Hverjar voru mestu og mannskæðustu hörmungar 20du aldar? Seinni heimsstyrjöldin? Fyrri heimsstyrjöldin? Borgarastríðið í Kína? Borgarastríðið í Rússlandi?
Onei, það var spænska veikin.
Að minnsta má leiða að því góð rök. Þótt oft sé erfitt að telja hina látnu þegar miklar skelfingar ríða yfir, þá telja margir fræðimenn að í spænsku veikinni hafi allt að 100 milljónum manna látið lífið. Sumir telja að hinir látnu hafi verið öllu færri, en vel má rökstyðja þessa tölu.
Og hafi 100 milljónir dáið, þá dóu til dæmis fleiri á þeim þremur árum þegar veikin geisaði en féllu samanlagt þann áratug sem fyrri og síðari heimsstyrjaldirnar stóðu samtals.
En var þessi veiki upprunnin á Spáni? Af hverju er hún kölluð spænska veikin?
Ástæðan fyrir nafngiftinni er fyrst og fremst sú að þegar faraldurinn var að komast í hámæli á útmánuðum og vorið 1918, þá stóð fyrri heimsstyrjöldin enn sem hæst. Miklir bardagar stóðu yfir á vesturvígstöðvunum og blöðin á Vestur-Evrópu voru múlbundin á klafa ritskoðunar yfirvalda.
Það mátti ekki segja frá mannfallinu sem veikin olli af ótta við að það drægi kjark úr íbúum stríðslandanna.
Hins vegar var Spánn hlutlaus í stríðinu og því gátu blöðin óhindrað sagt frá þeim hörmungum sem þessi áður óþekkta plága olli þar.
Þannig komst á nafnið spænska veikin eða spænska inflúensan.
En hvar kom þá veikin upp?
Ýmsar kenningar eru uppi.
Ein er sú að veikin hafi komið upp í Kína í nóvember 1917 og borist til Vesturlanda og síðan út um heim allan með kínverskum verkamönnum sem fluttir voru til Evrópu og Ameríku í stórum stíl til að fylla í skörð þeirra verkamanna sem fóru í stríðið.
Þessi kenning hefur þó ekki náð mikilli útbreiðslu.
Önnur kenning hermir að veikin hafi komið upp í herbúðum Bandamanna í Étaples á Ermarsundsströnd Frakklands. Þar var hrúgað saman miklum fjölda veikra og særðra hermanna af ýmsu þjóðerni og ljóst er að spænska veikin var að minnsta kosti mjög fljót að koma sér þar fyrir, ef hún er ekki beinlínis upprunnin þar. Samkvæmt þessari kenningu var um að ræða inflúensu í fuglum sem stökkbreyttist og smitaði þá svín sem aftur smituðu hermennina í búðunum þegar þeir átu grísaketið.

Svo herma kenningar að veikin hafi fyrst komið upp í Mið-Asíu, eins og títt er um plágur samkvæmt hefðbundinni söguskoðun, en einn fræðimaður hefur á hinn bóginn haldið því fram að Austurríki hafi verið upphafsstaðurinn.
Hins vegar hefur Laura Spinney, sem nýverið gaf út bók um spænsku veikina, komist að þeirri niðurstöðu að líklega hafi veikin komið upp í Kansas í Bandaríkjunum.
Sú kenning er raunar alls ekki ný. Fyrsta staðfesta dæmið um þessa lífshættulegu inflúensu er frá herbúðum í Kansas þar sem óbreyttur dáti að nafni Albert Gitchell veiktist að morgni 4. mars 1917.
Um hádegisbil hafði hann smitað 100 aðra.
Fræðimönnum hefur hins vegar gengið illa að trúa því að svo ofsafengin plága sem spænska veikin geti hafa verið upprunnin á svo sakleysislegum stað sem Kansas. Hún hljóti upprunalega að hafa komið annars staðar frá. Frá einhverjum „exótískari“ stað.
En Spinney er sem sagt á því að kenningin um upprunnann í Kansas sé að öllum líkindum rétt.
Sem segir okkur að svona hættuleg og bráðsmitandi inflúensa getur komið upp hvar sem er.
Enda er það niðurstaða Lauru Spinney að hér um bil hið eina sem segja megi með vissu um spænsku veikina sé þetta:
Hún mun snúa aftur.
Athugasemdir