Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Reykjavíkurborg af kröfum Tónlistarskólans í Reykjavík í dag.
Líkt og Stundin hefur áður fjallað um reyndi skólinn að fá viðurkennt með dómi að greiðsluskylda lægi á borginni vegna kennslu- og stjórnunarkostnaðar við nemendur í framhaldsnámi í hljóðfæraleik og miðstigi og framhaldsstigi í söng fyrir síðustu þrjú skólaár. Allt kom fyrir ekki.
Sumarið 2011 gerði ríkið samkomulag við sveitarfélögin um að ríkissjóður veitti hundruðum milljóna til tónlistarmenntunar á framhaldsstigi, en ágreiningur hefur verið um hvort borginni beri að greiða það sem upp á vantar til að tónlistarskólarnir í Reykjavík geti haldið áfram starfsemi sinni.
Í dómi Héraðsdóms er bent á að sveitarfélög ráða málefnum sínum sjálf og ráðstafa fjármunum í samræmi við fjárhagsáætlanir hvers árs. „Er fallist á með stefnda að ekki verði séð að lög leggi honum á herðar skyldu til að veita fjármunum til tónlistarskóla, þó hann hafi gert það um árabil,“ segir í dóminum.
Lögfræðilega séð virðist Reykjavíkurborg því heimilt að fjársvelta tónlistarskólana á höfuðborgarsvæðinu. Meðal annars elsta starfandi tónlistarskóla á Íslandi, sem stofnaður var árið 1930.
Og þá vaknar spurningin: vilja Dagur B. Eggertsson og meirihluti borgarstjórnar hafa það á samviskunni að tónlistarskólarnir lyppist niður eða hætti jafnvel starfsemi sinni? Hafa vinstrimenn í borgarstjórn engar áhyggjur af því að framhaldsnám í tónlist verði forréttindi hinna ríku?
Í opnu bréfi sem skrifað var fyrir hönd Samtaka tónlistarskóla í Reykjavík á dögunum kemur fram að á fundi með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra vorið 2014 hafi hann sagt „eitthvað á þá leið að hann tryði því ekki að Illugi Gunnarsson vildi að tónlistarskólarnir færu á hausinn á hans vakt“.
Ætli borgarstjóri trúi því í alvörunni að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra sem hefur glatað öllu sínu pólitíska kapítali vegna spillingarmáls og er í óða önn að grafa undan RÚV (með eindregnum stuðningi flokksins síns), grípi skólana í fallinu?
Það er tvískinnungsháttur að tala um mikilvægi íslensks tónlistarlífs á tyllidögum en höggva að rótum þess þegar teknar eru ákvarðanir um fjárveitingar. Fari svo að tónlistarskólarnir á höfuðborgarsvæðinu grotni niður, þá mun það gerast vegna pólitískra ákvarðana stjórnmálamanna sem telja framhaldsmenntun í tónlist ekki peninganna virði.
-------------
Fyrirvari: Höfundur tengist tónlistarkennara fjölskylduböndum.
Athugasemdir