Hingað til hefur verið á almanna vitorði að ætt manna hafi klofnað frá ætt mannapa, það er að segja simpansa, fyrir um sjö milljónum ára. Talið er að það hafi gerst í miðri Afríku og að mannaættir hafi síðan haldið kyrru fyrir í Afríku í einhverjar fimm milljónir ára, og búið þar í námunda við frændur sína simpansana.
Á þeim tíma hafi „menn“ þróast frá suðuröpum eins og hinni víðfrægu Lucy og til tegunda eins og homo erectus sem lagði land undir fót frá Afríku fyrir um það bil tveim milljónum ára og dreifðist víða um veröld.
Síðan hafi sú manntegund sem við tilheyrum, homo sapiens, þróast út frá manntegundunum sem eftir urðu í Afríku og seinna haldið í langför um heiminn í kjölfar homo erectus og þeirra systkina.
Þessi kenning hefur notið yfirgnæfandi vinsælda meðal fræðimanna upp á síðkastið en er þó ekki alveg óumdeild. Til dæmis fundust á árum síðari heimsstyrjaldar í Grikklandi tennur úr einhvers konar mannapategund sem virtist vera afar forn. Frásagnir um þessa tegund voru þó ekki sérlega áreiðanlega í umróti stríðsins og seinna reyndist ekki hægt að grafa á staðnum þar sem leifar tegundarinnar - sem var þá kölluð graecopithecus eða „gríski apinn“ - áttu að hafa fundist vegna þess að eigandi svæðisins hafði grafið þar sundlaug sem hann vildi ekki hrófla við.

Nú hefur hins vegar verið tilkynnt um nýjar rannsóknir á leifum graecopithecus sem virðast benda til þess að þær séu að minnsta kosti nokkur hundruð þúsund árum eldri en sahelanthropus tchadensis en það er tegund sem hingað til hefur verið talin elsti ættleggurinn á leið mannsins frá simpansanum - eða öllu forfeðrum hans.
Sahelanthropus tchadensis fannst eins og nafnið bendir til í Tsjad í Mið-Afríku.
Leifarnar af graecopithecusi eru hins vegar bæði frá Grikklandi og Búlgaríu.
Fræðimenn leggja áherslu að þau sýnishorn sem nú hafa verið rannsökuð af graecopithicusi séu afar fá og í rauninni sé ekki endilega æskilegt að draga of víðtækar ályktanir af þeim. Fyrst og fremst er um að ræða tennur. Vel geti líka verið að enn eldri leifar eigi eftir að finnast í Afríku.
En reynist niðurstaðan rétt stöndum við frammi fyrir heillandi spurningu:
Ef graecopithecus var fyrsti „apamaðurinn“ hvað varð þá um hann? Þróaðist hann áfram í Evrópu eingöngu og dó að lokum út þar? Eða ferðuðust niðjar hans víða og þar á meðal aftur til Afríku þar sem þeir héldu áfram þróuninni til manns?
Eða hófst sama þróun nokkurn veginn samhliða í Evrópu og Afríku (en aðeins á undan í Evrópu) en Afríku-apamennirnir tóku svo á einhverjum tímapunkti afgerandi forystu?
Athugasemdir