengsla áttu afkvæmi fortíðarinnar sér ekki von um afkomu og í gegnum þróunarsöguna höfum við og önnur dýr erft þau gen sem stuðla að þessum sterku tengslum milli móður og barns. Að búa yfir þessum sterku tengslum en geta ekki brugðist við þeim, til dæmis vegna aðskilnaðar, hefur gífurlega neikvæð taugatrekkjandi og önnur sálfræðileg áhrif á bæði móður og barn, og veldur þeim óneitanlega mikilli þjáningu. Slík atvik eru blessunarlega nokkuð sjaldgæf í okkar samfélagi en því miður algeng hjá kúm til þess eins að standa undir óþarfri júgurmjólkurneyslu mannsins. Slíkur aðskilnaður, af mannavöldum, er einnig algengur meðal annarra dýra, til að mynda meðal kinda og svína. Sterk tilfinningaleg tengsl móður og barns sem og háþróuð taugakerfi eru grunneiginleikar til þess að komast af og við mannfólkið notum þá óspart til þess að bæði njóta lífsins en einnig til að hlúa að og ala heilbrigðar og hamingjusamar fjölskyldur. Á sama tíma meinum við öðrum dýrum að njóta sambærilegra lífsgæða og snúum færni þeirra til að komast af gegn þeim með líkamlegu og andlegu ofbeldi.
Það fer því fjarri að árangur og lífsgæði þessara dýrategunda verði mæld eftir fjölda einstaklinga hverju sinni. Þvert á móti ætti það að vera öllum ljóst að þessi dýr eru hinir mestu taparar og ótvírætt helstu fórnarlömb mannkynssögunnar.
Það má vel vera að á einhverjum tíma í mannkynssögunni, og meira á sumum skeiðum en öðrum, að neysla dýra til manneldis hafi verið nauðsynleg fyrir mannfólk til að komast af. Þetta á jafnvel enn við í dag en í undantekningartilvikum, eins og til dæmis í tilvikum frumbyggja á norðurslóðum, en það getur þó reynst íbúum Vesturlanda og annarra velmegandi ríkja erfitt að réttlæta sitt dýraát á sannfærandi hátt. Með mun sterkari rökum má leiða að því líkum að langflestir væru betur settir með því að sniðganga að mestu eða öllu leyti matvörur frá dýraríkinu.
Dýraneysla veldur dauða manna
Um 60% dauðsfalla mannkyns má rekja til ósmitbærra sjúkdóma. Það er því kaldhæðni örlaganna að slíkir sjúkdómar eru oft beintengdir neyslu matvara úr dýraríkinu. Þannig má með breyttu mataræði einu saman koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og styrkja heilsu fólks. Nýleg og yfirgripsmikil rannsókn, birt í vísindatímaritinu PNAS undir titlinum „Analysis and valuation of the health and climate change cobenefits of dietary change“ sýndi fram á þetta með óyggjandi hætti. Niðurstaða greinarinnar var sú að með hnattrænni breytingu á mataræði mannfólks yfir í vegan-fæði, það er mataræði án allra dýraafurða, mætti koma í veg fyrir 8,1 milljón dauðsföll á ári og bjarga 129 milljón mannsárum fram til ársins 2050. Þessir ósmitbæru sjúkdómar, eins og hjartasjúkdómar, krabbamein og sykursýki, eru gríðarleg byrði á heilbrigðiskerfum heimsins, sérstaklega hjá velmegandi ríkjum, og vegna þess að slíkum sjúkdómum færi fækkandi með breyttu mataræði þá hefði slík breyting verulegan fjárhagslegan ávinning. Með breytingum yfir í vegan-fæði myndi árið 2050, samkvæmt ofangreindri rannsókn, sparast 1.000 milljarðar dollara á ári, eingöngu í heilbrigðiskerfinu. Með því að nota aðra mælingu á sparnað, svokallaðan ‘value of statistical life’, var áætlaður árlegur sparnaður árið 2050 um 30.000 milljarðar dollara ef mannkynið skipti alfarið yfir í vegan-fæði. Í ofanálag mátu þeir fjárhagslegan ávinning af umhverfisáhrifum á um 600 milljarða dollara á ári árið 2050.
Minni gróðurhúsaáhrif af grænmetisfæði
Umhverfisáhrif dýraframleiðslu eru að sjálfsögðu ekki eingöngu fjárhagsleg heldur er dýraframleiðsla verulega mengandi og fyrir utan að vera mjög frek á bæði vatn og landrými þá ber hún ábyrgð á um 20% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda. Sömu rannsakendur áætla að losun gróðurhúsalofttegunda árið 2050 yrðu um 3,4 gígatonn á ári ef skipt væri yfir í vegan-fæði í stað 11,4 gígatonna á ári með áframhaldandi dýraáti. Það væri því fræðilega hægt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði um 70% með því að breyta yfir í vegan-fæði. Rannsakendurnir skoða einnig áhrif þess að skipta yfir í ‘heilsufæði’ (meira af ávöxtum og grænmeti og minna af rauðu kjöti) og grænmetisfæði (engin dýr en dýraafurðir eins og egg og mjólk) og sýna fram á einhvern ávinning með slíkum breytingum en þó ekki eins mikinn og eins afgerandi og þegar vegan-fæði á í hlut. Ofangreind rannsókn er ekkert einsdæmi og hún byggir á og vitnar í margar aðrar rannsóknir sem hafa komist að sambærilegum niðurstöðum. Skaðleg áhrif dýraframleiðslu á heilsu manna, umhverfi jarðar og lífsgæði dýranna eru stórkostleg og ótvíræð.
Ólíklegt er að allir muni að byrja að borða vegan fæði á næstunni og líklega eru margir sem sjá litla ástæðu til þess að minnka neyslu sína á dýrum og dýraafurðum. Kannski vegna þess að þeim finnst beikon svo ógeðslega gott á bragðið eða áferðin af tofu heldur óþægileg. Að sjálfsögðu, í ljósi upplýsinganna, hafa slík rök enga raunverulega vigt.
Réttlæting með vísun í rándýr
Sumt fólk vill meina að vegna þess að mennskir frumbyggjar lifðu á kjöti þá sé sjálfsagt að við gerum það í dag og aðrir benda á ljón og önnur rándýr og telja að það sé hluti af gangi náttúrunnar að við borðum önnur dýr. Þessi rök og önnur sambærileg eru samt einungis veikar átyllur til að réttlæta slæmt atferli því að sjálfsögðu berum við okkur ekki saman við frumbyggja eða ljón þegar kemur að öðrum siðferðislegum og/eða hagnýtum álitamálum. Enn aðrir benda á, jafnvel yfirlýstir dýravininir, að með því að hætta að borða og framleiða dýrin muni það valda því að þau deyi út. Þær breytingar sem hér er talað um og hvatt til að við tileinkum okkur gerast ekki á einni nóttu og miðað við fjölda þessarra dýra er það nokkuð langsóttur möguleiki að þau muni deyja út í bráð. Engu að síður er vert að íhuga hvað gæti tekið við fyrir þessi dýr ef að því kæmi að þau yrðu ekki fjöldaframleidd og borðuð. Þar mætti líklega helst hugsa sér einhvers konar dýraathvörf þar sem hugað yrði að velferð dýranna af einurð og alúð þar sem endastöð þeirra væri ekki á matardiskunum okkar. Mun fleiri átyllur eru í vopnabúri þeirra sem reyna að verja sitt dýraát með vafasömum rökum sem hafa verið hrakin annars staðar og verða ekki gerð frekari skil hér.
Breytingar eru mögulegar
En hvað, ef eitthvað, er hægt að gera til að koma þessum málum í réttan farveg og í átt til betri vegar? Hver einstaklingur hefur mikinn kraft og, eins og frægt er orðið, þá fylgir miklum krafti líka mikil ábyrgð. Þannig getur hver og einn ákveðið fyrir sig að neita að vera þátttakandi, eða í það minnsta minnkað þáttöku sína, í því gerræði sem felst í framleiðslu dýra til manneldis. En betur má ef duga skal. Á stjórnunarstigi mætti gera gagngera enduskoðun á þeim styrkjum sem veittir eru til hefðbundins landbúnaðar og flytja fjármagn frá dýraframleiðslu yfir í grænmetisframleiðslu. Samhliða mætti styðja bændur sem myndu viljugir skipta úr framleiðslu dýra yfir í annan búskap. Einnig mætti skoða og efla þá möguleika sem felast í ylræktun og annars konar nýsköpun í fæðurækt innan plönturíkisins.
Við drepum 6 milljón dýr á ári
Á Íslandi eru um 6 milljón dýr drepin á hverju ári. Því fylgir oft mikið og alvarlegt ofbeldi. Dýrin eru beitt kynferðislegu ofbeldi þegar þau eru gerð ólétt með gervifrjóvgun. Og svo eru þau beitt ofbeldi þegar við tökum afkvæmi þeirra, drepum þau og borðum. Við getum og við eigum að minnka ofbeldið gagnvart þessum dýrum. Við getum og eigum að taka færri afkvæmi frá þeim. Við getum og við eigum að drepa mun færri en 6 milljón dýr á ári. Með því má ætla að það skapaðist verulegur heilsufarslegur, fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur sem og ómældur ávinningur þeirra dýra sem ekki þyrftu að þjást.
Athugasemdir