Þeim varð ekki svefnsamt um nóttina. Raunar höfðu þeir sofið lítið næstu fimm sólarhringa á undan. Þeirra eigin stórskotalið hafði séð um það. Það hafði þrumað yfir þeim nær stanslaust nótt sem nýtan dag og steininn hafði tekið úr síðasta sólarhringinn þegar 250.000 fallbyssu- og sprengikúlum var skotið yfir að skotgröfum Þjóðverja handan við einskismannslandið. Slík var sú skothríð að hún heyrðist alla leið yfir Ermarsundið og til London sem var í rúmlega 260 kílómetra fjarlægð. Sú vegalengd samsvarar beinni loftlínu frá Gróttuvita á Seltjarnarnesi og austur alla leið að Hvannadalshnjúk. Gamlir menn sem voru að viðra hundana sína á Hamstead-heiðinni rétt norður af London heyrðu eins og lágt muldur þrumunnar úr suðaustri og grunaði fljótlega hvað væri á seyði, enda hafði lengi verið búist við öflugri sókn breskra herdeilda á vígstöðvunum í Frakklandi. Og þar biðu nú hermennirnir vansvefta eftir skipun um að skreiðast upp úr skotgröfum sínum og byrja að feta sig með riffil og byssusting yfir að víglínu Þjóðverja, yfir einskismannslandið og gegnum gaddavírsflækjurnar sem stórskotaliðshríðin síðustu sólarhringa hafði vonandi tætt mikil skörð í.
Þegar skothríðin þagnaði svo rétt fyrir hádegið vissu þeir að nú væri ekki eftir neinu að bíða. Skipunin kom svo klukkan eitt. Tugþúsundir ungra manna, sem sumir voru vart af barnsaldri, bitu á jaxlinn og kröfluðu sig upp úr skotgröfinni. Beindu byssustingjum sínum í átt að Þjóðverjum, ráku upp heróp og hlupu af stað. Áður en herópið var svo mikið sem þagnað voru hinir fyrstu þeirra dauðir. Þegar kom að gaddavírnum voru mörg hundruð þeirra liðin lík. Og þegar liði að kvöldi yrðu 20.000 þeirra dauðir. Þá eru bara taldir þegnar breska heimsveldisins en við bættust þúsundir Frakka og Þjóðverja. Blóð þeirra allra myndi blandast vatninu í nálægri ánni sem þessi hildarleikur var kenndur við, Somme hét það fljót, og orrustan er talin ein sú hrottalegasta og skelfilegasta í sögunni. Og nú eru einmitt hundrað ár síðan hún hófst.
Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst í ágúst 1914 ætluðu Þjóðverjar að slá út Frakka og Breta með leiftursókn í vestur líkt og þeir höfðu gert í stríðinu 1870. Eftir að hafa knúið fram uppgjöf herja bandamanna og náð París töldu herstjórar Þjóðverja sig svo hafa nægan tíma til að flytja hersveitirnar austur á bóginn og knésetja Rússa. Þessi áætlun fór út um þúfur. Sókn Þjóðverja rann út í sandinn í Norður-Frakklandi og þar grófu báðir aðilar sig niður í hinar alræmdu skotgrafir sem urðu varla sóttar með þeirra tíma hernaðartækni. Allar tilraunir bæði Þjóðverja og bandamanna til að rjúfa þráteflið fóru út um þúfur. Dátum var skipað að stökkva upp úr skotgröfum sínum og stefna yfir hið svonefnda einskismannsland að skotgröfum óvinanna, sem stundum voru aðeins í fárra tuga metra fjarlægð, en á leiðinni voru þeir berskjaldaðir fyrir vélbyssuskothríð fjendanna og stráféllu. Það gat kostað þúsundir mannslífa og margra vikna bardaga að ná landskika sem svaraði hundrað metrum á breidd og þá var sóknin yfirleitt runnin út í sandinn.
Þrátt fyrir blóðug hjaðningavíg af þessu tagi út árið 1914 og allt árið 1915, þá datt herforingjum stríðsaðila ekkert nýtt ráð í hug til að rjúfa þráteflið. Það var helst að þeir ímynduðu sér að enn meiri sóknarþungi, enn ógnarlegri stórskotahríð, enn fleiri dátar sendir út á einskismannslandið og enn meira blóð hlyti að lokum að duga. Þegar kom fram á árið 1916 ákváðu Bretar og Frakkar að efna til mikillar sóknar við ána Somme og töldu sig hafa þar möguleika á að brjótast í gegn. Ákveðið var að ráðast til atlögu um mitt sumar. Þegar til kom varð minna úr plönum bandamanna en ætlað var. Þjóðverjar hófu sína eigin sókn við Verdun í febrúar og Frakkar þurftu að senda þangað mikið af þeim herstyrk sem þeir höfðu ætlað að nota við Somme. Sóknin við Somme var áfram á dagskrá en varð nú í raun að tilraun til að létta álaginu af Frökkum við Verdun og það voru Bretar sem báru hitann og þungann af sókninni, að minnsta kosti í upphafi.
Sóknin hófst laugardaginn 1. júlí. Þá skriðu piltarnir upp úr skotgröfunum.
Þjóðverjar höfðu auðvitað fyrir löngu áttað sig á hvað var í undirbúningi. Þó ekki væri annað hafði þrotlaus stórskotahríðin síðustu sólarhringana fyrir árásina fært þeim sanninn um það. Þeir höfðu því styrkt mjög varnir sínar við Somme og voru hvergi smeykir. Skotgrafakerfi þeirra var í raun þrefalt – fremst voru skotgrafir framvarðaliðs í skjóli við ógurlegar gaddavírsflækjur sem enginn nema fuglinn fljúgandi komst óskaddaður yfir, þá komu aðal skotgrafirnar sem voru sérstaklega styrktar með steypu og járn í bak og fyrir og í námunda við þær voru vélbyssuhreiðrin ægilegu sem sneiddu niður hermenn sem bisuðu við að komast gegnum gaddavírinn. Aftast voru svo skotgrafir varaliðsins sem beið eftir að koma til aðstoðar ef bandamenn næðu einhvers staðar alla leið yfir í þýsku megingrafirnar.
Aðstæðurnar sem hermönnum bandamanna var ýtt út í voru í raun ótrúlegar. Að ætla mönnum að hlaupa beint á móti þrotlausri skothríð, yfir sundursprengt drullusvað, gegnum eða yfir eða undir gaddavírsflækjur og stökkva síðan niður í skotgrafir þar sem fjendur biðu með reista byssustingi – að ætla mönnum slíkt var í raun bæði ótrúlegt og ógeðslegt. Enda stráféllu Bretarnir. Stórskotahríðin dagana fimm á undan hafði að vísu drepið dálítið af Þjóðverjum, en annars hafði hún verið til ógagns frekar en hitt. Sprengikúlurnar sem féllu á einskismannslandið höfðu tætt í sundur hóla og hæðir svo skjól var nú ekkert á leiðinni yfir að skotgröfum Þjóðverja. Og tilraunir stórskotaliðs bandamanna til að sprengja skörð í gaddavírsflækjurnar á vissum stöðum, svo dátar þeirra ættu þar greiða leið í gegn, þær höfðu bara orðið til þess að Þjóðverjar sáu í hendi sér hvaða leiðir bandamenn ætluðu og þeir höfðu stillt upp vélbyssum sínum samkvæmt því.
Niðurstaðan varð skelfileg slátrun. Þeir sem dóu fyrst og snöggt, það voru þeir heppnu. Öðrum blæddi út á einskismannslandinu, kannski búið að skjóta af þeim útlim eða útlimi, tæta upp á þeim kviðinn svo iðrin lágu úti, eða þeir festust í hnífskörpum gaddavírnum og hver hreyfing opnaði nýtt sár án þess að nokkurrar hjálpar væri von, og þeir lágu þarna kannski klukkustundum að deyja og hafa áreiðanlega hugsað til hvers – til hvers höfðu þeir tekið sig upp frá sveitaþorpum í Somerset eða sjávarþorpum Nýfundnalands eða sólbökuðum ströndum Bermúda og til hvers voru þeir komnir frá fjallarótum Himalajafjalla til að deyja þarna í sundurtættri forinni í Norður-Frakklandi?
Að verja land sitt, já, þeir hafa reynt að hugga sig við það þar sem þeir lágu hreyfingarlausir og vissu ekki hvort yrði þeim fyrr að fjörtjóni, að það var búið að skjóta af þeim allan neðri part andlitsins eða hitt að þeir köfnuðu í drullunni, og allt í kringum þá héldu fjöldamorðin áfram, en hvernig græddu land þeirra og þjóð á að þeir skyldu geispa golunni hér? Um einhverja áþreifanlega hagsmuni snerist fyrri heimsstyrjöldin vissulega – þeir eru til sem halda því fram að raunveruleg undirrót stríðsins hafi verið verð á nautakjöti í Serbíu – en aðallega voru það þó þjóðernisrígur og keppnisrembingur svonefndra mektarmanna stríðsþjóðanna sem höfðu leitt til þessarar heljarslóðarorrustu.
Og furðulegt að eftir að Evrópumenn höfðu 30 árum seinna fundið eina ráðið – meira samstarf og samvinnu – til að koma í veg fyrir að þjóðernisofstæki og þjóðametnaður leiddu sífellt til nýrra styrjalda, þá skuli nú á vorum dögum uppi raddir um að slíta því samstarfi og hefja aftur þjóðrembinginn til vegs og „virðingar“.
Orrustan við Somme ætti þó að færa mönnum heim sanninn um til hvers slíkt leiðir. Þeir 20.000 sem féllu bara af Bretum þann 1. júlí 1916 jafngilda því að allir íbúar Akureyrar væru drepnir á einum degi, og hverjum einasta Húsvíkingi slátrað til öryggis í leiðinni. Orrustan stóð svo í marga mánuði í viðbót með fáeinum hléum. Bandamenn sóttu fram og náðu þegar best gekk níu kílómetra inn á þýskt yfirráðasvæði. Það er eins og leiðin frá Lækjartorgi upp að Rauðavatni og til að ná þessum árangri var fórnað tugþúsundum mannslífa. Og drepnar tugþúsundir Þjóðverja. Svo náðu Þjóðverjar mestöllu landsvæðinu aftur.
Þann 18. nóvember taldist orrustunni við Somme vera lokið. Alls féllu 95.675 Bretar í orrustunni. Það eru jafnmargir og rúmast á Camp Nou-leikvanginum í Barcelona troðfullum. Ímyndið ykkur Camp Nou fullan af dauðu fólki og þið sjáið mannfallið fyrir ykkur. Svo særðust 324.000 Bretar, næstum jafn margir og allir Íslendingar nú á dögum.
Þetta voru fyrst og fremst þeir ungu menn sem höfðu boðið sig fram til herþjónustu árið 1914, fullir af eldmóði.
En þótt orrustan við Somme hafi sérstaka merkingu fyrir Breta út af hinu tröllslega mannfalli fyrsta daginn, þá voru það alls ekki þeir einir sem féllu.
Frakkar misstu 50.756 menn og 150.000 til viðbótar særðust.
Og þótt Þjóðverjar sölluðu niður fyrstu sóknir bandamanna, þá fór samt svo að lokum að þeir misstu enn fleiri menn á blóðvöllunum við Somme en bandamenn. Alls létu lífið 164.055 þýskir dátar. Hálf íslenska þjóðin. Og 300.000 særðust.
Gleymum ekki þeim særðu. Margir þeirra báru aldrei sitt barr. Og ennþá fleiri voru stórkostlega skaddaðir á sálinni eftir að hafa staðið í kúlnahríðinni miðri og séð félagana allt í kring sprengda í tætlur, eða rista með byssustingjum.
Eftir að slátruninni við Somme lauk loksins voru enn tvö ár eftir af stríðinu.
Athugasemdir