Eftir að Mjólkursamsalan varð uppvís að því að brjóta samkeppnislög, sem voru sett til að vernda neytendur gegn hringamyndunum, hafa viðbrögð hennar bent til þess að skaðleg viðhorf séu að gerjast hjá fyrirtækinu.
Svo virðist sem forstjóri fyrirtækisins beri takmarkaða virðingu fyrir neytendum, lögum og eftirlitsstofnunum, en þess meiri virðingu fyrir sjálfum sér, sumarfríi sínu og eigin dómgreind.
Viðbrögð Ara Edwald, forstjóra MS, við lögbrotum og sekt MS, voru eftirfarandi:
1. Að hóta neytendum
Ef MS verði sektað muni það hækka verð á vörunum, sem MS hefur beitt brögðum og brotið lög til að halda sér í markaðsráðandi stöðum með. Eins og Ari sagði við RÚV: „Þannig að svona sektir, hvort sem það eru 100 milljónir, 1.000 milljónir eða 2.000 milljónir koma bara frá einum stað. Úr vösum neytenda… Á endanum er ég að segja það, að hvort sem það er þessi sekt eða önnur útgjöld, þá koma þau útgjöld MS ekki annars staðar frá en úr vösum neytenda. Þannig að þetta bítur dálítið í skottið á sér, svona sektarákvarðanir, við þær aðstæður sem ríkja á þessum markaði.“ Sem sagt, það er sama hvað þeir gera, og sama hvað við gerum, við töpum alltaf.
2. „Ég er í fríi“
Að kvarta yfir því að Samkeppniseftirlitið birti úrskurð sinn þegar forstjóri MS og fleiri eru í fríi í útlöndum. Í frétt Vísis í dag er greint frá því að Vísir hafi náð tali af Ara þar sem hann er staddur erlendis í fríi með fjölskyldunni sinni. „Þetta mál tekur til áranna 2008 til 2013 og hefur tekið nokkur ár. Er þá eðlilegt að dengja út svona úrskurði 7. júlí án nokkurrar viðvörunar, þegar allir eru í sumarfríi? Þetta er ekki boðlegt og alveg örugglega ekki tilviljun.“
3. „Ég veit betur“
Ari er ósammála Samkeppniseftirlitinu. „Ég var nýbúinn að afla mér lögmannsréttinda þegar ég kom inn í þetta starf og setti mig inn í þetta mál út frá áhuga á að átta mig á því hvernig landið lægi. Og það kemur mér mjög á óvart hvernig Samkeppniseftirlitið hefur haldið á þessu máli. Og ég tel að þeir séu að draga mjög rangar ályktanir af því sem þarna er undir.“
4. Samkeppniseftirlitið er „lítilmannlegt“
Að mati Ara hefur Samkeppniseftirlitið rangt fyrir sér í því að MS hafi leynt gögnum í málinu og hafi sjálft átt að kalla eftir þeim. „Og mér finnst lítilmannlegt af þessari stofnun, í staðinn fyrir að axla ábyrgð á þessum handarbakavinnubrögðum að vilja klína þeim á MS með þeim hætti.“ Samkeppniseftirlitið segir hins vegar að MS hafi villt fyrir um eftirlitinu. „Þá hefur MS orðið bert að því að veita samkeppnisyfirvöldum rangar upplýsingar og lét undir höfuð leggjast að upplýsa eftirlitið um mikilvæg gögn.“
Staðreyndin er sú að MS seldi tengdum aðilum hráefni undir kostnaðarverði, en seldi sjálfstæðum aðilum, sem ekki voru í tengdri eigu, hráefnið á mun hærra verði. Eins og Samkeppniseftirlitið orðaði það: „MS misnotaði markaðsráðandi stöðu sína með alvarlegum hætti“.
Rökstuðningur Samkeppniseftirlitsins er skýr og afgerandi, óháð öllu því sem Ari segir: „Mjólkursamsalan er eina fyrirtækið hér á landi sem selur hrámjólk í heildsölu til annarra mjólkurvöruframleiðenda, ásamt því að nýta hana til eigin framleiðslu ... MS er í afar sterkri stöðu á íslenskum mjólkurmarkaði og tekur við um 90% af þeirri hrámjólk sem bændur framleiða. Til viðbótar er MS í nánum tengslum við næst stærsta fyrirtækið á mjólkurmarkaði, Kaupfélag Skagfirðinga (KS). Eru þessi fyrirtæki saman nánast einráð í mjólkurviðskiptum hér á landi.“
Þegar Ari svarar um grundvallarmálið hjá RÚV liggja staðreyndirnar um meginatriðin skýrar fyrir, en hann fer að beina athyglinni að öðrum hlutum - eins og að bændur fái gott verð frá MS. En kúabændurnir sem fá góða verðið eru reyndar eigendur MS.
Á íslensku má ekki alltaf finna svar. Ari vitnar í skýrslu hagfræðistofnunar um mjólkuriðnaðinn á Íslandi, því til stuðnings að MS skili góðu verði til neytenda. Í þeirri skýrslu er reyndar lagt til að „undanþágur mjólkurvinnslufyrirtækja frá samkeppislögum verði felldar úr gildi“. Þrátt fyrir undanþágur tókst MS að finna leið til að misnota stöðu sína. Ari segir verð á mjólkurvörum hafa hækkað lítið. „... hefur MS gengið vel að skila lægra verði til neytenda, þannig að mjólkurvörur hafa hækkað minna en aðrar matvörur,“ sagði Ari. En samkvæmt könnun ASÍ hefur orðið veruleg hækkun á mjólkurvörum síðasta ár. Það má til dæmis sjá í frétt ASÍ af þróun verðs á neytendavörum undir fyrirsögninni „Mjólkurvörur hækka mest milli ára“.
Auðmýktarskert svör forstjórans benda til djúpstæðs virðingarleysis MS við neytendur, lög og eftirlit. Út frá samfélagslegri ábyrgð er þetta ekki beint rjómi allra viðhorfa, heldur súr, skilin, kögglafyllt mjólk. Þessi mjólk er ekki góð.
Athugasemdir